New Jersey Nets vann annan leikinn á móti Charlotte Hornets 102-88 og leiðir einvígið 2-0. Hornets áttu aldrei í raun neinn möguleika í leiknum og var þetta nokkuð auðvelt hjá Nets, Hornets komust reyndar 5 stigum yfir í 3. leikhluta en þá skoruðu Nets 10 stig í röð, og þegar tæpar 6 mínútur voru eftir af leiknum þá minnkaði George Lynch muninn í 3 stig, en þá kom annar 10-0 kafli hjá Nets og var aldrei spurning eftir það hvoru megin sigurinn færi. Það var varamaðurinn Lucious Harris sem átti mestan hlut í sigri Nets en hann skoraði 24 stig, sem er persónulegt met hjá honum í úrslitakeppni, annars voru Keith van Horn og Kenyon Martin líka sterkir. Jason Kidd hafði hægt um sig og skoraði aðeins 11 stig og gaf bara 6 stoðsendingar, og það gott fyrir Nets ef þeir þurfa ekki að stóla einvörðungu á hann. Hjá Hornets var Baron Davis stigahæstur með 21 stig. Jamal Mashburn spilaði ekki með Hornets eins og áður, en hann hefur aðeins spilað einn leik í úrslitakeppninni í ár.
Næsti leikur er á fimmtudaginn.