Adaptation Adaptation - 2002

Leikstjóri: Spike Jonze
Handrit: Charlie Kaufman, unnið úr bók eftir Susan Orlean
Helstu hlutverk: Nicholas Cage, Meryl Streep, Chris Cooper

Hvernig skrifar maður handrit um blóm? Hvernig skrifar maður handrit um mann sem safnar blómum? Hvernig skrifar maður handrit um konu sem skrifar grein sem verður að bók um mann sem safnar blómum? Hvernig skrifar maður handrit um mann sem skrifar handrit um konu sem skrifar grein um mann sem safnar blómum? Svari nú hver fyrir sig.

Við kynnumst Charlie Kaufman (Nicholas Cage), sem er feitur, fyrirferðarlítill og feiminn handritshöfundur. Hann er staddur í kvikmyndaveri þar sem verið er að taka upp mynd eftir handriti hans, Being John Malkovich. Kaufman veit ekki hvað hann er að þvælast þarna, enginn þekkir hann og hann þvælist bara fyrir.
Donald Kaufman (Nicholas Cage) er allt sem Charlie tvíburabróðir sinn er ekki. Sprelligosi sem sækir klisjukennd handrits námskeið. Saman búa þeir, eins ólíkir og þeir eru, þegar Charlie fær nýtt verkefni uppí hendurnar. Að skrifa handrit um sögu ástríðumanns frá Florida.

John Laroche (Chris Cooper) er maður sem lifir í draumi sínum. Hann er svo ástríðufullur plöntusafnari að hann leggur hvað sem er á sig til að næla sér í sjaldgæfa plöntutegund. Um þennan mann gerir Susan Orlean (Meryl Streep) blaðagrein fyrir blað í New York. Greininni er svo vel fagnað að Susan ákveður að víkka rammann og gera viðfangsefnið að bók. Þegar á líður dregst Susan nær og nær John, og fer að líta á líf hans öðrum augum en hún gerði. Þessi þrá og lífslöngun sem John Laroce geislar af, gerir Susan hálf öfundskjúka og leiða útí sitt skrifstofu New York líf.

Þessi mynd er afbragðsgóð og frábærlega gerð. Cage, Streep og Cooper eru hreint út sagt frábær í sínum hlutverkum og eiga þau allar þær tilnefningar sem þau fá skilið. Sérstaklega þóttu mér Cage og Cooper vera frábærir. Finnst mér eins og hér sé hálfgert ‘come-back’ á ferðinni hjá Cage, en mér hefur fundist hann vera þónokkuð slakur undanfarið. Jonze er hér með sína aðra mynd í fullri lengd, og verður heldur betur fróðlegt að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur nú, áframhaldandi samvinna með Charlie Kaufman vonandi.

En þangað til…

9+/10