Í sumar útnefndi “The Naismith Memorial Basketball Hall Of Fame” sex nýja meðlimi sem verða teknir inn 27. september næst komandi. Þetta eru 2 leikmenn, Earvin “Magic” Johnson og Drazen Petrovic, 3 þjálfarar, Larry Brown, Lute Olson og Kay Yow, einnig útnefndu þeir Harlem Globetrotters. Ég ætla að fjalla aðeins um Drazen Petrovic.
Drazen Petrovic hefur loksins verið tekinn inn í “Basketball Hall Of Fame”. Drazen fæddist í Sibenik í Króatíu, hann var stórstjarna í heimalandi sínu. Sem ungur maður á árunum 1984-1985 skoraði hann eitt sinn 112 stig í einum leik í króatísku deildinni og hitti 40 af 60 stökkskotum sínum. Hann var í silfurliði Júgóslavíu árið 1988 og silfurliði Króatíu árið 1992 á Ólympíuleikum. Hann leiddi einnig lið sitt Real Madrid til sigurs í Evrópubikarnum í febrúar árið 1989, og í júní sama ár leiddi hann einnig landslið Júgóslavíu til Evrópumeistaratitils.
Hæfileikar hans komu honum svo í NBA, en sá ferill varð ekki langur þar sem Drazen lést í bílslysi í Þýskalandi 28 ára að aldri. Þrátt fyrir að hann spilaði einungis fjögur tímabil í NBA, sást mjög greinilega að hann væri komandi NBA stórstjarna. Hann byrjaði feril sinn með Portland Trail Blazers 1989, en var síðan skipt yfir í New Jersey Nets árið 1991, Petrovic spilaði með New Jersey Nets þar til hann lést árið 1993. Petrovic bjó yfir ótrúlegum skothæfileikum, og á loka tímabili sínu 1992-1993, skoraði hann að meðaltali 22,3 stig og var með 51.8% nýtingu, þar með talið 44,9% þriggja stiga nýting. Þetta var hans besti árangur á ferlinum og var jafnframt stigahæstur NJN manna á þessu tímabili. Þetta tímabil var hann með þriðju bestu þriggja stiga nýtinguna (44,9%), og var kosinn í “All-NBA Third Team”. Á hans fjögurra ára ferli í NBA, skoraði hann að meðaltali 15,4 stig, með 50,6% nýtingu og þar með talið 43,7% þriggja stiga nýting.
Drazen Petrovic er án efa einn besti erlendi körfuboltamaðurinn sem leikið hefur í NBA, og voru margir sem tóku dauðsfalli hans mjög illa þar sem hann var mjög vinsæll meðal leikmanna.
Heimildir: nba.com