Gagnrýni samin af Smokey og Sveinbjo
Halloween er hrollvekja frá 1978 og leikstýrð af John Carpenter( The Thing ). Með aðalhlutverkin fara Donald Pleasence og Jamie Lee Curtis(True Lies, The Tailor of Panama).
Það er hefur oft verið sagt að Halloween ( 1978 ) sé ein besta “slasher” mynd allra tíma (unglingahrollvekjur - myndir um 18 ára gelgjur í háhæluðum skóm hlaupandi niður götur, öskrandi, dettandi og missandi niður fötin sín ). Sumir eiga það jafnvel til að segja hana bestu hryllingsmynd allra tíma en þá er eins og þeir hafi gleymt myndum á borð við Psycho, The Exorcist o.fl.
Hún er ein helsta fyrirmynd nútíma hrollvekja sem ekki er víst að hafi verið af hinu góða. Það er nokkuð víst að ef Halloween hefði ekki verið gerð væri möguleiki á því að við hefðum aldrei séð rotnaða kalkúna á borð við Scream, I Know What You Did Last Summer, Urban Legends o.fl.
Sex ára drengur, Michael Myers, myrðir systur sína á hrottalegan hátt á hrekkjavökunni árið 1963. Í október 1978, 15 árum seinna, sleppur hann frá geðveikrarhæli. Geðlæknir hans grunar að Michael muni myrða aftur í heimabæ sínum á hrekkjavökunni sem skammt er í. Geðlæknirinn varar lögregluna við en hún finnur Michael ekki í tæka tíð. Michael byrjar að veita þremur unglingum eftirför, Laurie Strode og vinum hennar Annie og Linda og svo hefst blóðbaðið.
Halloween olli nokkrum vonbrigðum. Búist var við meistaraverki þar sem gagnrýni frá hinum ýmsu fjölmiðlum hefur gefið það í skyn. Helstu gallar myndarinnar eru þeir að hún er of fyrirsjáanleg ( helsti galli allra “slasher” mynda 9. og 10. áratugarins ) og það að myndin gengur of langt í fáranleika. Einnig nær hún ekki að grípa mann og hún er á engan hátt spennandi. Aðallag myndarinnar minnir mjög á tónlistina í The Exorcist ( 1973 ) og á köflum finnst manni að aðstandendur hafi hreinlega rænt hluta tónlistarinnar úr henni. Tónlistin kemur oft á vitlausum tíma t.d. kemur spennutónlist þegar aðalpersónan labbar hægt og rólega yfir götu.
Myndin er þó ekki alslæm. Leikstjórnin er virkilega góð og John Carpenter (leikstjórinn) nær að skapa mjög drungalegt andrúmsloft sem helst í gegnum alla myndina. Einnig er myndatakan til fyrirmyndar, og hjálpar hún mjög við að skapa frábært andrúmsloft myndarinnar.
Leikurinn er ekki á mjög háu plani sem er þó skiljanlegt vegna þess að engin stór framleiðandi stóð á bakvið myndina og enginn fjárhagur til þess að ráða góðan leikara. Er þó vert að minnast á það að Halloween gerði stjörnu úr Jamie Lee Curtis.
Þegar allt kemur til alls er Halloween ágætis skemmtun og í senn brautryðjandi hrollvekja sem hægt er undir réttum kringumstæðum að skemmta sér yfir.