Kapparnir eru báðir uppaldir KR-ingar og að sögn kom aldrei neitt annað til greina hjá þeim en að fara aftur í KR, en ég er nokkuð viss um öll félögin í deildinni hefðu haft áhuga á að fá þá í sínar raðir.
Það verður að segjast alveg eins og er að það virkar ekki beint sem skref fram á við að koma aftur heim, enda leikmennirnir báðir á besta aldri eða 26 ára. Að sögn Benedikts Guðmundssonar, þjálfara KR, er ekkert ákvæði í samningnum leikmannanna um að þeir geti yfirgefið liðið á miðri leiktíð til að halda erlendis. Hann segist hafa orð þeirra beggja fyrir því að þeir ætli að spila með liðinu til loka tímabilsins. Framhaldið verður svo bara að ráðast næsta sumar, en eflaust stefnir hugur þessarra miklu körfuknattleiksmanna erlendis á ný. Að sögn heimasíðu KR-inga hefur Jón Arnór ákveðið að taka sér árs frí frá atvinnumennskunni og setjast á skólabekk samhliða körfuboltanum. Eftir því sem ég kemst næst hefur Jakob lokið sínu háskólanámi og því er aldrei að vita nema að hann sé alkominn heim.
KR-ingar eru því orðnir ansi óárennilegir fyrir komandi vetur en það hafa margir úr hinum fyrnasterka '82 árgangi KR-inga snúið heim á síðustu árum. KR-ingar eru því til alls líklegir á komandi vetri, og ef Benni nær að stilla liðið saman ættu þeir hæglega að fara alla leið.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _