Jordan setti stigamet í sigurleik Wizards
Það er mikið í gangi hjá Michael Jordan þessa dagana. Tveimur kvöldum eftir að hann skoraði aðeins sex stig í leik með Washington Wizards í NBA, skoraði hann 51 stig gegn Charlotte Hornets. Hann setti liðsmet í stigaskorun þegar hann skoraði 24 stig í fyrsta leikhluta og 34 stig í fyrri hálfleik en náði ekki stigameti Earls Monroes sem er 56 stig í leik. Wizards unnu leikinn 107:90.

Jordan hitti úr 21 af 38 skotum utan af velli og úr 9 af 10 vítaskotum. Hann hirti sjö fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Þetta er í fyrsta skipti sem Jordan skorar yfir 50 stig frá árinu 1997 þegar hann skoraði 55 stig fyrir Chicago gegn Washington.

Chicago Bulls, sem Jordan vann glæstustu sigra sína með, vann loks leik í nótt þegar liðið lagði Cleveland Cavaliers, 103:80. Þetta var fyrsti leikur Bills Cartwrights sem aðalþjálfara en hann tók við á föstudag, þremur dögum eftir að Tim Floyd sagði af sér. Cartwright lék með liðinu á velmektardögum þess á síðasta áratug.