Málið er það að maður er oft að sjá stuttmyndir (og jafnvel myndir í fullri lengd… Reykjavík Guesthouse anyone?) sem eru kannski byggðar á góðri hugmynd, vel leiknar og allt það, en útlitið er svo vont að maður missir eiginlega trú á myndinni. Með þetta að leiðarljósi spurðist ég fyrir, las mér til og safnaði að mér öllum upplýsingum sem ég fann um það hvernig maður getur látið video upptökur líta vel út, án þess að þurfa að fórna útlimum fyrir það. Og hér eru nokkur ráð sem ég hef fundið (en tek enga ábyrgð á neinu… Þetta eru allt ráð sem ég á enn eftir að prófa, þar sem ég er leikstjóri en kem ekki nálægt tækjum (gæti skemmt eitthvað), og þetta er í höndum kvikmyndatökumannanna minna).
Hvað um það, hér eru nokkur ráð sem ég vil benda öllum á:
1. Lýsing.
Lýsingin skiptir öllu máli til að losna við þetta hræðilega America's Funniest Home Videos lúkk sem allir hata (og þeir sem horfðu á sketcha keppnina á Popp Tíví vita hvað ég er að tala um). Það skiptir ekki máli hvað myndavélin sem þú ert að nota er með mikla upplausn og hvað stendur í bæklingnum að hún geti tekið í litlu ljósi, ef myndin er undirlýst taparðu upplausn, og myndin verður næstum svarthvít. Og það er enn verra að yfirlýsa hana, því þá taparðu skuggum. Það er smá séns að leiðrétta undirlýsingu í eftirvinnslu (ef hún er ekki of mikil), en þú getur aldrei leiðrétt yfirlýsingu. Þetta er einmitt vandamál í áðurefndri Reykjavík Guesthouse (sem mér finnst reyndar í alla staði illa unnin mynd), en það er sennilega yfirlýstasta mynd sem ég hef séð.
Ég mæli með því að fólk kaupi sér vinnukastara (kosta innan við 5000 kall stykkið á standi í verkfæralagernum), og smíði svona flappera á þá (hvað sem það heitir… þið vitið hvað ég er að tala um, til að geta gert spot light), og kaupið svo filtera á ljósin (hræódýrt að panta í gegnum netið… flettið bara upp lighting gels á google). Ef birtan er of sterk úr kösturunum er lítið mál að hefta álpappír á pappakassa og nota til að endurspegla ljósið og dempa það.
Þegar kemur að nætursenum getur lýsing oft verið vandamál, en ætti þó að vera hægt að fikta sig áfram með bláum filterum. En það er líka hægt að nota birtu og ljósaeffekta í Adobe After Effects (og væntalega öðrum forritum líka) til að breyta atriði með hlutlausri lýsingu í næturlýsingu.
Auðvitað er málið bara að prófa sig áfram. Eins og með öll tæknileg atriði skiptir mestu máli að vera búinn að prófa þetta rækilega fyrirfram, svo maður viti hvað maður er að gera þegar maður mætir á tökustað.
2. Litir!
Næstmikilvægasti hlutinn (helst reyndar í hendur við lýsinguna) í video upptöku. Margir gera sér ekki grein fyrir þessu, en málið er að þegar við tökum á filmu fáum við náttúrulega og fallega liti (þar sem þeir varpast beint á filmuna), en þegar um video er að ræða eru litirnir miklu daufari. Þess vegna þarf maður að hugsa um hluti sem skipta ekki máli í filmutökum. Það skiptir miklu máli að nota sterka liti í myndinni, svo myndin verði ekki flöt og leiðinleg. Hérna skiptir engu máli hvað þú átt góða kameru. Ég þekki leikstjóra sem leikstýrði fyrstu kvikmyndinni sem gerð var í fullri lengd og tekin á HD video, og þar þurftu þau mjög mikið að spá í litasamsetningu og að koma skærum litum fyrir inni í rammanum. Auðvitað þurfa þetta ekki að vera neonlitir (myndi koma frekar illa út í drungalegri noir mynd t.d.), en þetta snýst allt um smáatriði. Ekki hafa hvítt teppi á sófanum í bakgrunninum, heldur rautt. Ef þú getur, reyndu að nota bláan bíl frekar en svartan. Og svo framvegis. En auðvitað þarf lýsingin fyrst og fremst að vera góð, til að ná fram náttúrulegum litum.
Mín reynsla er líka sú að Sony vélar séu betri en aðrar í að fá fallega liti. Ég bar einu sinni saman litina í ódýrri Sony vél og rándýrri Canon vél, og sú ódýra var töluvert betri. Og mér skilst að Sony PDX10 sé ein besta prosumer vélin þegar kemur að litum (og hún er ekki mjög dýr). Las einhversstaðar að hún tæki 170 vélinni langt fram að þessu leyti (auk þess sem hún er með besta widescreen fídus sem er til á ódýrum kamerum).
3. Stöðug kamera.
Þetta fer reyndar svolítið eftir því hvað þú ert að gera. Ef þú ert að taka dogma-style mynd, gleymdu þessu. En ef þú ert að gera mynd sem á að líta út eins og hún sé skotin á filmu og vera sæmilega pro, þá skiptir máli að hafa myndavélina stöðuga (nema kannski í völdum atriðum þar sem óstöðugleiki skiptir máli, eins og þegar verið er að elta einhvern eða eitthvað svoleiðis). Ekki halda á kamerunni, notaðu þrífót. Ef myndavélin á að hreyfast, notaðu þá barnavagn (eða dúkkuvagn - Mario Bava, meistari ítalskra hrollvekja notaði alltaf dúkkuvagn dóttur sinnar í staðinn fyrir dolly), hjólabretti, hjólastól (Robert Rodrigues notaði hjólastól í staðinn fyrir dolly í El Mariachi). Það er líka hægt að finna fullt af leiðbeiningum um hvernig á að smíða sér dolly vagna og/eða ódýran stöðugleikabúnað á hinni frábæru síðu http://www.vfx.co.nz… (þar er líka að finna leiðbeiningar til að smíða flappera á vinnukastara).
4. Enga leti!
Tengist reyndar nr. 3. Hreyfðu kameruna ef þú vilt færa sjónarhornið. EKKI nota zoom!!! Og sjálfum finnst mér yfirleitt fallegra að færa vélina heldur en að pana á þrífætinum. En ef þú panar á fætinum (stundum þarf maður að gera það), passaðu þá að þú sért með almennilegan, mjög mjúkan fót. Það er ekkert hallærislegra en að sjá myndina kippast af stað þegar hún byrjar að pana. En eins og ég segi finnst mér yfirleitt fallegra ef það er hægt að hreyfa sjálfa vélina til, ekki bara snúa henni.
Og auðvitað gæti ég haldið lengi áfram.
Annað sem þarf að passa mjög vel (en tengist útliti auðvitað ekki beint) er hljóð. Það vita allir (vona ég) að maður má aldrei nota kamerumæk. Maður þarf að reyna að nota stefnuvirkan hljóðnema (shotgun mic), og oft getur verið sniðugt að búa sér til clip on hljóðnema fyrir samtalssenur (það eiga að vera leiðbeiningar um slíka smíði á vfx.co.nz líka). En hljóð er efni í aðra grein…
Ég vona að einhver gagnist af þessu, og að ég sé ekki að rugla eitthvað. Eins og ég segi tek ég enga ábyrgð á þessum upplýsingum, þetta eru bara hin og þessi ráð sem ég hef safnað að mér þegar ég er búinn að vera að undirbúa mynd sem ég er að fara að taka í sumar og langaði að deila með ykkur. Við þetta má bæta ýmsu, og hver veit nema eitthvað standist ekki. Hvað sem öðru líður vona ég að þið njótið vel, og getið notað eitthvað af þessu.
kk
E
We're chained to the world and we all gotta pull!