Allt rétt sem þú sagðir (TestType).
T.d. heyrði ég að sá sem þýddi Star Wars myndirnar þegar Special Edition útgáfurnar komu í bíó árið 1997, hafði aldrei séð Star Wars mynd og þótti honum víst ekki ástæða til þess að gera það þó honum hefði verið falið að þýða þær. Svo hafði hann víst með sér textann á ferðatölvunni og pikkaði inn hálfvitalega þýðinguna á Spánarströnd… en ég sel þetta nú ekki dýrara en ég keypti það. En skömm að ef satt er.
Ein fáránlegasta þýðing sem ég hef séð í bíó var í Laugarásbíó fyrir allnokkrum árum, þegar þar var verið að sýna myndina One False Move með Bill Paxton og Billy Bob Thornton.
Þar var setningin: “They're good people. Christian people.” sem hver fyrsta árs enskunemandi gæti þýtt rétt sem “Þau eru gott fólk. Kristið fólk.” En nei, ekki virðist almenn skynsemi þýðanda hafa verið vakandi þegar hann skrifaði: “Þau eru gott jólafólk.”
Það var auðvitað mikið hlegið í salnum…
Í sömu mynd var “Hey, chill out!” þýtt rangt, eins og það sé margt sem kemur til greina í þeirri þýðingu, “Heyrðu, slappaðu af!” eða “Hey, róaðu þig!” væri ásættanleg þýðing. En þessi grjótheimski þýðandi sá sér ástæðu til að þýða þetta sem “Það er kalt úti.”
Stundum er eins og tungumálakunnátta sé ekki ein af þeim kröfum sem gerðar eru til þýðenda þegar þeir eru ráðnir til verksins. Er það ekki svipað og að ráða leigubílstjóra sem kann ekki á bíl?
Aðalvandamálið er að það er nákvæmlega enginn metnaður í þessu hjá útgefendum efnis á Íslandi (Lord of the Rings er undantekning og á útgefandi hennar hrós skilið fyrir vandað verk sem studdist við bókmenntaþýðinguna til að allt passaði fyrir lesendur bókanna).
Íslenskur texti er skylda samkvæmt íslenskum lögum, en ekki eitthvað sem áhorfendur biðja um, en það eru engar reglur um það hversu vandað það skuli vera og enginn menntunarkrafa gerð til þýðenda. Þetta ætti auðvitað að vera hluti af lögunum, ef markmiðið er að vernda íslenska tungu eins og alltaf hefur verið sagt.
Þar sem þetta er ekki söluvara þá er þetta eins konar skattur sem útgefendur eru skyldaðir til að borga og þess vegna er kostnaðurinn við þetta hafður eins lítill og mögulegt er til að tapa sem minnstu á þessu.
Þeir hugsa án efa líka út í það að um 90% íslenskra áhorfenda skilja enskuna nógu vel til að þurfa ekki að lesa textann.
En þetta er samt til háborinnar skammar að láta svona frá sér.
Þegar ég var krakki (fyrir alltof mörgum árum) þá voru eðalsmenn eins og Guðni Kolbeins, Jón O. Edvald og Þrándur Thoroddsen toppþýðendur á sjónvarpsefni og gátu jafnvel þýtt bundið mál og staðfært brandara vel. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur þessarra lélegu bíóþýðenda gæti það í dag.
Undirskriftir með öðru en nafninu manns eru hallærislegar.