Star Wars: Episode II - Attack of the Clones
Star Wars þarfnast engrar kynningar. Meirihluti mannkynsins hefur nú þegar séð Episode I og IV-VI. Star Wars er í raun hluti af menningararfi alls mannkyns og hefur George Lucas því miklar skyldur og ber mikla ábyrgð. Ekki er hægt að líta framhjá því að margir voru óánægðir með Episode I, og þrátt fyrir að vera ein vinsælasta kvikmynd sögunnar álitu margir hana misheppnaða. Pressan var því gífurleg á Lucas og töldu margir að hann væri búinn að missa hæfileikann. Svar Lucasar var að búa til hreinlega frábæra mynd.
Ekki er hægt að fjalla um “Star Wars: Episode II - Attack of the Clones” án þess að minnast á myndina sem á undan kom. Episode II er framhald af Episode I (náttúrlega), en er samt það sjálfstæð að þeir sem ekki hafa séð Episode I ættu engu að síður að hafa gaman af þessari frábæru mynd. En þá vil ég þó spyrja: “Hvar hefurðu verið?”
Töluvert bar á neikvæðu umtali um fyrstu myndina og misstu sumir trúna á Episode II & III. Lucas stóð þó fast á sínu í viðtölum eftirá og varði Episode I. Því kemur það nokkuð á óvart að það virðist sem svo að Lucas hafi farið í einu og öllu eftir óskum aðdáenda sinna og helstu gagnrýnenda. Í Episode II eru engin börn, ef frá er talinn hinn ungi Boba Fett - sem sjaldan verður talinn barnalegur og ekki til leiðinda fyrir neinn nema hetjurnar okkar. Í Episode II er Jar Jar Binks næstum ósýnilegur, tvö til þrjú atriði, stutt og frekar sársaukalaus, þótt undirritaður hafi fengið hroll í hvert skipti sem hr. Binks sást. Í Episode II eru engar bjánalegar geimverur. Nær enginn aulahúmor er í myndinni, né reynir Lucas að bræða áhorfendur með “sætum” atriðum. Geimskipin eru flottari og hernaðarlegri, hervélmennin eru massaðri og trúverðugri, en fyrst og fremst hefur hann eitthvað minnkað löngunina til að fylla hvern einasta fersentimeter af “filmu” með tölvugerðum manneskjum, geimverum, vélmennum eða dýrum.
Lucas tók sem sagt út allt það sem olli vonbrigðum í Episode I, en hvað setti hann í staðinn?
Lucas hafði lýst því yfir að Episode II yrði ástarsaga. Ástarævintýrið spilar vissulega stóran sess í sögunni, en er í bakgrunni og virkar einstaklega vel og keyrir t.a.m. hluta sögunnar áfram, en ekki í forgrunni eins og óttast hafði verið (Lucas er ekki þekktur fyrir árángur í þessum málum).
Myndin er fyrst og fremst frábær ævintýra og hasarmynd.
Sagan er nokkurn veginn á þá leið að Episode II tekur við 10 árum eftir Episode I. Heimurinn og söguhetjurnar hafa breyst. Anakin hefur stækkað og er orðinn öflugur jedi þótt hann sé enn lærlingur. Obi-Wan er ennþá meistari Anakin og góður sem slíkur. Padmé hefur sagt skilið við drottningartitilinn sinn og er núna orðin þingmaður fyrir Naboo. Palpatine heldur áfram að sanka að sér völdum og Jedi ráðið fylgist með öllu undir forustu Yoda. Upp hefur komið misklíð í Lýðveldinu og safn af sólkerfum sagt sig frá Lýðveldinu undir forustu Dooku hertoga, svokallaðir skilnaðarsinnar. Setið er um líf Padmé, sem er einn helsti leiðtogi þingsins, og eru Obi-Wan og Anakin settir í hlutverk lífvarða unga þingmannsins. Endurfundir Anakin og Padmé hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, en á milli þeirra tekst fljótlega ást. Inní söguna blandast svo Jango Fett og sonur hans Boba, her af klónum og margt fleira. Óhætt er að segja að söguþráðurinn standi fyrir sínu, þetta er einungis byrjunin á nærri tveggja og hálfs tíma stórkostlegri skemmtun.
Svo virðist sem töluverð hugsun hafi farið í söguþráðinn hjá Lucas, eins og vera ber í myndaflokki af þessari stærðargráðu. T.d. tengist Episode I söguþræðinum í þessari mynd á þann hátt að Episode I verður mun ásættanlegri. Svo er ýmisum fræjum sáð í Episode II sem menn geta séð fullvaxin í Episode IV-VI. Þó er það á huldu hvað gerist í Episode III, þótt hægt sé að velta því fyrir sér miðað við framvindu mála í Episode II. Handritið er skrifað af George Lucas ásamt Jonathan Hales og stendur mun nær Episode IV-VI en Episode I. Lucas kemur ótt og títt með uppáhaldsfrasana sína, svo sem “patience, my young friend” og er handritið að stórum hluta í frösum, eins og Episode IV-VI var að miklum hluta.
Í myndinni eru nokkur ótrúleg hasaratriði og er þar fremst á meðal jafningja bardagaatriði þar sem enginn annar en meistari Yoda sveiflar ljóssverðinu sínu og sýnir svo um munar að hann er sá fremsti á þessu sviði. Hrein unun er að sjá litla græna vinalega kallinn með þetta vinalega málhelti breytast í stríðsmaskínu og hreinlega valta yfir óvini sína! Yoda er listamaður með ljóssverðið.
Meðal annarra atriða má nefna stórfengleg bardagatriði stríðandi herfylkinga, eltingaleik bæði í geimskipum og flugskipum, slagsmálaatriði og svo auðvitað hin sívinsælu ljósbardagatriði. Þessi mynd hefur nóg af öllu, vertu tilbúinn að halda niðrí þér andanum á köflum.
Tónlistin í myndinni er frábær. Hún er í höndum John Williams sem endranær, og setur hann stemminguna í hvert atriði án þess þó að yfirkeyra, en gefur oft í skyn hvað er að gerast undir niðri. Ekki er undirritaður frá því að andi Darth Vadar hafi svifið yfir vötnum, en copyrighted andardráttur hans ómar ótt og títt í myndinni (nema það hafi verið maðurinn fyrir aftan mig í rykfrakkanum).
Leikurinn í myndinni er frábær, enda úrvals fólk hér á ferð. Ewan McGregor snýr aftur sem Obi-Wan Kenobi og leikur hann listavel. Án efa einn besti leikur sem sést hefur í Star Wars myndunum. Hann er í senn yfirvegaður, léttur og ábyrgur. Minnir helst á Han Solo og gamla Obi-Wan. Natalie Portman leikur Padmé eins og áður og stendur sig vel. Hlutverkið hefur nokkuð breyst, enda Padmé núna þingmaður en ekki drottning, þarf hún t.d. minna að hugsa um hárgreiðsluna sína. Hayden Christensen leikur Anakin og stendur sig geysilega vel. Hayden þessi er vel kunnugur íslenskum áhorfendum sem Scott í Higher Ground þáttunum sem sýndir hafa verið í Ríkissjónvarpinu. Er þetta tiltölulega óreyndur og óþekktur leikari en hérna sýnir hann yfirburða leik, hann er í senn saklausi drengurinn úr fyrstu myndinni sem ann mömmu sinni og stjórnlaus unglingur, hálfgerður asni með allt of mikið vald! Hluti af honum stefnir greinilega í átt að Darth Vadar - þótt langt sé í það. Samuel L. Jackson leikur Mace Windu og fær loksins að gera eitthvað, eins og venjulega sýnir hann góða takta enda einn reyndasti hasarmyndaleikarinn sem eitthvað getur leikið. Christopher Lee leikur Dooku listavel og sýnir að frábær frammistaða hans í Hringadrottinssögu var engin tilviljun. Hann hreinlega flýtur í gegnum myndina fyrirhafnarlaust og er mjög eftirminnilegur. Aðrir leikarar standa sig vel, svo sem Ian McDiarmid (Palpatine), Jimmy Smits (Bail Organa) og aðrir. Tvíeykið góða Kenny Baker (R2-D2) og Anthony Daniels (C-3PO) staldrar stutt við í myndinni, en þetta væri ekki Star Wars án þeirra!