James Bond er án efa ein sú svalasta persóna kvikmyndasögunnar og hefur vodkadrykkja hans og bólfarir verið við líði í nokkra áratugi, heimsbyggðarinnar til mikillar ánægju (þó hafa gæði myndanna farið versnandi síðustu ár).
Nú er ég nýkominn af nýjustu Bond myndinni eða Die Another Day.
Myndin byrjar á því að Bond (Pierce) er tekinn til fanga í N-Kóreu og pyndaður í 14 mánuði án þess að tapa viti, húmor eða öðrum persónuenkennum sem óeðlilegt er að haldist eftir pyndingar í svo langan tíma (reyndar tapast hárgreiðslan á þessum fjórtán mánuðum mér til mikillar furðu). Segja má að myndin hrynji á upphafsmínútum hvað varðar spennu, hasar og Bond sjálfan en hann er kominn í hlutverk fórnarlambsins og jafnvel hans trausta leyniþjónusta vill ekkert með hann hafa eftir axarsköft hans í Asíu, ekki mjög Bond-legt það.
Nú til að gera langa sögu stutta einsetur Bond sér að koma manninum sem ábyrgur er fyrir gæsluvarðhaldi hans í Kóreu fyrir kattarnef. Leit Bonds leiðir hann um allan heim en fyrsta stopp er á Kúbu þar sem hann hittir fyrir Jinx (Berry), dúndurskutlu í hæsta gæðaflokki og leika þau tvö sér í bólinu á svæsnari máta en áður hefur tíðkast í Bond-myndunum. Nú, saman leggja þau læknastofu lýtalæknis eins á Kúbu í eyði, án sýnilegrar ástæðu og halda svo til Íslands á eftir demantskónginum Gustav Garvin sem á þar stórar demantsnámur (það skal tekið fram að ýjað er að því í myndinni að mörgæsir fyrirfinnist á Íslandi)? ´
Kvikmyndinn er með eindæmum óraunhæf og er það dæmigert fyrir gæði hennar að bíll Bonds getur verið ósýnilegur?? Söguþráður hennar er ein stór hörmung sem engan heillar og samtöl í myndinni minna óneitnlega mikið á samtöl í Star Wars sem fræg eru orðin fyrir að vera ömurleg. Það er eiginlega ekki einn ljós punktur í myndinni nema þegar Halley er að strípast, sem hún gerir eiginlega of lítið af.
Niðurstaðan er sú að Die Another Day er vonbrigði með öllu og það er eins gott að MGM-menn taki sig taki og fari aftur að gera áhorfanlegar Bond-myndir.
*/****