James Bond er ákaflega heillandi persóna sem á sér marga aðdáendur. Konur dýrka hann - maðurinn er náttúrulega geðveikur sjarmi. En karlar dýrka hann líka - ég held að það sé mikið til öfund yfir líferni mannsins - fagrar konur, spilavíti, bílar og tæknidót, framandi lönd og ögrandi verkefni - og hann vinnur alltaf. Það er akkúrat þessi formúla sem dregur spennta gesti í kvikmyndahús í hvert sinn sem Bondliðið hefur sett saman nýja afurð, nýjar hættur sem steðja að heiminum og aðeins James Bond getur komið til bjargar. Spenningurinn er magnaður upp alls staðar í kringum okkur og fólk setur sig í stellingar.
Mögulegt er að spenningur síðustu mánaða yfir Íslandsvininum Die Another Day hafi gert það að verkum að væntingar mínar urðu miklar fyrir þessa mynd, jafnvel of miklar. Hugsanlegt er að þátttaka Íslands í myndinni hafi ýtt undir enn meiri væntingar en ella hefði verið. Allt að einu er fallið hrikalega hátt. Die Another Day er í mínum huga gríðarleg vonbrigði. James Bond hefur loksins misstigið sig.
Í samræmi við breytta heimsmynd er óvinurinn Norður-Kórea. Það þurfti í sjálfu sér ekki að koma á óvart. James Bond hefur ávallt ástundað pólitískan rétttrúnað sem sést best á þróun á óvinasveitum hans. Í fyrstu voru það eingöngu hin illu Sovétöfl og leynisamtök innan þeirra sem hann áttist við en síðar fléttuðust ýmis Evrópuríki röngum megin Járntjaldsins inn í sögurnar. Hin síðustu ár hefur þetta verið mun óvissara og erfiðara að vita óvinina fyrirfram, m.a. hefur þurft að notast við illgjarna fjölmiðlamenn til að gera óvininn nógu ægilegan. En eftir hamfarir síðasta árs mátti vel búast við að hið illa möndulveldi Norður-Kórea yrði notað sem grýla þessarar myndar.
En yfir að sögunni sjálfri. Byrjunin var mjög efnileg. Bond lenti í miklum hrakningum á ferð sinni um hið hrjáða Asíuríki Norður-Kóreu og var tekinn til fanga. Eftir rúmlega eins árs dvöl slapp Bond hins vegar úr prísundinni með skiptum á föngum en var um leið grunaður um að hafa brotnað undir pyntingum og lekið mikilvægum upplýsingum. Í framhaldinu var Bond útskúfaður af bresku leyniþjónustunni og sviptur drápsleyfinu sem honum er svo kært. En njósnarinn lætur ekki bugast við þetta mótlæti heldur brýst út úr sjúkraskipi og flýr til Hong Kong. Þaðan liggur leiðin til Kúbu þangað sem ákaflega vondur maður hefur leitað sér lækninga en Bond telur að þessi maður geti hjálpað honum að ná aftur fyrra líferni. (Ég tók jafnframt eftir því að Bond drap nokkra í leyfisleysi.)
Frammistaða Bond á Kúbu og í skylmingaklúbbi í London færir hann aftur heim í bresku leyniþjónustuna. Þá bregður hinum óviðjafnanlega uppfinningamanni Q fyrir og þá fyrst fer ég að hristast af skilningsleysi. Þetta má ekki skilja sem svo að John Cleese höndli hlutverk Q ekki vel, heldur er hugmyndin fáránleg - ósýnilegur bíll? Hvað kemur eiginlega næst? Well, þaðan berst leikurinn í íshöll geðveiks manns á Íslandi, nánar tiltekið á Jökulsárlóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ok, það var semsagt íshöll sem kom næst.
Eigandi íshallarinnar er brjálaður maður sem á yfirborðinu virðist hafa brotist til óheyrilegra auðæfa með því að finna demantanámu á Íslandi. (Og við sem héldum allan tímann að það væri gullskip hérna.) Hérna fer mann fyrst að gruna að eitthvað einkennilegt sé á seyði. Á samkundu í íshöllinni kemur fram að brjálæðingurinn hefur útbúið geimspegil - einskonar auka sól - sem getur búið til ljós án neinnar fyrirhafnar. Þetta hlýtur að eiga að nota í hernaðarlegum tilgangi enda leggur enginn svona mikið á sig til að hjálpa sveltandi heimi að rækta korn.
Eftir bílaeltingaleik inni í íshöllinni, æsilega senu á vélsleðum og brimbrettasiglingu á nýbráðnum ísjaka sem varð hinni nýju sól að bráð berst leikurinn aftur til Norður-Kóreu. Núna á að valta yfir landamærin og taka suðurhlutann. Auðvitað á spegillinn góði að hjálpa til við þetta. Lokaatriðið gerist að mestum hluta um borð í flugvél og síðan þyrlu. Í mínum huga gerir lokasena James Bond í þessari mynd lestar- og þyrluatriðið í Mission Impossible að hreinum barnaleik.
Ekki að ég vilji spilla endinum fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina en sem betur fer fyrir heiminn tekst Bond að bjarga vinum vestrænnar menningar í Suður-Kóreu frá óvinum sínum í norðri. Bond bjargar öllu á endanum.
Þrátt fyrir mikinn og bjartan geimspegil liggur myrkur yfir þessari mynd. Eina týran er líklega frammistaða illmennisins Gustav Graves sem Toby Stephens leikur. Einnig eru stöku brot sem eru í lagi að mínu viti. Bandaríski njósnarann Jinx er túlkaður með ágætum af óskarsverðlaunahafanum Halle Berry. Hún stendur sig í þessari mynd enda ætti að vera nokkuð auðvelt að fá góða dóma þegar gagnrýnendur taka aðeins eftir umbúðunum.
Þegar ég hugsa um Die Another Day er heildarmatið mjög dapurt. Myndin er óþægileg að því leyti að yfirleitt hef ég getað skrifað undir allflest af því sem James Bond hefur gert í sínum myndum. Vissulega hafa ýmis atriði verið á mörkum þess ómögulega en yfirleitt hef ég sætt mig við brellurnar sama hversu ótrúlegar þær hafa verið. Rökstuðningurinn hefur alltaf verið sá sami; “þetta er nú einu sinni James Bond”. Hérna er hins vegar farið langt yfir strikið og afurðin eins konar samsuða af Matrix og Superman í bland við gamla Bondtakta.
Ég var í vondu skapi þegar ég kom af myndinni og gremjan hefur vaxið síðustu daga eftir því sem ég hef hugsað meira um myndina. Smávægilegan hluta af ánægju minni tók ég á nýjan leik þegar ritstjóri Kvikmyndir.com féllst á að birta skoðun mína á Die Another Day þrátt fyrir að skoðun gagnrýnanda þeirra sé allt önnur. Þetta er til merkis um trúverðugleika og skoðanafrelsi.
Í stað þess að ergja mig meira verð ég að láta mér nægja að biðla til eigenda vörumerkisins James Bond að hugsa sig aðeins um áður en næsta mynd verður framleidd. Mín tillaga er að handritshöfundurinn verði rekinn, leikstjórinn látinn fara og alvöru hugmyndasmiðir látnir taka við ferðinni. Ég býð mig fram.