Ein er sú kvikmynd sem almennt er talin skyldueign fyrir hvern kvikmyndaáhugamann og er því eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Í Lawrence of Arabia er rakin saga hins goðsagnakennda landkönnuðar T.E. Lawrence, sem lést árið 1935. Hann hélt út í eyðimörkina í fyrri heimsstyrjöldinni sem breskur hermaður og náði að sameina Araba í stríðinu gegn Tyrkjum. Þetta stórglæsilega kvikmyndaverk David Lean er ævintýralegt í jafnt umgjörð sem innihaldi, frábærlega kvikmynduð, klippt, skrifuð og leikin og nýtur sín hvergi betur en á breiðtjaldi. Sögulegur stórmyndastíll leikstjórans er varla tilþrifameiri en í þessu verki, það er mjög listilega spunnið við hið smáa mannlega. Leikaraliðið er ekki af verri endanum með Peter O'Toole í sínu frægasta og langbesta hlutverki, en hann fer á kostum í hlutverki Lawrence og vann sinn stærsta leiksigur í þessu hlutverki. Meðal annarra stórleikara eru Sir Alec Guinness, Omar Sharif, Anthony Quinn, Claude Rains og José Ferrer. Var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna en hlaut sjö, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Lean, magnaða tónlist Maurice Jarré og kvikmyndatöku Freddie Young, sem enn er jafn stórfengleg nú og árið 1962.
Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Ráðlegg ég að horft sé á lengstu útgáfu sem mögulegt er að sjá, því lengri sem myndin er, því betra og heilsteyptara meistaraverk sérðu.