Þar sem nýtt ár er að ganga í garð hef ég ákveðið að skrifa grein um helstu stórmyndir sem væntanlegar eru á árinu. Það eru nokkrar myndir sem ég vænti mikils af og veitir ekki af eftir frekar slæmt kvikmyndaár. Nú er ég ekki að tala um íslenskar myndir enda árið hjá þeim einstaklega gott. Tekið skal fram að frumsýningardagar sem ég nefni gilda fyrir Bandaríkin en ekki Ísland. Þar sem margar myndir eru á framleiðslustigi getur margt breyst varðandi frumsýningardag og eru dæmi þess að myndum hafi seinkað um marga mánuði ef ekki ár.
“Traffic”
Nýjasta mynd Steven Soderbergh. Frumsýnd 12 janúar. Margir telja að þessi verði tilnefnd til margra óskarsverðlauna. Þetta er eiturlyfjadrama og skartar leikurum á borð við Michael Douglas,Dennis Quaid og Catherine Zeta-Jones.
“O Brother Were Art Thou”
Nýjasta mynd Coen bræðra. Frumsýnd 12 janúar. Fjallar um 3 fanga er flýja úr fangelsi og lenda í ýmsum ævintýrum. Ýmsir frægir leikarar leika í myndinni svo sem George Clooney,John Turturro og John Goodman.
“Hannibal”
Framhald myndarinnar “Silence of the Lambs” og í leikstjórn Ridley Scott. Frumsýnd 9 febrúar. Fyrsta stórmynd ársins og ein af þeim sem ég bíð mjög spenntur eftir. Get ekki beðið eftir að sjá Anthony Hopkins leika geðsjúklinginn Hannibal Lecter aftur. Fólk sem hefur séð hana á lokuðum sýningum segir myndina vera virkilega óhugnalega og síst verri en fyrri myndin. Anthony Hopkins og Julianne Moore leika aðalhlutverkin.
“Enemy At the Gates”
Þessi gæti orðið góð. Frumsýnd 23 febrúar. Fjallar um orustuna um Stalingrad í seinni heimsstyrjöldinni milli Rússa og Þjóðverja. Var ein rosalegasta og ógeðslegasta orustan í öllu stríðinu og stóð í marga mánuði. Skartar frábærum leikurum eins og Joseph Fiennes og Jude Law.
“The Mexican”
Með aðalhlutverk fara Brad Pitt og Julia Roberts. Frumsýnd 2 mars. Handritið er sagt mjög gott og fjallar myndin um ungan mann er reynir að smygla fornri byssu sem á hvílir bölvun yfir landamærin til Bandaríkjana. Þessi gæti orðið mjög vinsæl.
“The Mummy Returns”
Leikstjóri er Steven Sommers og fer Brendan Fraser með aðalhlutverkið eins og í fyrri myndinni. Frumsýnd 11 maí. Get ekki sagt að ég bíði spenntur eftir þessari.
“Pearl Harbor”
Leikstjóri er Michael Bay sem hefur gert myndir eins og Armageddon(ulla bjakk). Frumsýnd 25 maí. Myndin gerist þegar árásin á Pearl Harbor var gerð 1941 af Japönum. Inn í þessa árás fléttast svo ástarsaga þar sem 2 vinir berjast um sömu stúlkuna. Myndin verður hin dýrasta á árinu og halda menn að kostnaður sé í kringum 200 milljónir dollara(Titanic 2). Með aðalhlutverk fer Ben Affleck.
“Windtalkers”
Stríðsmynd í seinni heimsstyrjöldinni og í leikstjórn John Woo. Frumsýnd 29 júní. Með aðalhlutverk fara Nicholas Cage og Adam Beach. Veit annars ekki neitt um þessa mynd.
“A.I.”
Leikstjóri er Steven Spielberg. Frumsýnd 29 júní. Myndin gerist efir að heimskautin hafa bráðnað og jörðin er vatnsósa. Enginn veit nákvæmlega hvað hún fjallar um en vitað er að gervigreind kemur mikið við sögu. Sumir segja að myndin sé nútíma uppfærsla á gosa. Átti að vera næsta mynd Kubricks en því miður lést hann. Ég hef þó tröllatrú á Spielberg. Sannarlega ein af stórmyndum ársins.
Með aðalhlutverk fara Haley Joel Osment og Jude Law.
“Tomb Rader”
Byggt á frægum tölvuleik. Angelina Jolie í aðalhlutverki sem ofurgellan Lara Croft. Samt sem áður býst ég ekki við miklu.
“Final Fantasy”
Byggt á frægum tölvuleik. Frumsýnd 13 júlí. Þessi mynd er algjörlega tölvugerð og kostaði stórfé. Trailerinn var flottur en ég býst þó ekki við miklu.
“Jurassic Park 3”
Leikstjóri er Joe Johnston sem hefur gert myndir á borð við Jumanji. Frumsýnd 18 júlí. Vona bara að Joe geti gert þessa þriðju eðlumynd ógnvænlegri og fyrir eldri aldurshóp en fyrri myndirnar sem Spielberg gerði. Í helstu hlutverkum eru Sam Neill,Laura Dern og William H. Macy.
“Planet of the Apes”
Leikstjóri er snillingurinn Tim Burton. Frumsýnd 27 júlí. Endurgerð eftir upprunanlegu myndinni frá 1968 sem var sannarlega frábær sci fi mynd. Með helstu hlutverk fara Mark Wahlberg,Kris Kristofferson og George Clooney.
“Jay and silent Bob strike back”
Þessi mynd verður fyndin enda í leikstjórn Kevins Smith. Frumsýnd 10 ágúst.
“Harry Potter”
Byggt á fyrstu bókinni um Harry Potter. Frumsýnd 16 nóvember. Leikstjóri er Chris Colombus sem hefur gert myndir eins og Home Alone. Það eiga sannarlega trilljón gríslingar eftir að sjá þessa mynd.Í helstu hlutverkum eru Alan Rickman,John Cleese og Richard Harris.
“LOTR:The Fellowship of the Ring”
Fyrsta mynd af þremur í trílógíunni Lord of the rings.Frumsýnd 19 desember. Leikstjóri er Peter Jackson. Ég þori að veðja að þetta verður vinsælasta myndin á árinu og verður eitthað í líkingu við Star Wars fyrirbærið. Sannarlega sú mynd sem ég bíð mest spenntur eftir. Í helstu hlutverkum eru Ian McKellan,Sean Bean,Cristopher Lee,Cate Blanchett og Sean Astin.
“Gangs of New York”
Leikstjóri er Martin Scorsese. Þarf að segja meira? Frumsýnd 25 desember. Glæpamynd er gerist um miðja 19. öld í New York. Með aðalhlutverk fer Leonardo DiCaprio og Cameron Diaz. Ein af stórmyndum ársins.
Jæja, þá er ég búinn með minn lista. Gaman væri að lesa hvaða mynd þið bíðið mest spennt eftir á árinu 2001. Einnig getið þið bætt við myndum þar sem minn listi inniheldur að sjálfsögðu ekki allar myndir ársins(t.d. engar íslenskar myndir).
En annars gleðilegt nýtt ár allir Hugarar.