Nú þegar NBA tímabilið er alveg að klárast byrjar deildin að útdeila viðurkenningum af ýmsu tagi eins og brjálæðingar. Hérna er mín spá um hverjir fá verðlaun og hverjir ekki.
Mestu framfarir: Dwyane Wade
Það er reyndar búið að afhenda þessi verðlaun og þau fóru til Bobby Simmons. Ég er ósammála því. Simmons er jú búinn að bæta sig rosalega og fór úr því að vera góður 6. maður í að vera 3. besti leikmaður liðs síns. Skorið hækkaði úr 7,8 í 16,4 og nýtingin úr .394 í .466. En mér finnst samt Wade eiga þetta meira skilið. Simmons breyttist úr miðlungsleikmanni í góðan en Wade breyttist úr góðum í stjörnuleikmann. Statsarnir fóru úr 16,2 stigum, 4,5 frák. og 4 stoðs. í 24,1 stig, 5,2 frák. og 6,8 stoðs. Ótrúleg bæting. Hann hefur líka oft verið að klára leikina fyrir Heat og yfir heildina finnst mér meiri bæting hjá Wade.
Næstir í röðinni:
2. Bobby Simmons
3. Tayshaun Prince
4. Larry Hughes
5. Primoz Brezec
6. maður ársins: Ben Gordon
Ben Gordon er búinn að koma flestum á óvart. Eftir að Skiles setti hann á bekkinn hefur hann verið alveg frábær. Hann hefur oft verið að skora 15-20 stig í 4. leikhluta og unnið nokkra leiki fyrir Bulls á því. Ef Gordon vinnur verður hann fyrsti nýliðinn til að fá þessi verðlaun og mér finnst hann eiga þau alveg skilið. Meira en Ricky Davis þrátt fyrir að hann sé einnig búinn að eiga mjög gott tímabil sem 6. maður Celtics.
Næstir í röðinni:
2. Ricky Davis
3. Hedo Turkoglu
4. Earl Boykins
5. Jerry Stackhouse
Nýliði ársins: Emeka Okafor
Gordon verður að sætta sig við að fá aðeins sixth man verðlaunin hjá mér. Þrátt fyrir gott tímabil er Okafor búinn að vera stöðugri og betri. Hann er 4. frákastahæsti og búinn að ná 47 tvöföldum tvennum í ár. Hann er besti maður liðs síns og á pottþétt eftir að eiga farsælan NBA feril.
Næstir í röðinni:
2. Ben Gordon
3. Dwight Howard
4. Andre Igoudala
5. Luol Deng
Þjálfari ársins: Rick Carlisle
Þetta er langjafnasti flokkurinn að mínu mati og a.m.k. 5 þjálfarar ættu skilið að fá þessi verðlaun. Ég valdi Carlisle því að árangurinn sem hann er búinn að ná þrátt fyrir að hafa misst þrjá lykilmenn í löng bonn er hreint út sagt ótrúlegur. Hann hefur náð því besta úr leikmönnunum og þá sérstaklega hinum 39 ára Reggie Miller sem er að eiga sitt besta tímabil síðan 2000-01. Jamaal Tinsley var líka mjög góður þegar hann var ómeiddur og varamennirnir hafa einnig staðið sig vel.
George Karl á samt besta þjálfaraárangurinn í ár en þar sem hann er aðeins búinn að vera með Nuggets í 40 leikjum valdi ég Carlisle fram yfir hann.
Næstir í röðinni
2. George Karl
3. Mike D'Antoni
4. Nate McMillan
5. Scott Skiles
Varnarmaður ársins: Bruce Bowen
Ef Andrei Kirilenko hefði ekki misst af hálfu tímabilinu vegna meiðsla væri hann öruggur sem varnarmaður ársins. Hann er besti blokkari deildarinnar og stelur einnig slatta af boltum. En þar sem hann er úr myndinni er Bruce Bowen bestur að mínu mati. Hann er lykilmaðurinn í Spurs vörninni sem er búin að vera ein sú besta í ár. Það mætti líkja honum við Ron Artest í fyrra mínus stolnu boltanna. Hann hefur stoppað leikmenn eins og Iverson, Kobe og T-Mac í vetur.
Næstir í röðinni
2. Ben Wallace
3. Shawn Marion
4. Marcus Camby
5. Allen Iverson/Larry Hughes
Mikilvægasti leikmaður: Steve Nash
Ég hef ekki farið leynt með það að mér finnst Steve Nash búinn að vera bestur í ár. Leikskilningur hans er ótrúlegur eins er með áhrif hans á liðið. Hann gerir leikmennina betri eins og sést á því að allt byrjunarliðið er að eiga sitt besta ár, fyrir utan Quentin Richardson sem er þó búinn að vera góður. Hann með langflestar stoðsendingar í deildinni og skorar 15,5 stig þrátt fyrir að spila aðeins 34 mín í leik.
Valið stendur á milli hans og Shaq og ómögulegt að segja til um hvor verður valinn. Shaq er líka búinn að vera frábær og hefur algjörlega breytt Miami Heat sem er að eiga sitt besta tímabil frá upphafi.
Næstir í röðinni:
2. Shaq
3. Dirk Nowitzki
4. LeBron James
5. Allen Iverson/Amaré Stoudemire
Og svo eru það lið ársins.
Lið ársins 1:
C: Shaq
F: Amaré Stoudemire
F: Dirk Nowitzki
G: LeBron James
G: Steve Nash
Lið ársins 2:
C: Yao Ming
F: Tim Duncan
F: Kevin Garnett
G: Allen Iverson
G: Dwyane Wade
Lið ársins 3:
C: Chris Bosh
F: Shawn Marion
F: Tracy McGrady
G: Ray Allen
G: Gilbert Arenas
Eini sem mér finnst ekki eiga heima hérna er Chris Bosh en hann er þarna bara vegna skorts á centerum. Það hefði verið hægt að hafa Amaré í C í 2. liði og þá Duncan sem framherja í 1. liði en mér finnst Amaré búinn að vera það góður að hann eigi skilið sæti í 1. liði.