Ísland er best. Við erum hinir einu og sönnu víkingar. Við höfum fallegustu konurnar … “jú nó Vala Flosa???” Og náttúrlega bestu bíóhúsin!
Boj ó boj
Sú var tíðin að ég virkilega trúði þessu, talk about brainwash!
Árið 1988 fór ég í átta vikna ferð til Bretlands og sem algjör bíósjúklingur, þá var ekki um annað að ræða en að fara nokkrum sinnum í bíó þar. Það staðfesti náttúrlega bara það sem ég hélt: að bíóhúsin á Íslandi væru hrein snilld, alveg fullkomin og engu lík nema kannski sjálfu himnaríki.
Í útvarpinu heyrðust oft auglýsingar um heims-,Evrópu-, og norðurlandafrumsýningar á Íslandi og það þótti fréttnæmt þegar Bíóhöllin og Bíóborgin voru endurnýjaðar, og maður var bara svo heillaður að maður trítlaði í bíó til að sjá herlegheitin, ánægður með að vera með flottustu bíóhús í heiminum og fleiri bíósæti “per capita” en nokkuð annað land í heiminum.
Ellefu árum seinna flutti ég til Danmerkur ásamt kærastanum.
Þar hélt þjóðarrembingurinn náttúrlega áfram… iss piss þeir voru ennþá að sýna Phantom Menace ha ha ha vissu þeir ekki að sú mynd væri old news? Heimsku Danir, vita ekki neitt!
En þar sem við bjuggum bara í einu litlu herbergi, með ekkert ljós, engan síma og ekkert sjónvarp og enga vini, þá var bara tvennt sem hægt var að gera, en einu ferðirnar, sem ég ætla að ræða um hér eru bíóferðir.
Í fyrsta skiptið, sem ég fór í bíó þarna úti, þá varð ég rosalega hissa. Í fyrsta lagi þá gat maður séð á tölvuskjá gjaldkerans teikningu af salnum og sætunum og keypt miða þar sem mann langaði til að sitja. Þvílíkur lúxus! Engin ruðningur ekkert stress bara rólegheit og dönsk “hygge”.
Í öðru lagi þá var einskonar kaffihús inni í biðsalnum með stólum og borðum með kertum á, og hægt var að kaupa kaffi, bjór eða rauðvín á meðan beðið var eftir að hleypt yrði inn. Sem sagt enn meiri dönsk “hygge”.
Í þriðja lagi þá voru sætin góð og bilið var gott á milli sætaraðanna.
Síðast en ekki síst þá voru salirnir mjög snyrtilegir og ekki varð að klofa yfir fjallháa ruslahauga á leiðinni út vegna þess að fólk sýndi hvoru öðru lágmarks kurteisi og henti sínu drasli á leiðinni út.
Síðar komumst við upp á lagið með að fara á netið og panta miða en þar var hægt að sjá teikningar af salnum, sjá hvaða sæti voru laus og með nokkrum klikkum panta sér þau sæti, sem maður vildi.
Ég læt fylgja í gamni vefslóðina að einni þessara síðna svo þið sjáið hvað þetta er þægilegt. http://www.biobooking.dk/
Þegar við fluttum hingað heim síðasta sumar og fórum í bíó, þá fékk ég algjört sjokk. Ætli heimþráin og gamli þjóðarrembingurinn hafi ekki stuðlað að því að ég hafði gleymt ruðningnum, draslinu og poppinu í hárinu á mér. Við bættist svo að fólk var ýmist að TALA SAMAN, tala í SÍMANN, SENDA SMS eða fá SMS, þegar það átti að vera að horfa á myndina!
Sem sagt í bíóhúsunum í Danmörku þá fékk ég alltaf þann fíling að ég væri stödd í lúxussal og ég þurfti ekki að borga extra fyrir það!
Að lokum langar mig að minnast á minnisstæða könnun sem gerð var hér fyrir stuttu.
Þar var spurt hvort taka ætti upp númeruð sæti í bíóhúsunum og 54% sögðu nei! Ótrúlegt! Vill fólk virkilega þennan ruðning og stress frekar en að hafa smá vald á aðstæðunum og njóta þess bara að fara í bíó og slappa af? Og hafa þeir sem sögðu nei PRÓFAÐ númeruð sæti?