Sem fyrrverandi MHingur fannst mér ég knúinn til að ná í og horfa á myndina sem var gerð fyrir árshátíðina þeirra, hana er hægt að ná í hér á huga.is.
Myndin er byggð upp á viðtölum við nokkra MHinga um hugmyndir þeirra um komandi árshátíð og árshátíðir almennt, pælingar, viðhorf og reynslusögur. Hugmyndin er frábær og gengur í rauninni mjög vel upp. Árshátíðin sem þarna um ræðir var haldin á Hótel Selfossi. Raunveruleiki árshátíðarinnar ein og sér gæti verið skemmtilegt að sjá, einskonar framhald af þessari viðtalsmynd.
Karakterarnir í myndinni eru ósviknir. Þær manneskjur sem við sjáum eru kannski að skapa einhverja karaktera, en viðhorf margra þeirra endurspegla viðhorf svo ótrúlega margra menntaskólanema: Böll og árshátíð snúast um að fá að ríða. Sérstaklega skemmtilegur var ljóshærði þybbni strákurinn (sem er ótrúlega líkur Hollywoodleikaranum Philip Seymour Hoffman) sem hafði miklar og harðar skoðanir.
Í raun hefði ég aldrei trúað því að ég myndi nokkru sinni sjá eitthvað þessu líkt frá myndbandafélagi nemendafélags. Þá á ég við að kvikmyndatakan er frábær, klippingin er nærri lýtalaus, og viðtalstæknin virðist vera á háu stigi. Myndbandafélög nemendafélaga hafa jú oft tekist á við metnaðarfull verkefni (sbr. MYMA með Söngkeppni FF 2003) en aldrei hef ég séð neitt þessu líkt.
Það er ljóst að þetta verk ber fagmannlegt handbragð skapara sinna og það er einnig á tæru að þeir eiga framtíðina fyrir sér í þessum efnum.
——————————