Salma Hayek sló út þær Madonnu og J.Lo Þessi grein er tekin af kistan.is og ég tek það fram að ég hef fengið leyfi frá höfundi til að setja hana hér á huga.


Salma Hayek rúllar yfir Madonnu og Jennifer Lopez - á hjólastólnum


Arnar Valgeirsson
Væntanleg kvikmynd um ævi Fridu Kahlo.

Til að ná sínu fram mátti Salma Hayek brjóta Jennifer Lopez á bak aftur og berjast gegn Madonnu, vel studdri af Marlon Brando. En henni tókst það og hefur nú fært söguna af átakanlegu lífi mexíkönsku listakonunnar, Fridu Kahlo - sem orðið hefur nokkurskonar tákn femínismans í listum - á hvíta tjaldið.


Frida Kahlo hefur verið áberandi hér á landi en um miðjan október kom ríflega 400 blaðsíðna bók um ævi hennar út hjá jpv útgáfunni. Helga Þórarinsdóttir þýddi sögu Bárbara Mujica, rithöfundar, gagnrýnanda og prófessors í spænsku við háskólann í Georgiatown í Bandaríkjunum, um ævi þessarar stórmerku konu. Í desember mun svo kvikmyndaklúbburinn “bíófélagið 101” sýna myndina, með Sölmu Hayek í aðalhlutverki sem þegar hefur verið orðuð við sjálfan Óskarinn fyrir glæsta frammistöðu.

Frida lést árið 1954, aðeins 47 ára að aldri en nú hálfri öld síðar var hún í Mexíkóborg í túlkun Sölmu, rúllandi um í hjólastólnum sínum. Með svart hárið uppsett, dökkar og miklar augabrúnirnar, starandi, athugul augun og röddina hása af reykingum.

Margir höfðu sýnt því áhuga að gera mynd um líf þessa merkilega listmálara. Salma hafði um langt skeið gengið milli kvikmyndavera, en svörin voru yfirleitt á þessa leið: “hver nennir að sjá mynd um mexíkanska lesbíu í hjólastól”? Á undanförnum árum hafa hinsvegar málverk Fridu öðlast þvílíka viðurkenningu um allan heim að ríka og fræga fólkið situr um að eignast þau. Seljast verkin nú á allt að fjórar milljónir dollara.

eftirsótt hlutverk

Jennifer Lopez þóttist viss um hlutverkið í mynd með vinnuheitið The Two Fridas (eitt frægasta málverk Fridu) sem Francis Ford Coppola ætlaði að framleiða og Luiz Valdes að leikstýra. Madonna, sem safnar málverkum Fridu og er einlægur aðdáandi, hafði fengið sjálfan Marlon Brando til að fara með hlutverk eiginmanns Fridu - auðvitað sjálf í aðalhlutverki - og Robert De Niro var til í að framleiða mynd með Lauru San Giacomo sem Fridu.

Það var þó Salma sem vann kapphlaupið og fyrir tveim árum síðan gat harðjaxlinn Harvey Weinstein, stjóri Miramax films, ekki staðist áhlaup hennar lengur og lagði til 11 milljónir dollara í myndina sem Salma sá síðan um að framleiða ásamt fleirum. Handritið skrifuðu þeir Gregory Nava og Rodrigo Garcia, sonur Nóbelsskáldsins Gabríel Garcia Marques. Walter Salles og Edward Norton - kærasti Sölmu - hjálpuðu til.

Pedro Almodovar tók að sér leikstjórn en hætti svo skyndilega við. Leitað var til Walter Salles sem sagði já, en hafði svo ekki tíma, þurfti að leikstýra Benicio Del Toro og Juliette Binoche í myndinni The Assumtion of the Virgin. Það reyndar brást og Richard Eyre mun leikstýra henni. Til sögunnar kom þá Julie Taymor, sem leikstýrði Anthony Hopkins í myndinni Titus, ´99, en er sennilega best þekkt í Bandaríkjunum fyrir leikhúsuppfærslu sína á The Lion King.

ástir og ótryggð

Sex ára að aldri fékk Frida lömunarveiki með þeim afleiðingum að hægri fótur hennar bæklaðist. 18 ára slasaðist hún alvarlega er hún var farþegi í strætisvagni sem sporvagn lenti á. Margbrotnaði Frida og var vart hugað líf. Þrjátíu og fimm stórar aðgerðir þurfti hún að ganga í gegnum á sínum fáu fullorðinsárum og einnig missti hún þrisvar fóstur enda líkaminn ekki fær um að ala barn. Samt sem áður iðaði hún af kynorku og átti í mörgum ástarsamböndum, með körlum og konum, þar á meðal rússneska byltingarsinnanum Leon Trotsky sem bjó í útlegð og var seinna meir myrtur, í Mexikóborg.

Þó var það hjónaband hennar og hins mikils metna mexíkanska listmálara og kommúnistaleiðtoga, Diego Rivera, ástríðufullt og margslungið, sem er rauði þráðurinn í mynd Sölmu sem upprunalega var byggð á bók Hayden Herrera, um Fridu.

Rivera var tvíkvæntur og lífsreyndur mjög er hann kynntist Fridu. Einnig vel yfir kjörþyngd (Alfred Molina fékk fjóra mánuði til að þyngja sig í 140 kg fyrir hlutverkið) og þau giftust, skildu og giftust aftur. Gátu ekki án hvors annars verið þrátt fyrir framhjáhald á báða bóga.

enginn píslarvottur

Frida átti vini í listaelítunni, t.d. Pablo Picasso og André Breton en verk hennar voru nú ekki talin merkileg miðað við verk bónda hennar. En nú eru breyttir tímar og talað eru um að kvikmyndin gæti endurvakið áhuga á verkum Rivera, sem nú hafa algjörlega fallið í skuggan af verkum konu hans. Myndin skartar einnig Edward Norton (Nelson Rockefeller), Geoffrey Rush (Leon Trotsky), Antonio Banderas og Ashley Judd. Tilnefndur í tvígang til Óskarsverðlauna, sér Elliot Goldenthal (Interview with a vampire, Michael Collins) um tónlistina.

Það var gleðiefni fyrir Sölmu, að á meðan tökum stóð var Frida, fyrst S-Amerískra kvenna, heiðruð fyrir áhrif sín á ameríska sögu, listir og menningu, með 34. centa frímerki frá bandarísku póstþjónustunni.

Salma Hayek vill ekki meina að Frida hafi verið neinn píslarvottur, þó sú mynd hafi verið dreginn upp af henni. “Þrátt fyrir allar hennar þjáningar, fagnaði hún hverjum degi og málaði, eldaði góðan mat, drakk og stundaði kynlíf af miklum móð”

loksins, loksins

Þó vel hafi gengið með gerð myndarinnar, þá loks er hún komst á legg, hefur tekið tíma að koma henni í sýningu. Fyrst átti að setja hana í bíó fyrir síðustu áramót en upp kom mikill ágreiningur milli Harvey Weinstein hjá Miramax og Taymor leikstjóra sem endaði með að myndin var klippt töluvert niður. Þessi vandræði gerðu það að verkum að Salma fór á Cannes hátíðina í vor sem áhorfandi en loksins, loksins var “Frida” sýnd og það sem opnunarmynd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þann 29. ágúst sl. Vakti hún mikla lukku og fékk Salma frábæra dóma fyrir frammistöðu sína. Myndin var sýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni í byrjun september en var svo sett á almennar sýningar í Bandaríkjunum þann 1. nóvember.

En nú er komið að því að Íslendingar geta séð hvernig Sölmu tekst að túlka þessa stórbrotnu, tilfinngaríku manneskju sem elskaði nánast allt og alla, þó mest lífið sjálft, bundin hjólastól síðustu ár sinnar stuttu ævi.

Þokkagyðjan Salma Hayek - Jimenez varð 36. ára þann 2. september sl. Hún er fædd og uppalin í Coatzacoalcos, Veracruz í Mexíkó.

Leikferill Sölmu spannar 14 ár, hófst í sjónvarpsseríum í Mexíkó, en 1995 var hún í þremur Hollywoodmyndum (Four Rooms, Desperado og Fair Game). Gerði karlmenn máttvana sem hin ótrúlega kynþokkafulla Santanico Pandemonium í From Dusk till Dawn og meðal annara mynda má nefna: Studio 54, Dogma, Wild, Wild West og Traffic.

Hún er með í vestrakrimmanum Once Upon a Time in Mexico (Desperado 2) í leikstjórn góðvinar hennar, Robert Rodriguez. Tökum er lokið og verður hún sýnd á næsta ári. Antonio Banderas, Johnny Depp, Willem Dafoe og gömlu brýnin Mickey Rourke og Cheech Marin eru líka með. Salma hefur verið að dúllast með Edward Norton undanfarin ár en er meinilla við að ræða við fjölmiðla um samband þeirra.

Tek það aftur fram að þessi grein er tekin af kistan.is en mér fannst hún ágæt þar sem Salma er býsna löguleg kona og Frida merkilegur listamaður. -gong-