Íslandsmeistarar Njarðvíkur urðu í kvöld deildarmeistarar í Iceland Express deild karla eftir nokkuð þægilegan 75-89 sigur á Fjölni í Grafarvogi. Þetta var fyrsti deildarmeistaratitill Njarðvíkinga síðan 2001 og jafnframt fyrsti deildarmeistaratitill Einars Árna Jóhannssonar í úrvalsdeild en Einar er þjálfari Njarðvíkinga. Aðeins tvær umferðir eru eftir í Iceland Express deild karla og fá Njarðvíkingar titilinn afhentan í Ljónagryfjunni þegar þeir taka á móti Haukum á sunnudag. Guðmundur Jónsson lék ekki með Njarðvíkingum í kvöld sökum veikinda en gert er ráð fyrir því að hann verði klár í slaginn á sunnudag gegn Haukum.

Athygli vakti að Hörður Axel Vilhjálmsson var ekki í byrjunarliði Fjölnismanna í kvöld. Hann mun taka út eins leiks bann gegn Hamri/Selfoss á sunnudag. Þegar líða tók á fyrsta leikhluta sigu Njarðvíkingar rólega fram úr og þar fór Igor Beljanski fremstur í flokki og spilaði hann prýðisvörn á Kareem Johnson. Jeb Ivey kom Njarðvíkingumí 14-20 með þriggja stiga körfu en leikhlutanum lauk í stöðunni 17-25 Njarðvík í vil.

Annar leikhluti var algerlega í eigu Njarðvíkinga og vörn Fjölnis var víðsfjarri og lak sem gatasigti. Nemanja Sovic setti reyndar niður þrist í upphafi leikhlutans og staðan 20-25 en Njarðvíkingar juku muninn fljótlega í 10 stig, 25-35. Igor Beljanski hélt uppteknum hætti úr fyrsta leikhluta en fékk sína þriðju villu þegar skammt var til hálfleiks. Villuvandræði Beljanski skiptu Njarðvíkinga ekki miklu máli þar sem staðan var 33-52 Njarðvík í vil þegar flautað var til hálfleiks.

Fjölnismenn bitu lítið eitt frá sér í þriðja leikhluta og unnu leikhlutann 27-21. Hörður Axel var duglegur að skjóta þriggja stiga skotum fyrir Fjölni en þau vildu ekki rata rétta leið. Fjölnir náði mest að minnka muninn í 51-63 í þriðja leikhluta því Njarðvíkingar áttu yfirleitt svör á reiðum höndum við hverri Fjölnissókn sem tókst vel til. Leikhlutanum lauk í stöðunni 58-73 Njarðvík í vil.

Í fjórða leikhluta virtist sem svo að auðveldur Njarðvíkursigur væri í aðsigi en eftir því sem á leikhlutann leið náðu Fjölnismenn að minnka muninn og komust næst Njarðvíkingum í stöðunni 73-80 þegar Hörður Axel Vilhjálmsson kom boltanum loks í gegnum netið frá þriggja stiga línunni en þegar hér var við sögu komið höfðu heimamenn gert níu stig í röð. Njarðvíkingar sýndu á lokamínútunum af hverju þeir eru á toppi deildarinnar og luku leiknum af harðfylgi og lokatölur 75-89.

Stigahæstur í liði Njarðvíkinga var Jeb Ivey með 21 stig en hjá Fjölni gerði Nemanja Sovic 23 stig.

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Íslands- og deildarmeistara Njarðvíkur, var kátur í leikslok en í kvöld fagnaði hann sínum fyrsta deildarmeistaratitli sem þjálfari í úrvalsdeild. ,, Fjölnismenn settu niður nokkur góð skot hérna í restina og við vorum heldur mistækir í sókninni og við vorum ekkert langt frá okkar markmiði hérna í dag, við ætluðum að halda þeim í 70 stigum. Þetta var allan tímann okkar leikur. Það verður góð áskorun fyrir hópinn að mæta tilbúnir og vel stemmdir gegn liðunum sem eru við botn deildarinnar fyrir úrslitakeppnina. Það er góð stemmning í hópnum um þessar mundir og við erum að spila hörkuvörn,” sagði Einar sem fer með heimavallarréttinn sín megin alla leið ef svo blæs í Njarðvíkurseglin.


- Frétt tekin af www.vf.is


ÁFRAM NJARÐVÍK!!