Sælir allir körfubolta-unnendur.
Ég rak heldur betur upp stór augu fyrir skömmu. Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá það að RÚV var búið að ákveða að sýna tvö stykki leiki í Íslenskum körfubolta.
Annar leikurinn, Snæfell - Keflavík, er búinn og ég náði að fylgjast með fyrri hálflek í þeim leik. Annar þulur leiksins fannst mér þó ekki vera með á nótunum og fékk maður stundum það á tilfinninguna að hann vissi nákvæmlega ekkert í sinn haus hvað varðar körfubolta. RÚV fær þó prik fyrir skyndilega viðleitni til boltans. Þetta minnir fólk á það að það er spilaður flottur körfubolti hér á þessu skeri.
Ég bíð spenntur eftir næsta sjónvarpsleik sem verður Skallagrímur - Keflavík. Geysilega stór leikur og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim á RÚV tekst til með þá útsendingu.
En maður getur ekki verið sáttur við sinn snúð. Mér finnst búið að sleppa mörgum stórleikjum í Evrópukeppni Keflvíkinga og Haukakvenna. Umfjöllunin var skammarlega lítil. Einnig hefur verið sleppt stórleikjum líkt og Keflavík - Haukar í kvennaboltanum, Skallagrímur - Snæfell & Njarðvík - Keflavík í karlaflokki.
En ef þetta er það sem nýtt ár mun bera í skauti sér; aukin sýning körfubolta á Íslandi mun ég verða síðasti maðurinn til að tauta yfir því.
Gleðilegt ár og takk fyrir þau gömlu.
Myndin er fengin af vef Víkurfrétta en þeir ættu að vera fyrirmynd íslenskra fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun um íslenskan körfubolta.