Nú er íslenski boltinn farinn að rúlla á ný. Heilar tvær umferðir eru búnar. Að sama skapi er búið að fjalla um heila tvo leiki í Fréttablaðinu! Eftir fyrstu umferðina ætlaði ég að lesa um leik minna manna í Grindavík á móti Haukum, en fann enga umfjöllun. Ég fann bara mjög takmarkað magn af íþróttafréttum en hins vegar alveg helling af auglýsingum á þessum fáu síðum sem íþróttirnar fá.

Í morgun ætlaði ég svo að lesa um leiki 2. umferðar yfir morgunmatnum. Eina sem ég fann var umfjöllunum um einn leik, ekki einu sinni úrslitin í hinum leikjunum né heldur stöðuna í deildinni. Ég hugsa nú að Mogginn standi sig betur í þessum málum en hins vegar er EKKERT inná mbl.is um íslenska körfuboltann, það er ekkert búið að uppfæra körfuboltahlutann hjá þeim síðan á Eiðum '64! Ég þurfti að fara inná heimasíðuna hjá Þór Ak. til að komast að því hvernig leikurinn hjá Grindavík var í gær (úrslitin og stigaskorarar þó að sjálfsögðu aðgengileg á kki.is).

Körfubolti er ekki vinsælasta íþróttin á Íslandi. Áhorfendur eru fáir og stemming oft frekar lítil. Sama gildir raunar um margar íþróttir á Íslandi, ef ekki flestar. Auglýsing og almenn umfjöllun er eitthvað sem allar þessar greinar verða að fá ef fólk á að taka eftir þeim, og að nenna að fylgjast með þeim. Fréttablaðinu er jú dreift frítt inná (flest) öll heimili í landinu og eina blaðið á mörgum heimilum. Íþróttafréttirnar í blaðinu eru í raun allar til skammar. Þær hafa ekki fastar síður (íþróttasíður ættu ALLTAF að vera sér hluti í miðju blaðsins sem hægt er að taka frá og lesa sér) og efnið er mjög takmarkað. Plássið virðist oftast þurfa að víkja fyrir auglýsingum.

Ég hef heimsótt Fréttablaðið og skoðað aðstöðuna hjá þeim. Íþróttadeildin virðist vera öflug, þeir eru fjölmennir og hafa fína aðstöðu útaf fyrir sig. Samt gæti maður haldið að íþróttasíðunum/síðunni væri haldið úti af einum áhugamanni sem fær að auki takmarkað pláss og verður að velja úr efni. Ég skora á Fréttablaðið að taka til í sínum málum og veita íþróttafréttum það pláss og þann sess (miðjuna) sem þær eiga fyllilega skilið!

Ps. Mikið rosalega sakna ég íþróttafréttanna sem voru í DV á mánudögum, hvílík hátíð sem það var í byrjun hverrar viku!
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _