Gregory Harris til reynslu
Njarðvíkingar sem á dögunum ráku GJ Hunter hafa náð samkomulagi við bandaríska leikmanninn Gregory Harris um að leika með liðinu út tímabilið. Harris er 24 ára bakvörður 191 cm á hæð sem lék með Mt.St.Marys háskólanum við góðan orðstír og nú síðast lék kappinn í Belgíu með Power Wevelgem en var losaður undan samningi á miðju tímabilinu. Á sínu fyrsta tímabili í Belgíu var kappinn með rúm 23 stig að meðaltali á leik. Harris þykir mjög góður varnarmaður og er víst þokkaleg skytta en honum er ætlað að stjórna leik Njarðvíkurliðsins. Harris er kominn til landsins og verður væntanlega með á föstudaginn þegar Njarðvíkingar mæta Grindvíkingum í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar hafa ekki verið heppnir með bandaríkjamennina í liðinu í vetur, Pete Philo meiddist snemma tímabils og Gary M Hunter stóð engan vegin undir væntingum. Það er vonandi að Harris sé kröftugur leikmaður og hjálpi Njarðvíkingum í baráttunni sem framundan er.