Árið 1997 fékk ég fyrstu James Bond Spóluna mína: Dr. No. Það sem mér fannst skemmtilegast við að eignast þessa spólu var að þetta minnti mig rosalega á barnæsku mína og ég fékk myndina í topp gæðum. Topp VHS gæðum. Síðan þá hef ég horft á þessa mynd allnokkrum sinnum.
Þegar maður eignast Dr. No langar manni að eignast aðra mynd. Og aðra. Og aðra. Í kjölfarið fylgdi: From Russia with Love. Ég sá nú sem mikill Bond aðdáandi að ég yrði að safna meiru. Og meiru. Og meiru.
Þetta var upphafið af áráttukenndri söfnun sem hefur fylgt mér síðan þá. Ég er mikið fyir að safna hlutum. Ég setti Bond efst á óskalistann fyrir hver jól.
Í fyrra eignaðist ég svo restina af séríunni. Kominn með 19 myndir á VHS og hafði fengið þær í réttri röð frá Dr. No uppí The World is not enough. Eins og fólk getur ýmindað sér varð ég einstaklega glaður.
En nú hefur líf mitt snúist á hvolf því ég sit uppi með 19 VHS myndir að heildarverðmæti u.þ.b. 45.000 kr. Á meðan býður BT upp á 19 DVD með 24+ klst. af aukaefni á 27.000 kr. Ég er náttúrulega mjög súr út af þessu öllu saman. Sem safnari með áráttu verð ég að eignast þetta, en samviskan nagar mig því ég á þetta allt á VHS.
Ef einhverjum vantar 19 Bond á VHS má hann hafa samband. Þetta selst ódýrt.
Ég verð að bæta því við að það er ómanneskjulegt að selja fyrst í stykkjatali - eins og Bond á DVD fyrir nokkrum mánuðum, og koma síðan með THE ULTIMATE COLLECTION. Ég á til að mynda 3 mismunandi Star Wars Trílógíur. Þetta er dauði og djöfull fyrir alla safnara og verður til þess að maður kaupir sömu hlutina aftur. Og aftur. Og aftur.