Grófustu leikmenn jarðar <b>Karl Malone - Utah Jazz, Los Angeles Lakers</b>
Póstmaðurinn hefur verið að deila út olnbogum í fleiri ár. Rifbein, bak, andlit, það skiptir engu máli. Þessi gaur er bara fantur. Allir vita að þegar Malone nær frákasti, þá á maður að passa sig því þessir olnbogar eiga eftir að sveiflast allt í kring og lenda á öllum sem eru í sama póstnúmeri. Hann hefur notað olnbogann á sér sem vopn í nærri 20 ár. Ef þið viljið sannanir spyrjið þá Isiah Thomas, David Robinson og Joe Kleine.

Í desember 1991, í leik Utah Jazz og Detroit Pistons, var Isiah Thomas að keyra að körfunni þegar Karl Malone “reyndi að ná til boltans” en tókst einhvern veginn að olnboga Thomas svo harkalega í andlitið að hann þurfti 40 spor og lýtaraðgerð til að laga skaðann. Það fyrsta sem kom í huga Thomas eftir höggið var að hann hefði verið skotinn í höfuðið af einhverjum í áhorfendastúkunni.

Í apríl 1998 var Malone dæmdur í bann fyrir olnbogaskot. Fórnarlambið í þetta sinn var fyrrum MVP og íþróttarmaður ársins, David Robinson. Robinson hafði komist inn í sendingu frá Stockton sem var ætluð Malone en póstmaðurinn snýr sér þá snöggt við með olnbogann á lofti og hæfir Robinson á aftanvert höfuðið með þeim afleiðingum að aðmírallinn fellur beint í gólfið án þess að bera fyrir sig hendurnar. Hann lá meðvitundarlaus í nokkrar mínútur á gólfinu og þurfti hjálp til að komast inn í búningsklefann. Hann endaði kvöldið á sjúkrahúsi með heilahristing. Þess má geta að ekkert var dæmt á Malone en David Robinson fékk villu fyrir atvikið. (Að skalla olnbogann á einhverjum er gróf villa að því er virðist, eins og fyrrum leikmaður Fúsíjama, Halldór Gunnar Pálsson, getur borið vitni um)

Ekki má svo gleyma þegar Malone endaði feril miðherjans Dave Ramer í háskóla árið 1984. Malone hafði náð frákasti og kom niður sveiflandi olnbogunum. Dave Ramer var svo óheppinn að vera staddur við hlið hans og fékk olnbogann beint í andlitið, rétt fyrir neðan hægra augað, með þeim afleiðingum að andlit hans mölbrotnaði. Ramer lék aldrei aftur körfubolta.

Við skulum leyfa Mark Cuban, hinum moldríka eiganda Dallas Maverics, að eiga síðustu orðin. “Sjáum til, hann fékk einn leik þegar hann gaf Isiah Thomas 40 spor. Hann fékk einn leik þegar hann olnbogaði David Robinson og rotaði hann. Hann fékk einn leik þegar hann olnbogaði Joe Kleine, sem þurfti á lýtaraðgerð að halda eftir atvikið. Hann fékk 10.000$ sekt fyrir að olnboga og sparka í Shawn Bradley, sömu viku og ég keypti liðið. Bradley fékk hins vegar tæknivillu eftir að Malone sparkaði í magann á honum í einum af sínum ”spark-stökk skotum“. Bradley féll í gólfið af sársauka. Malone ”sá“ svo eftir atvikinu að hann sagði ”Þegar 18 hjóla trukkur lendir á Volkswagen, hvað gerist?“


<b>Bill Laimbeer - Cleveland Cavaliers og Detroit Pistons</b>
Hans ”leikstíll" var að koma ódýrum skotum (með þeim ásetningi að meiða) á þá leikmenn sem reyndu að keyra fram hjá honum. Spyrjið bara Larry Bird sem brotnaði næstum í tvennt þegar hann plataði Stóra Bill upp í loftið með pump-feiki. Hann stundaði ekki körfubolta, hann stundaði líkamsárásir. Maðurinn hefði olnbogað klappstýru ef hún hefði flækst undir körfunni.

<b>Guðni Þór Sigurjónsson - Fúsíjama Basketball Club International</b>
Guðni var jaxl og lifði fyrir að nota handboltavörnina sína á grunnlausa körfuknattleiksmenn sem héldu að þetta væri leikur án snertingar. Hann var meistari meistaranna í ólöglega vörðum skotum, ólöglega stolnum boltum, ólöglegum tæklingum, ólöglegum fellingum, ólöglegum varnarstöðum, ólöglegum hrindingum, ólöglegum fráköstum, ólöglegum olnbogaskotum og jafnvel ólöglegum árásum, svo stikklað sé á stóru. Frægt var atvikið þegar hann sparkaði í Jakob Einar Úlfarsson, þáverandi leikmann UMFB, sem lá í gólfinu og enn frægara var atvikið þegar hann fékk sex villur í einum og sama leiknum og eins leikja bann í síðasta leik úrslitakeppninnar árið 2002.


<b>Dennis Rodman</b>
Valinn grófasti leikmaður NBA í könnun sem Sport Illustrated gerði meðal NBA leikmanna, þjálfara og stjórnarmanna í apríl 1997. Hann hefur meðal annars sparkað í upptökumann og skallað dómara.

<b>John Stockton - Utah Jazz</b>
Án nokkurs vafa einn grófasti leikmaðurinn í sögu NBA. Þessi maður hefur sett upp fleiri ólögleg skrín en nokkur annar leikmaður. Ef hann væri 25 cm hærri þá ætti hann metið í flestum villum í leik, á tímabili og á ferlinum. En hann veit að hann kemst upp með fast olnbogaskot í búkinn, þannig að hann gerir það við alla. Meira að segja Dennis Rodman kallar hann grófann leikmann.

<b>Marinó Ingi Emilsson - Ungmennafélag Bolungarvíkur</b>
Slátrarinn frá Bolungarvík lifði fyrir að meiða og spilaði oft eins og að honum hefði verið falið það vafasama verkefni að útrýma andstæðingunum með öllum tiltækum ráðum. Að keyra upp að körfunni með hann til varnar var ávísun á það eitt liggja vankaður í nokkrar mínútur á gólfinu eftir á. Eini maðurinn í gervallri körfuknattleikssögunni sem hefur verið flautað á fyrir það eitt að horfa illilega á annan leikmann. Meðal toppanna á ferlinum var þegar hann var rekinn útaf með 5 villur eftir 3-4 mínútur í leik á móti KFÍ og þegar hann hnéaði einn andstæðing sinn í magann fyrir að hafa spilað of grófa vörn. Marinó hefur aldrei verið dæmdur í leikbann.

<i>Byggt að hluta til á efni frá ESPN.com og makingpages.org, og einnig á eigin reynslu.</i
If you don´t like your job, you don´t strike….you just go in everyday and do it really half-assed. Thats the American way - Homer Simpson