Nei, ég er ekki að fara að skrifa um enn einar reglubreytingar í NBA, það er nóg komið af þeim seinustu ár. Það sem ég ætla að fjalla um er hins vegar hvernig leikstíll margra liða hefur breyst í ár.
Ég viðurkenni það og margir aðrir körfuhausar líka; NBA deildin hefur orðið leiðinlegri og leiðinlegri frá því að Jordan hætti í Bulls. Leikurinn er ekki nærri því eins hraður og hann var, aðeins örfá lið eru að skora yfir 100 stig í leik og mun minna af alvöru tilþrifum (reyndar með undartekningum, sb. Carter, J-Rich og Kobe). Þetta er að minnsta kosti mín skoðun. Ég held (og Eddie Johnson líka) að aðal ástæðan fyrir því sé sú að þjálfarar treysti ekki leikmönnunum til að improvæsa á vellinum og keyra leikinn áfram. Þeir vilja frekar fara öruggu leiðina og spila eftir kerfum í hverri sókn. Það eykur kannski líkurnar á körfu en hægir óneitanlega á leiknum og gerir hann ekki eins áhorfendavænan. Þannig eru flest liðin búin að spila leikinn seinustu tímabil en í ár virðist sem einhverjar breytingar séu í gangi á leikstíl liðanna.
Já, í ár eru nefnilega bestu liðin (með undartekningum) búin að vera þau sem spila hvað hraðastan og skemmtilegastan bolta. Á meðan eru varnarsinnuð lið sem voru spáð góðu gengi búin að floppa algjörlega. Hérna eru nokkur dæmi um það.
Phoenix Suns eru búnir að spila skemmtilegasta boltann í vetur með þá Steve Nash og Amaré Stoudemire fremsta í flokki. Gott gengi þeirra hefur komið mörgum á óvart en ef maður spáir í það er ekkert skrýtið við það.
Ég er á því að Steve Nash sé besti leikstjórnandinn í deildinni. Hann var kannski ekki alveg númer eitt í fyrra en í ár er hann pottþétt búinn að vera bestur. Ástæðan fyrir þessum framförum hjá honum held ég að sé það að Mike D'Antoni, þjálfari Suns treystir honum algjörlega til að stjórna spili liðsins.
Nash hefur líka frábæra leikmenn til að vinna með. Amaré er orðinn rosalegur leikmaður og það eru fáir sem ráða við hann undir körfunni. Nash hefur verið duglegur að finna hann en svo hefur hann líka Quentin Richardson og Joe Johnson á köntunum, báðir óstöðvandi skyttur ef þeir komast í gang. Svo má ekki gleyma Shawn Marion sem er algjör vinnuhestur, leikmaður sem öll lið myndu vilja hafa.
Þegar fimm jafn góðir leikmenn og þessir koma saman undir stjórn þjálfara sem leyfir þeim að vera skapandi og spila hraðan bolta er ekki hægt að búast við öðru en góðum árangri. Suns geta þess vegna komist alla leið í vetur, þrátt fyrir að Spurs verða að teljast sigurstranglegri.
Annað lið sem hefur komið á óvart og spilað skemmtilegan bolta í vetur er mitt favorít, Orlando Magic. Helsta ástæðan fyrir góðu gengi þeirra er náttúrulega þessi ótrúlega endurkoma hjá Grant Hill. Saga hans er ótrúleg, og það kæmi mér ekkert á óvart ef hún myndi ekki enda sem kvikmynd. Steve Francis er líka búinn að vera mjög góður. Hann er leikmaður með rosalega hæfileika en hefur ekki getað nýtt þá sem skyldi hjá Houston. Þar var boltinn einfaldlega of agaður fyrir hann en hjá Orlando fær hann að keyra upp leikinn eins og hann vill og það hefur bætt leik hans til muna.
Hinir nýju leikmennirnir frá Houston hafa einnig verið að spila vel og svo er Hedo Turkoglu líklegur í 6ta mann ársins miðað við frammistöðu hans hingað til.
Svo að lokum er það Dwight Howard sem hefur staðist undir öllum þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Hann er mjög góður varnarmaður, jafnvel betri en talið var og svo hefur hann allur verið að koma til í sókninni í seinustu leikjum.
Og það eru fleiri lið sem spila þennan skemmtilega sóknarbolta. Cleveland til dæmis. Þar er það samt LeBron James sem er að vinna leiki fyrir þá. LeBron er ótrúlegur. Hann er ekki bara einn sá allra besti skorari deildarinnar heldur er hann líka frábær teamplayer sem bætir alla á vellinum. Og svo er hann bara 19 ára! Þetta er sá maður sem er líklegastur til að taka við af Shaq sem leiðtogi NBA deildarinnar. Hann bætir líka upp alla í kringum sig sem sést á því hversu vel Jeff McInnis, Zydrunas Ilgauskas og Drew Gooden eru að spila.
Önnur lið sem hafa bætt deildina í vetur eru t.d. Washington Wizards. Þeir hafa verið að spila mjög hraðan bolta og skora 102 stig í leik, það næst mesta á eftir Phoenix. Stærsta ástæðan fyrir góðu gengi þeirra er hversu vel þeir Antawn Jamison, Gilbert Arenas og Larry Hughes hafa náð saman. Þeir eru allir að skora í kringum 20 stig í leik, Arenas og Jamison báðir með í kringum 45% nýtingu og Hughes að stela 3,3 boltum að meðaltali.
Sacramento hafa verið mjög sóknarsinnað lið seinustu árin og það er engin breyting á hjá þeim í ár. Eini munurinn frá því í fyrra er sá að Chris Webber er að spila vel.
Seattle SuperSonic hafa komið mest á óvart í ár og eru aðeins búnir að tapa 3 leikjum. Helsta ástæðan fyrir góðu gengi þeirra er sú að þeir eru eina liðið í deildinni sem getur hitt vel úr þriggja kvöld eftir kvöld. Ray Allen er aldrei betri en áður, Rashard Lewis er, ótrúlegt en satt, að standa undir væntingunum sem gerðar voru til hans, sama með Radmanovic, Antonio Daniels og Danny Fortson eru að koma rosalega sterkir af bekknum og að lokum er Luke Ridnour búinn að koma skemmtilega á óvart, með 6 stoðsendingar og 10 stig í leik.
Maður bíður eftir því að þeir fari að tapa en það bara gerist ekki. Ef þetta heldur svona áfram er Nate McMillan svo gott sem orðinn þjálfari ársins.
Svo má líka nefna lið eins og Dallas, Minnesota, LA Clippers og Boston sem hafa verið að spila skemmtilega í vetur og sum komið mönnum skemmtilega á óvart (Clippers og Boston).
Svo eru það andstæðurnar.
Á meðan skemmtilegu liðin hafa verið að vinna og vinna hafa varnarliðin aftur á móti verið að tapa og tapa. Skýrasta dæmið um það er Houston Rockets. Rockets er með lið sem á að vera með a.m.k. 65% vinningshlutfall. Í dag eru þeir með 45%, þótt þeir séu búnir að vinna 3 leiki í röð. Svona staða á ekki að sjást hjá liði sem er með Tracy McGrady og Yao Ming innanborðs. Eitt það ógnvænlegasta tvíeyki deildarinnar. En nei, Tracy er að spila eins og miðlungs skorari og Yao, eins góður og hann gæti verið, skýtur aðeins 13 skotum að mtl í leik. Hann er með 50% nýtingu og 18 stig svo ímyndið ykkur hvernig hann væri ef hann tæki ca. 18-20 skot í leik. Yao er nefnilega mjög góður leikmaður, hann er bara nýttur allt of lítið.
En aftur að Tracy, hver skyldi vera ástæðan fyrir því hversu lélega honum gengur. Ástæðan nefnist Stan Van Gundy. Van Gundy, þjálfari Rockets hefur því miður enga trú á því að gefa leikmönnum frelsi á vellinum heldur spilar alltaf eftir sömu hægu kerfunum sem sést best á því að Houston skorar aðeins 87 stig í leik, það þriðja lægsta í deildinni. Tracy er greinilega ekki að finna sig í þessum hæga bolta og því vona ég að Van Gundy fari sem fyrst frá Houston og einhver aðeins kraftmeiri þjálfari komi til liðsins.
Önnur lið sem spila varnarsinnaðan bolta hafa einnig spilað undir getu í ár. Þar má helst nefna meistarana frá Detroit. Þeir eru í 7. sæti í austrinu á meðan flestir spáðu þeim 1. Memphis Grizzlies, Philadelphia 76ers og Chicago Bulls hafa einnig spilað undir getu. Svo að lokum eru það Atlanta, en vandamálið hjá þeim er bara að þeir eru ömurlegir. Ég ætla samt að hafa þetta lokaorðin því að þetta er orðið mun lengra en ég ætlaði mér.
Takk fyrir mig.