Jæja, ég hef gert mér það að leik undanfarið að líta yfir myndir hinna ungu kvikmyndagerðarmanna sem þennan vef stunda, og draga fram í dagsljósið það sem mér finnst miður fara, jafnt sem að benda á það sem mér þykir skemmtilegt.

Eftir að hafa lesið skiptar skoðanir um þessa ræmu hér á /kvikmyndagerð átti ég vægast sagt ekki von á góðu. En rétt eins og venjulega hér á huga, þá eru það yfirleitt þeir sem eru heimskari en fata full af hári sem hæst hafa.

The Murderbangs, kvikmynd Gunnars Ragnarssonar líður fyrst og fremst fyrir skort á handriti. Hér hefur verið sett fram hugmynd og hún framkvæmd í snarhasti (sem er gott) en hún ekki fullunnin (sem er vont).
Leikur er fyrir ofan garð og neðan, ekkert meira né minna en búast má við af ungum flippurum í stuði að teipa eina stutta. Þó fannst mér miður að þriðja aðila hafi ekki verið steypt í hlutverk Krúselíusar Bangsa. Einnig fannst mér röddin hans hræðilega valin.

Hugmyndin sjálf, Bangsi sem birtist á rúmstokk með þann eina tilgang í huga að myrða fólk er í sjálfu sér ekki slæm. En það er framvinda fléttunnar sem hefði mátt ígrunda betur. Það hlýtur að teljast harla ólíklegt að morðingjaböngsum sé grandað einvörðungis með því að stinga þeim í ruslið. Þetta gersamlega geldir Krúsilíus og eyðileggur trúverðugleika hans sem einhverskonar hættu.

Hlutverki Jóns Árna Ben. er síðan gersamlega ofaukið og bætir hann engu við söguna. Hefði ég frekar viljað sjá þetta sem einleik millum bangsans og mannsins, mannskepnan gegn dýrinu, hinn eilífi hildarleikur heilans gegn harðneskjunni.

Flæði og kvikmyndataka þótti mér að megninu í meðallagi góð, og oft klóraði sig upp í að vera ansi skemmtileg. Hefði klippingin verið jafn vel framkvæmd hefði hún þó fengið að njóta sín betur. Ef myndin er 4 og hálf mínútur að lengd (að kreditlista slepptum) þá gengur ekki að 2 og 30 mínútur af henni sé að vakna, sækja poka, labba út á bakvið hús og henda bangsanum. Það er hálf myndin og rúmlega það.

Stærsti og versti galli myndarinnar ‘The Murderbangs’ hlýtur þó að vera skorturinn á ógninni. Krúsilíus vekur ekki upp neinn ótta, hann er manni gersamlega meinlaus frá fyrstu sýn. Honum er stungið í poka strax í byrjun og ris myndarinnar (þegar hann drepur Gunnar) er vel tekið en illa undirbúið. Manni bregður ekki og manni er alveg sama um hvort Gunnar sé lífs eða liðinn. Sem hryllingsmynd fellur hún því gersamlega um sjálfa sig.
Ég ætla ekki að taka húmor myndarinnar fyrir, kvikmyndagerðarmenn eru ungir að árum og eiga enn eftir að taka út mikinn kómískan þroska. Þeim á ábyggilega eftir að þykja myndin fyndin það sem eftir er, en fáum öðrum. Einn daginn verða þeir samt ábyggilega mjög fyndnir.

Ég lýk því þessum pistli með stjörnugjöf, og finnst mér hún verðskulda ** af 5. Mestmegnis þó vegna aldurs, þors og dugnaðar filmukrú'z, skemmtilegs val á músík, ágætum tökum inn á milli og Lennonplakatsins.

kv,
Atlividar.com

p.s. til hinna sem hafa verið að rífa sig um þessa mynd, put your mönní where your mouth is. If you talk like a bitch you gets slapped like a bitch, ho!