8 - Liða ofurdeild
Ég hef ávallt verið mjög hikandi við þá hugmynd að búin verði til 8 liða súperdeild í karlaboltanum hér á hinu farsæla Fróni. En eins og staðan er í dag, fækkun áhorfenda, minni umfjöllun fjölmiðla og minni áhugi styrktaraðila, tel ég að við verðum að gera eitthvað róttækt í stöðunni. Þessi hugmynd sem ég kasta hér fram færir okkur í senn sterkari deild sem líklegri væri til aukningar vinsælda en óbreytt ástand og krefði félögin jafnframt um meiri ábyrgð í fjármálum. Hugmyndin miðast við að hún yrði samþykkt á næsta ársþingi, sé eiginlega ekki að hægt yrði að gera þetta strax næsta tímabil nema með einhverri sumarkeppni um laus sæti í hinni nýju deild sem mér hugnast illa. Þetta er undir talsverðum áhrifum Norsku-aðferðarinnar en með heimfæringu á okkar ágæta samfélag:
Hugmyndin er þá svona:
: 8 liða súperdeild sem hæfist keppnistímabilið 2003-2004
: Við lok tímabilsins 2003 myndu tvö efstu lið 1. deildar, sem unnið hefðu sér rétt til þátttöku í efstu deild miðað við núverandi fyrirkomulag og 6 neðstu liðin í efstu deild, keppa um tvö sæti laus í súperdeildinni. Spilað með réttlátu fyrirkomulagi þannig að klárlega tvö bestu liðin kæmust áfram. Eftir þetta væru komin 8 lið í deildina. Eflaust má sjá aðra möguleika til að fá út þessi 8 lið en það má ekki útiloka þau lið sem unnið hafa sér rétt til að fara upp úr 1. deild, frá því að reyna að vinna sér sæti í súperdeildinni.
: Skilyrði fyrir þátttöku í deildinni:
- Skuldaþak. Félögin þyrftu að leggja fyrir KKÍ endurskoðaða ársreikninga eigi síðar en t.d. í júní fyrir keppnistímabilið á undan. Sambandið færi yfir reikningana og gæfi þeim félögum grænt ljós sem væru með skuldir innan þeirra marka sem sett væru, en gæfi öðrum liðum mánaðarfrest til að ganga frá sínum málum. Ef það tækist ekki yrði nýjum liðum gefinn kostur á að taka þátt. Þetta myndi leiða til þess að félögin gættu betur að útgjöldum sínum en áður og að liðin í 1. deild myndu vinna betur úr sínum styrkjum og reka sig á minna rekstrarfjármagni til þess að vera tilbúin til að fara upp í súperdeildina þegar / ef að því kemur.
- Umgjörð leikja. Kynningar, skotleikir, klappstýrur, lukkudýr og viðráðanlegt miðaverð. Meiri skemmtun fyrir fjölskylduna á hæfilegu verði.
- Þátttaka í sameiginlegum fjárhagslegum reglum deildarinnar. Launaþak á erlenda leikmenn, engin laun til annarra leikmanna aðeins árangursbónusar, jöfnun dómarakostnaðar eins og nú er og jöfnun ferðakostnaðar.
: Leikin fjórföld umferð, samtals 28 leikir og fjögurra liða úrslitakeppni. Neðsta liðið fellur og efsta lið 1. deildar kemur upp, uppfylli það skilyrðin fyrir þátttöku í deildinni.
: Fyrirtækjabikarinn lagður af í núverandi mynd, þess í stað haldin bikarkeppni neðri- deildarliða sem hugsanlega gæti verið með svipuðu sniði og fyrirtækjabikarinn er í dag.
: Bikarkeppni KKÍ leikin með óbreyttu fyrirkomulagi.
Þetta eru eflaust hugmyndir sem heyrst hafa áður en þarna kannski reyni ég að setja saman ábyrga fjármálastjórn og leið til að auka vinsældir. Endilega allir sem vettlingin geta valdið að koma með komment á þetta, bæta og laga svo forráðamenn hreyfingarinnar geti fengið uppskrift af því hvernig við viljum sjá hlutina.
Kveðja axel86