Þeir skora og skora! Þá er komið að undanúrslitarimmunni gegn nágrönnum okkar úr Grindavík. Við ætlum hér að renna aðeins yfir sögu þessara liða í úrslitakeppninni til þessa.

Liðin hafa 4 sinnum háð harða baráttu í úrslitakeppnum í gegn um árin. Fyrst árið 1991 en þá sigraði UMFN frekar auðveldlega 2-0 í undanúrslitum. Í þessari jómfrúarrimmu lék Friðrik Ragnarsson þjálfari UMFG með Njarðvíkurliðinu og setti samtals 21 stig í leikjunum tveimur. Njarðvíkingar fóru svo alla leið árið 1991 og sigruðu Keflvíkinga í lokaúrslitum. Það var svo árið 1994 þegar þessi félög leiddu saman hesta sína í sjálfri úrslitarimmunni. Þessi viðureign var frábær skemmtun og sú stemming sem myndaðist á leikjum þessara liða var ógleymanleg. Húsin voru troðfull klukkustund fyrir leik og stuðningsmenn beggja liða sungu söngva ( þeir skora og skora & Áfram Njarðvík..fyrir fánann og UMFN) og stemmingin var rafmögnuð. UMFN sigruðu einvígið 3-2 og urðu Íslandsmeistar 1994 eftir sigur í æsispennandi oddaleik í Röstinni 67-68. Rondey Robinson tryggði UMFN titilinn með vítaskoti eftir hreint út sagt frábært einvígi þar sem sviptingarnar voru miklar. Grindvískir áhorfendur fögnuðu vel sínum mönnum í leikslok enda hreint út sagt frábært einvígi þar sem bæði lið stóðu sig frábærlega. Friðrik Ragnarsson lék með Íslandsmeisturum UMFN og átti góða leiki. Ári seinna eða árið 1995 mættust þessi lið aftur í lokaúrslitum og spennan var ekki síðri. UMFN sigruðu einvígið 4-2 og Íslandsbikarinn annað árið í röð og fengu bikarinn afhentan í Röstinni. Baráttuhundurinn Páll Kristinsson núverandi leikmaður Grindvíkinga (sem er í láni) var í leikmannahóp UMFN ásamt títtnefndum Friðriki Ragnarssyni. Þess má svo geta að Grindvíkingar fylgdu þessum árangri eftir árið 1996 og náðu þá að landa þeim stóra í fyrsta og eina sinn til þessa. Árið 1997 tókst Grindvíkingum svo loksins að sigra lið UMFN í úrslitakeppninni og gerðu það með stæl 3-0. Friðrik Ragnarsson lék með Njarðvíkingum í einvíginu og hefur því tekið þátt í öllum einvígum liðanna til þessa en ávallt þó í grænu treyjunni. Nú mun kappinn stjórna þeim gulu frá hliðarlínunni og verður fróðlegt að fylgjast með því.

Samtals hafa liðin leikið saman 16 sinnum í úrslitakeppninni. UMFN hefur sigrað 9 sinnum og 7 sinnum hafa Grindjánar fagnað sigri, UMFN hefur skorað 1421 stig gegn 1417 stigum Grindvíkinga. Stærsti sigur UMFN var í 4.leik rimmunnar 1994 en þá sigruðu Njarðvíkingar á heimavelli 95-65 eða með 30 stiga mun. Mesti bakstur Grindvíkinga á Njarðvíkingum var í 3ja leik 1997 í Röstinni en þá sigruðu Grindvíkingar 88-121. Einn mest spennandi leikurinn milli þessara liða var leikur númer 1 í rimmunni árið 1994 en þá sigruðu Grindvíkingar í Röstinni eftir framlengingu 110-107. Rondey Robinson gerði 50 stig fyrir UMFN og Hjörtur Harðarson 37 stig fyrir Grindvíkinga, þar af 8 3ja stiga körfur! UMFN hefur þó sigrað 3 rimmur af þessum 4 og þau 3 ár varð liðið Íslandsmeistari.


Rimman í ár verður án efa virkilega skemmtileg enda leikir þessara liða að undanförnu verið gríðarlega jafnir og spennandi. Gera má ráð fyrir harðri baráttu og góðum körfubolta og vill heimasíðan skora á stuðningsfólk beggja liða að fjölmenna og mynda þá margrómuðu stemmingu sem þessi lið eru þekkt fyrir.

Áfram Njarðvík!

(www.umfn.is/karfan)