Það er ekki af honum skafið. Chris Dudley er án efa einn af skrautlegustu leikmönnum NBA deildarinnar. Baráttan og leikgleðin skín úr andliti hans í hvert skipti sem hann mætir til leiks í strigaskónum sem mamma hans gaf honum í afmælisgjöf.
Margir telja að hann sé ofmetinn leikmaður, en ég segi við þá “Bú á ykkur!”. Frekar myndi ég segja að hann væri mjög vanmetinn leikmaður. Hann leggur allt í sölurnar: Tekur fráköst eins og villt ljón sem hefur týnt tilgangi sínum. Gefur sendingar sem Stockton sjálfur myndi skammast sín fyrir. Á það til að pota boltanum í körfuna (stundum fer boltinn líka ofan í körfuna). Hann er eins og klappstýra á spítti þegar hann situr á bekknum, hvetjandi sína menn til dáða.
Allt ævintýrið byrjaði þegar Krissi kallinn var kippt inn í NBA af Cleveland Cavaliers. Hann var valinn í 4.umferð, 75.pikk, ekki slæmt það!! Hann fór til New Jersey Nets síðar og sló þar all rækilega í gegn. Í einum leik á móti Indiana, þar sem Nets töpuðu 124-113, sló Dudley kallinn gamalt met sem Wilt Chamberlain átti. Fíraði 13 vítaskotum framhjá í röð (þar af einum loftbolta). Hann endaði leikinn með því að klúðra 17 vítaskotum af 18. Hann varð góður vinur Drazen Petrovic sem margir muna eftir. En árið 1993 fór Petrovic að hitta Jesú og félaga eftir að hann lenti vandræðum með bílinn sinn. Chris Dudley, hinn mikli mannvinur og góði gæi, lét sér nú ekkert muna um að skjótast sisona til Króatíu til að fylgja vini sínum til grafar. Ekki voru vítaskotin að vefjast mikið fyrir honum Krissa kallinum á þessum tíma (né heldur í dag). Hann bara lokaði augunum þegar hann var á línunni og skaut framhjá. Síðan eru menn að segja að Shaq eigi í vandræðum!!! Chris fór til Portland seinna meir, síðan til NY Knicks og var eitt tímabil hjá Phoenix Suns þangað hann sneri aftur heim til Portlands þar sem hann er í dag.
Tímaritið Sporting News útnefndi Chris einn af “99 Good guys of sports”. Svo að hann er nú enginn Dennis Rodman. Hann er sem engill á vellinum, hleypur eins og gasella á túr upp völlinn og treður með tilþrifum. Ég held án efa að Portland ætti að reyna halda í hann eins lengi og þeir geta. Þetta er greinilega framtíðarmaður hjá félaginu. Maður sem gefur, maður sem skilur, maður sem kann að spila körfubolta. Þetta er Chris Dudley, tröllið frá Yale. Svo ég segi við alla vantrúaða og misyndismenn: “Býr ekki lítill Chris Dudley í okkur öllum?” Amen.
Chris Dudley er 37 ára gamall.