Þegar þetta er skrifað eru fyrstu fjórir leikirnir af úrslitakeppni NBA 2005 að klárast. Þrátt fyrir en rosalega óvænt úrslit virðist þetta stefna í mjög flotta úrslitakeppni.

Í fyrra var 1. umferðin frekar misheppnuð. Þá var aðeins ein sería sem innihélt einhverja spennu og það var Miami - New Orleans. Miami vann þá seríu 4-3. Aðrar enduðu annað hvort 4-1 eða 4-0 og þau lið sem höfðu heimaleikjaréttinn unnu öll. Samt býst ég fastlega við því að svo verði það ekki í ár. Liðin eru mun jafnari og oft er það þannig að liðin með verra vinningshlutfallið eru búin að vera á þvílíku skriði í seinustu leikjum.
En allavega, lítum á liðin.

Vesturdeildin

1. Phoenix Suns (62-20) - 8. Memphis Grizzlies (45-37)

Ég held að allir geti verið sammála um að Suns er búið að vera lið keppninnar hingað til. Þeir voru langt frá því að komast í úrslitakeppnina í fyrra en enda núna með besta vinningshlutfallið. Og þar af auki er alveg frábært að fylgjast með sóknarleik þeirra.
Ég hugsa að fáir búist við því að Suns komist alla leið vegna þess að það er oftast sagt að það sé varnarleikurinn sem vinni titla (sb. öll árin sem Detroit hefur unnið). Ég hef samt trú á þeim. Liðið er að spila einhverja bestu sókn sem hefur sést í NBA síðan Bulls var upp á sitt besta.
Það má samt ekki vanmeta Grizzlies. Þeir eru eitt af fáum liðum í ár sem hafa náð að halda Suns niðri (Unnu 2 af 4 leikjum liðanna og héldu þeim í 95 stigum að mtl). Þeir eru með mikla breidd en vantar samt einhvern outstanding leikmann. Pau Gasol á að vera sá leikmaður en hefur ekki náð að standa undir því hlutverki í vetur og þarf að gera það núna til að liðið komist áfram.
Suns á að vera betra liðið en þeir þurfa samt að hafa Nash heilan til að vinna þetta. Suns er bara hálft lið án hans.

Mín spá, Suns tekur þetta í 5 leikjum.

2. San Antonio Spurs (59-23) - 7. Denver Nuggets (49-33)

George Karl þjálfari Nuggets er búinn að sýna það og sanna að hann er einhver sá allra besti þjálfari samtímans. Nuggets fóru úr 17-25 upp í 49-33 eftir að Karl tók við stjórninni og eru heitasta liðið í dag. Allir leikmenn liðsins hafa spilað stórvel eftir að hann tók við, meira að segja Carmelo Anthony sem virtist fyrir áramót vera búinn að eyðileggja möguleika sína á að verða stórstjarna.
Spurs hafa átt í smávægilegum vandræðum upp á síðkastið með Duncan meiddan. Það breytir samt ekki því að Spurs er eitt allra besta lið deildarinnar. Þeir hafa líka Duncan. Hann hefur fengið að hvíla mikið í vetur, spilar aðeins 33,4 mín. í leik og er samt með 20,4 stig og 11,4 fráköst. Núna mun hann líklegast þurfa að spila fleiri mínútur og ætti þar með að skora meira. Með þeirri vel skipulögðu og sterku vörn sem Spurs hefur spilað í vetur ættu þeir að taka seríuna, þótt það gæti orðið nokkuð jafnt.

Spurs tekur þetta í 7 leikjum.

3. Seattle SuperSonics 52-30 - 6. Sacramento Kings 50-32

Hörkusería hér á ferð sem byrjaði á góðum sigri Sonics. Sonics komu öllum á óvart (reyndar öllum nema Eddie Johnson, samkvæmt því sem hann skrifaði á hoopshype) og byrjuðu tímabilið allra best. Þótt að þeir hafi dalað aðeins eftir áramót náðu þeir 3. sætinu og 4. besta vinningshlutfallinu í vestrinu.
Þeir eiga tvær af bestu skyttum deildarinnar, þá Ray Allen og Rashard Lewis, og þrátt fyrir góðan bekk hafa þeir borið liðið uppi í vetur. Allen er á hátindi ferilsins og þetta var besta tímabil Lewis hingað til. Þeir eru frábærir, en ég held samt að Radmanovic og Anthonio Daniels þurfi líka að standa sig til að þeir vinni seríuna. Reyndar átti Jerome James stórleik í gær með 17 stig, 15 frák. og 5 varin. Það er samt eitthvað sem gerist bara einu sinni á tímabili.
Meiðsli eiga eftir að spila stórt hlutverk hjá Kings í þessari seríu. Bobby Jackson er nýkominn úr mjög erfiðum meiðslum og óvíst hversu mikið gagn hann mun gera. Brad Miller er meiddur og það er ekki öruggt að hann muni spila eitthvað með. Þess vegna mun mikið mæða á Peja og Mike Bibby. Þetta eiga eftir að verða erfiðir leikir fyrir Kings.

Þessi sería fer í 7 leiki. Með Miller og Jackson heila tekur Kings þetta en án þeirra vinna Sonics.

4. Dallas Mavericks 58-22 - 5. Houston Rockets 51-31

Hrikaleg sería. Rockets byrjuðu hana á að vinna Mavs nokkuð örugglega, 98-86. Það verður samt að segjast að Mavericks spiluðu langt undir getu og að þeir hljóti að spila betur í næstu leikjum. Finley og Nowitzki áttu báðir lélegan dag og T-Mac skoraði eins og hann vildi.
Samt held ég að Mavs séu sigurstranglegri. Liðið vann 58 leiki og hafði unnið síðustu 9 deildarleikina. Þeir hafa líka Dirk sem er búinn að vera alveg frábær í vetur. Þótt að T-Mac hafi byrjað þessa rimmu á milli þeirra betur held ég að Dirk eigi eftir að standa uppi sem sigurvegari.
Houston er samt með mjög sterkt lið. Þeir eru búni að vera einstaklega góðir núna á seinni helming tímabilsins, og þá sérstaklega McGrady. Yao á auðvitað líka eftir að gegna stóru hlutverki en ég held samt að Houston muni tapa þessu á breiddinni. Á meðan Houston er bara tveggja manna lið hefur Dallas breiddina sem þarf til að komast langt í úrslitakeppni.

Dallas í sex leikjum.

Austurdeildin

1. Miami Heat (59-23) - 8. New Jersey Nets (42-40)

Koma Vince Carters til Nets hefur breitt liðinu algjörlega. Þeir virtust ætla að enda með eitt versta vinningshlutfallið en enduðu svo á því að rétt skríða í 8. sætið. Carter og Jason Kidd eru báðir búnir að vera frábærir og gætu þess vegna strítt Miami eitthvað. Þeir hafa samt ekki mannskap til að stoppa Shaq. Þrátt fyrir að Nenad Krstic hafi byrjað vel í NBA er ekki séns að hann ráði við Shaq. Hann á eftir að verða stórt vandamál hjá þeim því að þeir munu alltaf verða að tvídekka hann og þá opnast skotmenn eins og Eddie og Damon Jones.
Carter á eftir að vera í aðalhlutverki hjá Nets og þarf að sinna því vel ef að liðið ætlar að halda í við Miami. Það á þess vegna örugglega eftir að verða gaman að fylgjast með leikjum liðanna, ég spái skemmtilegum leikjum.

Miami í sex leikjum.

2. Detroit Pistons (54-28) - 7. Philadelphia 76ers (43-39)

Pistons unnu fyrsta leikinn nokkuð örugglega í gær. Þeir byrjuðu reyndar hræðilega en spiluðu eins og meistarar eftir það.
Þetta á eftir að vera mjög erfitt fyrir Philly. Þeir hafa alltof litla breidd til að ráða við Pistons og eins og sást í gær er ekki nóg fyrir Philly að hafa Iverson, Dalembert og Webber. Þeir voru allir mjög góðir í gær en með jafn lélegan bekk og Philly hefur eiga þeir ekki séns í meistarana. Og já, hvað heldur Marc Jackson eiginlega að hann sé? Hann lét Big Ben Wallace gjörsamlega rústa sér undir körfunni.
Pistons virðast vera mjög heitir. Wallace-arnir og Tayshaun Prince voru frábærir og Antonio McDyess kom mjög sterkur af bekknum. Enginn var að spila verulega illa í liðinu, nema þá í 1. leikhluta. Ef þeir halda svona áfram geta þeir vel haldið meistaratitlinum.

Pistons í fimm.

3. Boston Celtics (45-37) - 6. Indiana Pacers (44-38)

Boston komu mér verulega á óvart í gær þegar þeir fóru illa með Pacers og unnu þá með 20 stigum. Pacers var að gera allt vitlaust í leiknum, með aðeins 35% nýtingu og töpuðu 22 boltum. Á meðan voru Celtics að spila frábærlega. Raef LaFrentz var mjög góður og bekkurinn kom verulega sterkur inn (40 stig af bekknum).
Ég bjóst fyrirfram við því að Indiana yrði sterkari. Miðað við vesenið sem eru búnir að lenda í hefur árangur þeirra verið ótrúlegur. Reggie Miller er líka búinn að vera frábær en hann fann sig ekki í gær. Svo er Jermaine O'Neal auðvitað frábær leikmaður en hann er greinilega ekki í fullu formi.
Ég held samt að Boston gæti vel komið á óvart. Doc Rivers hefur verið að vinna gott starf hjá liðinu og þeir eru með verulega góða unga leikmenn (sb. Al Jefferson og Marcus Banks). Svo hafa þeir Ricky Davis sem kemur alltaf sterkur af bekknum og er líklegur til að fá 6th man award. Ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á Boston fyrr en nú og held að þeir gætu alveg komið á óvart.

Þetta verður örugglega sjóðheit sería, Boston tekur þetta í sjö leikjum.

4. Chicago Bulls (47-35) - 5. Washington Wizards (45-37)

Hverjum hefði dottið í hug fyrir ári að þessi tvö lið myndu mætast í úrslitakeppninni. Ekki mér og örugglega ekki þér. Lélegasta liðið og 3ja lélegasta. En tímarnir breytast og þessi tvö lið hafa verið ein þau skemmtilegustu í vetur.
Þau eru spila samt mjög ólíkan bolta. Bulls er með enga stjörnu í liðinu og 8 leikmenn spila meira en 23 mínútur í leik. Þeir eru gott varnarlið en samt mjög reynslulítið, fáir með reynslu í úrslitakeppninni og 4 nýliðar spila með liðinu.
Washington spilar allt öðruvísi körfubolta. Þar byggist leikur liðsins á þremur leikmönnum, þeim Gilbert Arenas, Antawn Jamison og Larry Hughes. Þeir eru allir búnir að eiga frábært tímabil og hafa haldið liðinu uppi.

Ég held að bæði vegna reynsluleysis Bulls og skort þeirra á alvöru leiðtoga sé Wizards sigurstranglegra í seríunni. Þeir taka þetta í sex leikjum.