Ár: 2002
Leikstjóri: Steven Spielberg
Handrit: Jeff Nathanson, eftir bók Frank Abagnale Jr. og Stan Redding
Leikarar: Leonardo di Caprio, Tom Hanks, Christopher Walken, Nathalie Baye, Amy Adams, Martin Sheen
Tónlist: John Williams
Lengd: 140 mín
Ég skellti mér á Catch Me If You Can síðustu helgi í Háskólabíó. Ég hafði beðið þessarar myndar með töluverðri eftirvæntingu í nokkurn tíma, enda alltaf spenntur þegar Spielberg er annars vegar. Ég kom mér fyrir í aðalsal Háskólabíós í miðjum hálftómum salnum. Það var mjög kalt inni í salnum eins og oft í sölum Háskólabíós og fór ég því ekki úr úlpunni, ekki strax a.m.k.
Myndin byrjaði á skemmtilegan hátt, með smá teiknimyndaþætti þar sem tvær aðalpersónurnar eru í smá eltingaleik meðan ýmsar venjulegar upplýsingar um myndina bárust á skjáinn. Þetta virkaði auðvitað vel með frábærri tónlist John Williams á bak við og fannst mér myndin lofa góðu þí ekki væri meira búið af henni. Svo voru áhorfendur allt í einu komnir inn í sjónvarpsþátt þar sem þrír ungir menn sátu fyrir svörum. Allir áttu þeir að vera Frank Abagnale Jr. en aðeins einn þeirra var hann í raun og veru. Myndin rak svo nokkur ár í ævi Frank Abagnale Jr. og hvernig hann náði að svindla peninga á ótrúlegan hátt með því að þykjast vera fyrst flugmaður, svo læknir, svo lögfræðingur o.fl.
Myndin fjallar að mestu leyti um eltingaleik Carl Hanratty (Tom Hanks) og Frank Abagnale Jr. (Leonardo di Caprio). Carl Hanratty er FBI maður sem sérhæfir sig í að finna svikahrappa eins og Frank en það gengur ekkert alltof vel að finna hann. Frank byrjar að svindla eftir að foreldrar hans skilja. Þau skilja vegna þess að mamma hans þolir ekki við lengur með pabba hans eftir að hann varð gjaldþrota og þau neyddust til þess að flytja úr glæsihúsi í litla blokkaríbúð.
Leonardo di Caprio fer ekkert í taugarnar á mér í þessari mynd, en það gerir hann oftast. Hann stendur sig frábærlega ásamt Christopher Walken, í hlutverki Frank Abagnale Sr., og þeir eiga báðir skildar Óskarstilnefningar að mínu mati. Tom Hanks er líka frábær sem Carl Hanratty. Aðrir leikarar standa sig með prýði, s.s. Martin Sheen, Nathalie Baye og Amy Adams.
Tónlistin í myndinni er frábær, besta tónlist John Williams í langan tíma, fyrir utan Star Wars myndirnar tvær. Tónlistin fylgir myndinni vel og stendur hún vel ein og sér. Ég hef mjög gaman af því að hlusta á tónlistina. Hún er Óskarsins verðug. Kvikmyndatakan er mjög góð í höndum Janusz Kaminski sem og klippingin hjá Michael Kahn. Spielberg stendur sig mjög vel í leikstjórastólnum eins og svo oft áður.
Þegar allt er tekið saman, þá er Catch Me If You Can frábær mynd sem ég gef hiklaust fjórar stjörnur!
**** / ****
BS - Jonsi