Viðtal við Jón Arnór fyrir stjörnuleikinn:) 14. apríl 2005 | 13:06

Viðtal við Jón Arnór Stefánsson vegna Stjörnuleiksins
Hvernig leggst leikurinn í kvöld í þig?
Hann leggst mjög vel í mig, ég ætla bara að hafa gaman að þessu.

Kom það þér á óvart að vera kosinn?
Já það kom mér skemmtilega á óvart. Ég bjóst ekki við því að vera kosinn.

Heldur þú að þáttaka þín í leiknum eigi eftir að skipta máli fyrir feril þinn?
Það er engin spurning að það er gott fyrir mína ferilskrá að vera valinn í þennan leik.

Deildarkeppninni er lokið hjá ykkur í Rússlandi og úrslitakeppnin að taka við. Hvernig er fyrirkomulagið á henni?
Liðið í efsta sæti mætir liðinu í 8. sæti og svo koll af kolli, líkt og heima. En í Rússlandi þarf að vinna þrjá leiki frá fyrstu umferð. Þau lið sem detta út í fyrstu umferð eru úr leik, en liðin sem komast áfram leika um sæti 1-4. Þannig að þau lið sem tapa í undanúrslitum leika um þriðja sætið. Við mætum Khimky sem endaði í 4. sæti, sama lið og við spilum gegn í undanúrslitum FIBA Europe League.

Er árangur ykkar í vetur í samræmi við væntingar sem gerður voru til liðsins?
Takmark okkar fyirr tímabilið var að taka Evrópukeppnina og komast í undanúrslit í rússnesku deildinni, þannig að við erum á góðri leið með að gera það.

Hvaða leikmaður liðsins hefur heillað þig mest?
Ascrabic [miðherji Dynamo St. Petersburg] hefur heillað mig mest myndi ég sgja, rosalega góður leikmaður, kann leikinn vel. Minnir mig mikið á Vlade Divac.

Hvernig leggjast undanúrslitin í FIBA Europe Leage gegn Khimky í ykkur?
Við trúum því að við getum unnið það lið og komist áfram í úrslitaleikinn. Þetta verður erfiður leikur og við þurfum að spila okkar besta bolta til að eiga möguleika á titli.

Þú ert að spila mikið og þér gengur vel, virðist vera mikilvægur hlekkur í þinu liði sem gengur einnig vel. Þó þú hafir gefið upp á bátinn samning við Dallas Mavericks ertu ekki sannfærður um að ákvörðun þín um að fara til Rússlands hafi verið rétt?
Það má segja það. Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni og er rosalega ánægður í dag, sem skiptir auðvitað mestu máli.

En talandi um NBA, þú hefur fengið smjörþefinn af deild þeirra bestu. Er stefnan sett á að komast þangað að nýju?
Það eru lið sem hafa sýnt áhuga og eru í sambandi við umboðsmenn mína. Ég hef ekkert tekið ákvörðun um hvað ég vil gera á næsta ári, vil bara einbeita mér að því að klára þetta tímabil og sjá svo hvað kemur upp í byrjun sumars.

Meiðslin sem hafa verið að hrjá þig í vetur, hver er staðan á þeim?
Ég er að spila með bilað hné eins og er. Ég þarf að láta skoða þetta þegar ég kem heim í sumar, líklegast fer ég í speglun.

Nú er samningur þinn við Dynamo St. Petersburg til eins árs, ef NBA dæmið gengur ekki upp, værir þú til í að vera áfram hjá liðinu?
Ég ætla ekki að útiloka neitt, mér líður vel hérna og liðið er gott. Það fer mikið eftir því hverjir verða áfram og hvaða Evrópukeppni þeir verða í á næsta ári.

Liðið var stofnað síðasta sumar, hvernig hefur tekist að búa til stemmningu í kringum liðið? Eru áhorfendur farnir að fjölmenna á leiki?
Já, við erum komnir með smá stemmningu í kringum liðið hjá okkur og það er gaman. Okkur hefur gengið vel og fólk er farið að taka eftir því.

Ekki ættu klappstýrurnar að draga úr áhorfendafjölda, því af myndunum á heimasíðu liðsins að dæma eru þær ansi, tja léttklæddar!
Jú jú, það er þunn lína þarna milli klappstýra og strippara.

Hvernig er skipulagið í kringum liðið, er vel staðið að öllum málum sem snúa að ykkur leikmönnunum?
Þetta er orðið mjög fagmannlegt hjá þeim. Þeir sjá mjög vel um okkur og það eru ekki mörg vandamál sem koma upp. Í byrjun tímabils var þetta nýtt fyrir alla þannig að það tók smá tíma að koma hlutum í kring en í dag er þetta mjög traustur klúbbur.

Hvernig líður þér annars í Sankti Pétursborg, ertu farinn að rata um borgina?
Núna rata ég út um allt, farinn að kunna á þetta. Svo er veðrið orðið svo gott, ég fann líka þessu frábæru ísbúð, loksins. Ég fer því ósjaldan niður í bæ að fá mér ís þessa dagana, tek svo göngutúr enda fallega borg og margt að skoða.

Mikið í kavíarnum?
Nei, en er kolfallinn fyrir sushi.

Náður þú að fylgjast eitthvað með íslensku deildinni í vetur?
Ég fylgdist vel með og var ánægður fyrir hönd Benna Gumm, hvað honum gekk vel með strákana í Fjölni. Hann er að gera góða hluti.

Brynjar Þór Björnsson lék sitt fyrsta tímabil með meistaraflokki í vetur, aðeins 16 ára gamall og þótti standa sig vel. Þú þekkir nú eitthvað til drengsins, heldur þú að hann eigi eftir að ná langt í íþróttinni?
Brynjar er mjög hæfileikaríkur, rosalega áhugasamur og duglegur að æfa. Hann á eftir að ná langt ef hann heldur áfram á sömu braut og bætir varnarleikinn. Það er líka mikilvægt fyrir hann að komast einhversstaðar að úti, hvort sem það er í Evrópu eða Bandaríkjunum.

Hvaða ráðleggingar hefur þú annars til ungra körfuknattleiksiðkenda sem vilja ná langt? Hver er galdurinn?
Það er enginn galdur. Setja takmörk, vinna og æfa vel til þess að ná þeim.

Þökkum Jóni Arnóri fyrir gott spjall og óskum honum alls hins besta.


tekið af vef k