Það er búið að taka mig meira en mánuð að gera upp hug minn í DVD innkaupum. Þó er ég ekki vanur að eyða svo miklum tíma í hlutina, þegar ég keypti video, þá keypti ég það í fyrstu búð sem ég skoðaðai (og verðið var í lagi).

Ástæðan fyrir þessari töf er hve margslungnar kröfur ég gerði til DVD spilarans:

1 Mynd og hljóðgæði til fyrirmyndar

2 Video-CD, MP3 og jafnvel MPEG1 afspilun

3 Öll helstu tengi og hljómstaðlar (S-VHS, Optical, Dolby Digital 5.1 / DTS …)

4 Spilar alla diska (svæði 1-x)

Það þvældist mikið fyrir mér að upplýsingar á internetinu um þá spilara sem fást hér liggja ekki á lausu, þannig að sönnun á mynd og hljóðgæðum reyndist erfið. Að lokum ákvað ég að taka bara sénsinn, en hafa fyrirvara á því að fá að skila spilaranum ef ég væri óánægður með gæðin. Það reyndist ekki vandamál (elko t.d. býður 30 daga skilarétt no questions asked).

Margir spilarar geta ekki spilað \“skrifaða\” geisladiska, og þá gildir einu hvort þeir innihalda tónlist eða video-cd. Ég neyddi sjálfan mig til að útiloka þessa spilara, þrátt fyrir einn súper cool (Harmon/Kardon) í þessum hóp. Af þeim sem geta lesið skrifaða diska, þá geta flestir ekki spilað mp3 eða mpeg1. Það eru helst óþekktir spilarar sem geta þetta. Að lokum ákvað ég að þessi krafa (mp3 og mpeg1) væri ekki eins mikilvæg og mynd + hljómgæði, og vegna skorts á upplýsingum (um mynd og hljómgæði) ákvað ég að halda mig við merkjavöru ef mögulegt er.

Tengi og hljómstaðlakrafan reyndist auðveldust. Nánast allir spilarar nema sumir af þeim allra ódýrustu hafa öll tengi og bæði 5.1 og DTS.

Region helsið (svæðaskiptingin) blindaði mér sýn um langan tíma og þá aðallega vegna þess að sölumenn gefa ekki þær upplýsingar sem ég þurfti til að taka ákvörðun. Eftir að ég keypti spilarann og las leiðbeiningar, þá liggur þetta nokkuð ljóst fyrir.

Þannig er spilarar koma í 3 flokkum (varðandi svæðaskiptingu): Fastir á svæði, breytanlegir með fjarstýringar hökkum, eða hakkaðir með kubbi. Spilurum sem fastir eru á svæði má oftast breyta með því að setja kubb í þá eftirá, en það getur kostað 10 þúsund aukalega, þú tekur áhættu með að skemma spilarann og ábyrgð fellur þegar í stað úr gildi.

Þar að auki er ég búinn að heyra draugasögur um nýjan lás á nýjustu dvd diskunum, þar sem diskar neita að spilast ef spilarinn skiptir sjálfvirkt um svæði.

Fyrst í stað einblíndi ég á þá spilara sem hægt er að hakka með fjarstýringunni. Þeir eru öruggir gagnvart þessu nýja trixi framleiðendanna en jafnframt nothæfir fyrir alla diska. En það er ekki auðvelt að finna hökkin (þau eru ekki gefin upp í handbókum), ég fann einhver á netinu, svo sem fyrir samsung spilara, en til að hakka samsung spilarann þarf fjarstýringu frá ÖÐRUM AÐILA, (AIWA) og bara nokkrar fjrarstýringar koma til greina. Þetta er full mikið vesen og 4-5 þúsund króna aukakostnaður.

Að lokum keypti ég hjá því fyrirtæki sem mér fannst sölumenn hafa mest vit á þessum spilurum (sjónvarpsmiðstöðinni) og endaði á jvc spilara sem mér var sagt að væri hakkanlegur í gegn um fjarstýringu.

En viti menn, þegar ég pakka upp, þá kemur í ljós einn upplýsingamoli enn sem hefði getað einfaldað hlutina, - spilarinn var breyttur (hakkaður með kubbi) frá byrjun. Þennan möguleika hafði ég ekki hugsað útí og er sjálfsagt fyrir kaupendur að spurja bara beint út um þetta og þá að vita um hvers konar kubb er að ræða. ATH: Þessi þjónusta er ekki sjálfgefin, sumir spilarar spila bara svæði 2!

Í mínum spilara er \“KeyMaster\” kubbur sem stýrt er í gegn um fjarstýringuna og hægt er að velja ákveðin svæði eða auto, í raun akkúrat það sem ég vildi. Um þennan kubb og þessa nýju læsingu sem ég minntist á fyrr (RCE) er hægt að lesa á

www.stonedesign.dk/dvd

Að lokum; Ég er fullkomlega ánægður með spilarann, hann er mun betri en tölvan sem ég hafði áður tengt við sjónvarp, og hefur eftirfarandi kosti fram yfir hana:

Betri hljómur (mun betri), auðveldari stjórnun (fjarstyring), aldrei hökt (ok, ég var með gamalt dvd drif, e.t.v. eru þau betri í dag), ekkert viftusuð (eins og í tölvunni), boot tími er nánast enginn (tölvan er 1-2 mín, þó hún sé hraðvirk).

E.t.v. var ég of varkár. Spilarinn kostaði 40. þúsund en ég hefði getað keypt eitthvað á 25-30 þúsund. En ég sé ekki eftir þessum peningum og hvet alla tölvu-hark-dvd menn til að skipta sem fyrst!