Í Grindavík mættust Grindvíkingar og Þórsarar frá Akureyri. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, Grindvíkingar áttu fyrir leikinn enn tölfræðilegan möguleika á efstu tveimur sætunum í deildinni og Þórsarar eru að berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Sigur í kvöld gegn Grindvík hefði sennilega gulltryggt það sæti. Grindavík höfðu fyrir leikinn í kvöld tapað tveimur leikjum í röð en Þórsarar höfðu tekið 4 af síðustu 5 leikjum, en þeir eru nýbúnir að styrkja liðið með mjög hávöxnum miðherja, Robert Reed.
Fyrri leikur liðanna í vetur endaði með sigri Þórs og höfðu Grindvíkingar því harma að hefna. Í upphafi leiks var þó ekkert útlit fyrir að Grindvíkingar hefðu mikinn áhuga á sigri. Skotin voru ekki að detta hjá þeim meðan að Þórsarar mættu ákveðnir til leiks og náðu fljótt forystu í leiknum og Grindvíkingar virtust einfaldlega ekki vera með á nótunum. Grindvíkingar voru á hælunum allan fyrri hálfleikinn og í hálfleik var staðan 37-50 fyrir Þór.
Einhver vel valinn orð hefur Friðrik þrumað yfir Grindvíkinga í hálfleiksræðunni því það var allt annað lið sem mætti til leiks eftir hlé. Þeir söxuðu hratt og örugglega á forskot Þórsara og jöfnuðu leikinn í 60-60. Bjuggust nú flestir við leikhléi frá þjálfara Þórs en í staðinn eyddi hann orku sinni í að kvarta í dómurunum sem hafði lítið uppá sig, endaði hallaði ekkert meir á annað liðið heldur en hitt í dómgæslunni í kvöld.
Grindavík vann 3. leikhluta 30-20 en í fjórða leikhluta settu þeir í fluggírinn og unnu hann 40-25, og leikinn alls 107-95. Mestu munaði um hlut Þorleifs Ólafssonar, eða Lalla, sem skoraði hvorki fleiri né færri en 36 stig í leiknum, þar af 34 í seinni hálfleik. Strákurinn var alveg logandi heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og setti 8 þrista í 9 tilraunum. Bestur í liði Þórs var Luka Marolt sem hélt þeim inní leiknum með góðri hittni á þriggja (5/5) og kom þannig í veg fyrir að Lalli skyti Þórsara í bólakaf. Luka skoraði alls 27 stig í leiknum en Cedric Isom setti 24 og var sí ógnandi. Hann býr yfir ótrúlegum hraða og eru fáir varnarmenn í deildinni sem ná að fylgja honum eftir þegar hann keyrir upp að körfunni.
Í liði Grindavíkur átti Páll Axel einnig fínan leik með 20 stig og nokkrar mjög mikilvægar körfur á lokakaflanum. Nýi kaninn, Jaamal Williams er líka allur að koma til, skoraði 22 stig, tók 8 fráköst og varði 3 skot en hann er þó augljóslega ekki í sínu besta líkamlega formi. Ef hann kemst í form fyrir úrslitakeppnina eru Grindvíkingar ekki árennilegir, með hann inní teig og Lalla, Helga Jónas, Paxel og Darboe fyrir utan.
Úrslit í öðrum leikjum kvöldsins:
Á Stykkishólmi höfðu bikarmeistarar Snæfells betur á móti ÍR-ingum, 87-83.
Í Grafarvogi unnu Njarðvíkingar öruggan sigur á föllnum Fjölnismönnum, 98-83.
Á Sauðarkróki unnu Stólarnir mjög mikilvægan sigur á KR-ingum, 96-94 í framlengdum leik. Stólarnir eiga því enn möguleika á úrslitakeppninni, og Grindvíkingar hafa minnkað forskot KR-inga í tvö stig.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _