Tvöfaldur Tom Hanks Því er oft réttilega haldið fram að vilji maður vita hvort ákveðinn leikari sé virkilega góður, þá sé líta á hann fást við mismunandi verkefni. Ég er mjög fylgjandi þessari reglu, og ákvað því að í stað þess að skrifa grein um tvær myndir með sama manninum í aðalhlutverki, að slá myndunum saman í eina grein með hliðsjón af frammistöðu leikarans. Þessar myndir heita Road to Perdition (2002) og Catch Me if you can (2003). Og sá sem prýðir báðar þessar myndir er auðvitað Tom Hanks.

Road to Perdition (2002)
Í þessari mynd er Tom Hanks undir stjórn einnar af björtu vonum Hollywood, Bretanum Sam Mendes, en hann sló einmitt rækilega í gegn árið 1999 með sína fyrstu mynd í fullri lengd, American Beauty. Hanks fer hér með hlutverk Micheal Sullivan, sem vinnur fyrir John Rooney (Paul Newman), en Rooney ættleiddi Sullivan á unga aldri. Myndin gerist á bannárunum, og er Rooney þessi týpíski mafíuforingi þessa ára. Samband Sullivan og Rooney er mjög náið, og fer það fyrir brjóstið fyrir Connor Rooney (Daniel Craig), sem er blóðiborinn sonur John. Þetta er ekta svona bíómynda öfundsýki sem maður veit að endar ekki vel. Kvöld eitt eru svo Sullivan og Connor sendir til að ‘ræða málin’ við mann sem á að hafa stolið frá fjölskyldufyrirtækinu. Micheal Sullivan Jr. (Tyler Hoechlin), forvitinn um starf föður síns, felur sig í bílnum hjá karli föður sínum og fer með án vitundar Micheal Sr. og Connor. Fundur Micheal Sr. og Connor endar í blóðbaði, og verður Micheal Jr. þar vitni af morðum og má minnstu muna að hann verði sjálfur skotinn þegar Micheal Sr. og Connor áttar sig á þessu.

Þar með er allt breytt.

Sagan í myndinni er köld og sorgleg, en ég fann samt aldrei almennilega samúð fyrir fólkinu. Persóna Hanks er þögul og róleg. Hann er svona á báðum áttum með að virka vel og ekki virka. Ég gæti samt vel trúað því að miklir Tom Hanks aðdáendur hafi tekið þessu hlutverki mjög vel. Mér fannst hins vegar aðrir leikarar standa honum framar í þessari mynd, og kom Jude Law þar mjög vel út sem ljósmyndari og leigumorðinginn Maguire. Hann smellpassaði í hlutverkið og virkaði mjög vel. Paul Newman var bara hann sjálfur, skilaði sínu vel og einnig fannst mér Daniel Craig koma vel út. En Hanks…Hann er bara Hanks að miða byssu í andlitið á óvini sínum, jújú, gefum honum séns. Hann er jú einn af þeim betri í dag.

8+/10

Catch me if you can (2002)

Saga Frank Abengale Jr. er hreint út sagt mögnuð, og Steven Spielberg gerir það sem hann gerir best, gera góðar sögur að frábærri kvikmynd. Sögu Frank Abengale vita flestir orðið, hvernig hann varð flugmaður, læknir og lögfræðingur án þess að hafa nokkru sinni lært nokkuð af þessu þrennu. Leikur Leonardo Di Caprio sem Frank Jr. er nokkuð sterkur að mínu mati, hann er trúverðugur svindlari, flottur á því en einsemdin sem fylgir því að vera sífellt á flótta kemst vel til skila. Christopher Walken er líka mjög flottur sem Frank Abengale Sr., þó ég hafi ekki hlaupið upp til handa og fóta útaf leiknum eins og margir. En mjög góður engu að síður.

Ég ætla mér hins vegar að rita nokkur orð um Carl Hanratty, en Tom Hanks fer með það hlutverk, og gerir það listavel. Carl Hanratty vinnur hjá FBI, við að elta uppi svindlara, menn sem falsta banka tékka og þar frameftir. Hann tekur starfið mjög alvarlega og er góður í sínu fagi. Ólíkt Micheal Sullivan í Road to Perdition, þá er Carl Hanratty ekki beinlínis öryggið uppmálað þegar hann er með byssuhólk í hönd. Þetta túlkar Tom Hanks mjög vel, og fékk ég jafnvel smá samúð með Carl, kannski vegna þess að hann virkar frekar klaufskur. Svo þegar líður á myndina fáum við að kynnast Carl betur, manninum og persónunni. Etv. er hann ekki svo ólíkur manninum sem hann hefur verið að hundelta undanfarin ár, Frank Abengale Jr., er Carl sjálfur á einhverjum persónulegum flótta?

Mér leist mun betur á Tom Hanks í hlutverki Carl Hanratty heldur en Micheal Sullivan Sr. Hann kemur mjög vel út og mjög góður í þessu hlutverki. Má því segja að Tom Hanks sé réttilega einn sá stærsti leikari dagsins í dag, og er vel að því kominn.

9/10