Ichi the Killer - 2001
Leikstjóri: Takashi Miike
Handrit: Sakichi Sato, Hideo Yamamoto
Helstu hlutverk: Nao Omori, Tadanobu Asano
Hróður Takashi Miike hefur svo sannarlega farið víða. Honum virðist hafa tekist að brjóta flesta þá siðferðis staðla sem við höfum, og slegið í gegn með myndum eins og Audition og Visitor Q. Hvoruga þessara mynda hef ég séð, ennþá. Ef þær eru eitthvað í líkingu við Ichi the Killer, þá gæti ég vel hugsað mér að láta reyna aðeins á viðbjóðstaugarnar í mér, eftir að ég jafna mig á Ichi. Hryllings- og spennumyndir eru að mínu mati meinhollar, fá adrenalínið til að renna, við verðum hrædd og skelfd, en þegar við snúum aftur í raunveruleikann líður okkur vel, því við vitum að ekkert svona hendir okkur. Ichi er hinsvegar viðbjóðsmynd, mynd sem fékk mig til að líða illa. En finnst mér það jákvætt? Já, því meirihlutinn af myndum sem maður sér gleymir maður áður en maður er kominn útí bíl eftir bíó, en Ichi the Killer kveður ekki svo auðveldlega.
Þegar Yakuza höfuðgaur að nafni Anjo hverfur sporlaust með hundruðmilljóna Yen verður auðvitað uppi fótur og fyt innan hópsins. Næstráðandinn, sadó-/masókistinn Kakihara (Tadanobu Asano), stjórnar svo leitinni af Anjo. Þeir hafa fulla trú á því að hann sé lifandi. Við hins vegar vitum að hann er það ekki því aðalsöguhetjan Ichi (Nao Omari), myrti Anjo heldur hrottalega í byrjun. Og það er þessi persóna, Ichi, sem óneitanlega er heillandi. Við kynnumst honum betur, skyggjumst inní hræðilega æsku hans þar sem hann var lagður í gróft einelti, og hefur ekki fúnkerað sem persónuleiki síðan. Til þess að hefna sína svo á föntunum sem lögðu Ichi í einelti, einsetti hann sér að verða sterkur og öflugur, leyfa þeim að finna fyrir því. Ichi, sem vinnur fyrir Yakuza leiðtoga sem lagstur er í helgan stein, tekur svo við skipunum og myrðir hvern þann sem ’gæti hugsanlega’ verið einn af föntunum sem lögðu hann í einelti.
Kvikmyndatakan og tónlistin er til fyrirmyndar í þessari mynd. Sagan hins vegar er í meðallagi. Tvær aðalpersónurnar eru ágætar, og leikurinn er fínn. Ofbeldið er algerlega takmarka- og glórulaust. Greip ég allavega einusinni fyrir augun og hugsaði með mér ‘þetta er too much’. Vill ég þar nefna tvö atriði sérstaklega, án þess þó þau geti talist spoiler. Í fyrsta lagi þegar ákveðin persóna sker bita af tungunni á sér, það gerir hann til að endurgjalda misþyrmingu á meðlimi annarrar klíku. Svo í öðru lagi þegar það er verið að pína konu nokkra, og geirvörturnar eru skornar af henni. Kannski var þetta óvenjugróft þar sem ég horfði á ‘uncut’ útgáfu, en þetta fannst mér einum of.
Fínasta mynd engu að síður, mæli með henni fyrir fólk sem vill hömlulaust ofbeldi.
7-/10