
Þegar ég komst til vits og ára fór ég svo að hafa gaman að þöglum hryllings- og spennumyndum á borð við þýsku meistaraverkin Waxworks, The Golem, Nosferatu og Das Kabinett des Dr. Caligari og myndir Fritz Lang, t.d. Metropolis, Die Niebelungen, (Dr. Mabuse), líka myndir Sergei Eisenstein og D.W. Griffith. Svo er náttúrulega líka fullt af dramatískum þöglum myndum sem eru áhugaverðar en ég nenni ekki að standa í einhverri meiriháttar upptalningu nema ég verð að minnast á Óperudrauginn með Lon Chaney, brilljant.
Mig langar að eignast dálítið af völdum þöglum myndum á DVD en úrvalið hérna heima er hreint út sagt algjörlega ömurlegt. Öll DVD innkaup og útgáfa hér virðist miðast við úrkynjaðan og útþynntan popp kúltúr. Ég hef aðeins leitað á erlendum heimasíðum á borð við bandaríska og breska Amazon, Play, DVD Box Office o.fl. en þar virðist ekki um auðugan garð að gresja, sérstaklega hvað varðar gamanmyndirnar. Kannski er ég bara ekki að leita á réttum stöðum. Enn sem komið er hef ég aðeins fest kaup á einni þögulli DVD mynd sem er glæný útgáfa af Metropolis (flott tveggja diska sett) en er á leiðinni að panta slatta af gamla þýska hryllingnum og Fritz Lang. Ég á bágt með að trúa að það sé ekki verið að gefa gamanmyndirnar út í þokkalegum DVD útgáfum.
Það væri gaman ef sjónvarpsstöðvarnar myndu sýna þöglar myndir af og til. RÚV sýndi stundum þöglar myndir á föstudögum hér í den þegar ég var krakki. Þær eru talsvert betri en þessar mjög svo misgóðu (eða mislélegu) Disney myndir sem er verið að sýna núna. Mér finnst algjör synd að krakkar í dag kynnist ekki þessum frábæru myndum. Þau eru að fara á mis við mikið því þessar myndir eru ekki aðeins mjög fjölbreyttar og skemmtilegar heldur líka stór og mikilvægur hluti af kvikmyndasögunni.
Mig langar líka að forvitnast um hvort það séu ekki einhverjir fleiri hérna sem hafa áhuga á þöglum myndum og eiga sér uppáhalds þögla leikara og hvort þið hafið fundið einhverjar góðar þöglar myndir á DVD.