Það hlýtur að vera draumur hvers leikstjóra að byrja eins vel og hann Sam Mendes eða leikstjóri Road to Perdition. Hans fyrsta leikstjóraverkefni var myndin American Beauty sem sló í gegn hér árið 1999. Hún fékk ekki aðeins gríðarlegt lof áhorfenda og gagnrýnenda heldur vann hún fimm Óskarsverðlaun, þ.ám. fyrir bestu myndina, besta leikstjórann og besta leikara, Kevin Spacey. Hún átti þetta allt vel skilið. Síðan var gaman að sjá hvað var næst á dagskrá hjá Mendes. Margir hafa líklega verið fullvissir um að American Beauty væri svona byrjendaheppni hjá honum og næstu myndir hans væru ekkert jafngóðar. Það er alveg rétt, eða þetta seinna allavega. Hans næsta mynd, Road to Perdition, er alveg einstök mynd og mikið betri en American Beauty, sem er hreint frábær mynd.
Árið er 1931. Tom Hanks leikur Michael Sullivan. Michael er góður leigumorðingi sem starfar fyrir John Rooney, frábærlega leikinn af Paul Newman. John tók Michael undir verndarvæng sinn þegar Michael átti sem erfiðast, átti ekkert heimili en þurfti að sjá fyrir konu og tvo stráka. Starfi föðursins er haldið sem mest í leynum fyrir börnunum, skiljanlega, en eins og allir vita þá er það ekki hægt endalaust. Eitt kvöldið þegar sonur hans fer í eitt af verkefnunum sínum þá læðist hans 12 ára sonur hans með. Hann verður vitni af morðunum og þá á líf þeirra allra eftir að breytast verulega.
Ég átti allra síst von á því að sjá Tom Hanks í svona hlutverki. Þarna var hann leigumorðingi sem sýndi litlar sem engar tilfinningar. En honum tókst það, hann er mjög sannfærandi enda er þessi leikari enginn viðvaningur, tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi á ferðinni. Hans besta hlutverk hingað til. Það er hann Paul Newman sem kemur þarna óvænt inn. Maður er ekki vanur því að sjá hann og var hreinlega búinn að gleyma að hann væri til, en hann minnti okkur svo sannarlega að hann er ekki dauður úr öllum æðum. Alveg öruggt að hann á eftir að fá a.m.k. Óskarstilnefningu fyrir aukahlutverk. Eina persónan sem ég hefði viljað breyta eða sleppt var persónan Harlem Maguire sem hinn fíni breski leikari Jude Law sá um. Harlem náði ekki til mín og fannst mér hann leiðinlegur. Hinn 12 ára Michael, leikinn af Tyler Hoechlin, stendur sig bara vel, svona eðlilega af krakka.
Margir hafa kvartað um skort á innihaldi í myndinni, ég skil ekki alveg hvað þeir eru að gera. Það er nóg um að vera í myndinni og þótt hún sé róleg á köflum leiddist mér aldrei á meðan. En hvað um það, þetta er aðeins mitt álit. En það getur enginn kvartað um gæði hennar eða þ.e.a.s. gæði gerðar hennar. Hún er meistaralega vel gerð í alla staði. Fullkomin myndataka sem á alveg örugglega eftir að veita hinum myndunum á Óskarnum harða samkeppni. Tónlistin var mjög góð þótt ég hafi ekki tekið neitt sérstaklega vel eftir henni, hún flaut bara svona með í samræmi við myndina. Það á tónlistin að gera. Ég ætla nú ekkert að tala um neinar tæknibrellur því ég stórefast um að liðið hjá DreamWorks hafi eytt miklum tíma í það, svo er allavega ekki að sjá í myndinni.
Road to Perdition er án efa ein langbesta mynd seinni ára og ein af betri myndum allra tíma. Hún er frábær glæpasaga en nær þó ekki að slá út The Godfather, þá hefur samt engin önnur glæpamynd náð eins langt og Road to Perdition. Það má segja að Road to Perdition segi hræðilega ljóta sögu á mjög fallegan hátt.
****