Þá er komið að þriðja og síðasta hluta þessarar umfjöllunar um komandi NBA tímabil. Reyndar aðeins seinna en ég ætlaði mér en það er bara út af mikilla anna í skólanum. Nú verður fjallað um Norðvestur- og Atlantshafsriðilinn þar sem lið eins og Minnesota, San Antonio, Sacramento og LA Lakers eru í.

Norðvesturriðlillinn

1. Minnesota Timberwolves

Komnir:
Blake Steep, nýliði
Eddie Griffin frá Houston

Farnir:


Líklegt byrjunarlið:
5. Michael Olowokandi
4. Kevin Garnett
3. Latrell Sprewell
2. Wally Szczerbiak
1. Sam Cassell

Hitt liðið sem ég held að verði í sérflokki í vesturdeildinni er Minnesota. Þeir voru með besta vinningshlutfallið vestan megin í fyrra og ættu bara að verða betri í ár. Þeir eru ekki búnir að missa neinn leikmann en núna eru þeir Wally Szczerbiak og Troy Hudson heilir og ættu að styrkja liðið töluvert. Wally er frábær skorari en missti af meirihluta seinasta tímabils vegna meiðsla. Hann ætti að skila ca. 15 stigum ef hann verður heill. Hudson er einnig góður skorari og verður fínt backup fyrir Sam Cassell.
Þrátt fyrir að vera komnir yfir léttustu árin eru Cassell og Spree’ ennþá toppleikmenn. Þeir munu kannski ekki spila eins mikið og í fyrra en eiga samt eftir að vera góðir. Svo er það KG. Hann var langbestur í fyrra og er orðinn skuggalega góður á nánast öllum sviðum. Svo sýndi hann í úrslitakeppninni að hann stendur álagið undir pressu og ég trúi ekki öðru en að hann verði jafn góður, ef ekki betri en í fyrra.
Með þessa fimm auk þess að hafa Michael Olowokandi, góðan en misjafnan miðherja, og Trenton Hassell, frábæran varnarmann en miðlungs sóknarleikmann, held ég að Minnesota eigi tvímælalaust eftir að vera í toppbaráttunni í vetur.

2. Denver Nuggets:

Komnir:
Kenyon Martin frá New Jersey

Farnir:
Michael Doleac til Miami
Ryan Bowen til Houston
Jon Barry til Atlanta
Chris Andersen til New Orleans
Jeff Trepagnier til Charlotte

Líklegt byrjunarlið:
5. Marcus Camby
4. Kenyon Martin
3. Carmelo Anthony
2. Voshon Lenard
1. Andre Miller

Carmelo Anthony og félagar í Denver komu mest á óvart í fyrra og voru einnig með eitt skemmtilegasta liðið. Þá voru þeir ágætt lið í vesturdeildinni, lentu í 8. sætinu en duttu út í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Í sumar fengu þeir Kenyon Martin til liðs við sig og koma hans kemur liðinu í hóp bestu liða deildarinnar. Núna hefur liðið góðan leikmann í hverja stöðu (má samt deilda um Voshon Lenard) auk þess að hafa þá Earl Boykins og Nene á bekknum.
Ef Marcus Camby nær að halda sér ómeiddum verður liðið mjög sterkt undir körfunni. Hann er frábær frákastari og blokkari, var t.a.m. með 10,1 fráköst og 2,6 varin í fyrra en spilaði samt aðeins 30 mín. að mtl. Martin bætti varnarleik sinn verulega í fyrra og verður traustur undir körfunni í ár. Hann á svo einnig eftir að vera með fínt skor, í kringum 17 stig býst ég við.
Andre Miller hefur verið nokkuð misjafn í gegnum tíðina, skipst á að eiga góð og léleg tímabil. Ég held að hann muni samt verða fínn í vetur. Hann hefur allavega nóg af mönnum til að gefa á, stoðsendingarnar ættu að hækka hjá honum. Margar af þeim eiga eftir að vera á Carmelo. Hann, LeBron, Amaré og Wade eru framtíðin í dag og ég held að þrátt fyrir að Melo var frábær í fyrra eigi hann eftir að verða enn betri í ár og bæði skorið og frákastatala hans eigi eftir að hækka.
Þrátt fyrir að Denver eigi ekki eftir að vera með besta vinningshlutfallið í ár munu þeir eiga gott tímabil og hækka sig um nokkur sæti frá því í fyrra.

3. Utah Jazz

Komnir:
Kris Humphries og Kirk Snyder, nýliðar
Carlos Boozer frá Cleveland
Memeth Okur frá Detroit

Farnir:
Tom Gugliotta til Boston
Mikki Moore til Clippers
Michael Ruffin til Washington
Greg Ostertag til Sacramento
Maurice Williams til Milwaukee
Sasha Pavlovic til Charlotte

Líklegt byrjunarlið:
5. Memeth Okur
4. Carlos Boozer
3. Andrei Kirilenko
2. Gordan Giricek/Matt Harpring
1. Carlos Arroyo

Einhverra hluta vegna líkaði mér aldrei við gamla Utah Jazz, þ.a.e.s. þegar Stockton og Malone voru á toppi ferils síns. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim, þeir tveir eru í hópi bestu leikmanna sögunnar en ég þoldi þá samt ekki. Hins vegar fannst mér mjög gaman að fylgjast með Utah í fyrra með AK47 í aðalhlutverki. Þeir eru einnig með skemmtilegt lið í ár en það er búið að bæta Carlos Boozer og Memeth Okur í þennan skemmtilega hóp. Þeir munu bara bæta liðið og ég held að missirinn af Greg Ostertag sé lítill.
Kirilenko, eða AK47, er leikmaður sem frábært er að hafa í liðinu sínu. Maðurinn gerir allt, skorar, frákastar, ver skot og stelur boltum. Álagið á honum var mikið í fyrra, hann sá nánast um allt þótt hann deildi stigum og fráköstum með Matt Harpring þegar hann var heill. Þetta verður samt ekki eins mikið fyrir hann í ár með Carlos Boozer við hlið sér. Boozer var frábær með Cavs í fyrra og þótt að það hafi verið mikið drama í kringum skipti hans til Utah held ég að hann muni eiga gott tímabil, í kringum 17 stig og 11-12 fráköst.
Þrátt fyrir að Utah hafi haft góða leikmenn í gegnum tíðina er það samt þjálfarinn Jerry Sloan sem er lykillinn af velgengni liðsins. Hann virðist alltaf ná því besta úr leikmönnunum og það er fáránlegt að hann hafi aldrei verið valinn þjálfari ársins.
Utah á örugglega eftir að verða í kringum miðja deild en það er bara út af því að þeir eru á vesturströndinni, þetta lið væri í toppbaráttunni í austrinu.

4. Portland TrailBlazers

Komnir:
Sebastian Telfair, Viktor Khryapa, Sergei Monya og Ha Seung-Jin, nýliðar
Richie Frahm frá Seattle
Joel Przybilla frá Atlanta
Nick Van Exel frá Golden State

Farnir:
Dale Davis til Golden State
Eddie Gill til Indiana
Dan Dickau til Dallas
Desmund Ferguson til Charlotte

Líklegt byrjunarlið:
5. Theo Ratliff
4. Zach Randolph
3. Shareef Abdur-Rahim/Darius Miles
2. Derek Anderson
1. Damon Stoudamire

Það virðist bara vera búið að festa sig við lið Portland að leikmenn þess þurfa að vera í alls konar rugli. Það er engin undartekning hjá þeim í ár, nú strax er hinn efnilegi Qyntel Woods dottin úr liðinu eftir að það komst upp að hann hefði verið að halda hundaat heima hjá sér. Hundaat! Zach Randolph hefur einnig verið í töluverðu basli undanfarið. Hann hefur a.m.k. tvisvar verið tekinn fyrir að hafa marijuana á sér og svo lenti bróðir hans í skotárás milli gengja um daginn, ég man þetta ekki, annað hvort var hann drepinn eða þá að hann drap einhvern. Já, það virðist bara alltaf þurfa að vera einhver vandamál þarna í Portland. Það er einmitt það sem hefur haldið liðinu frá því að vera í baráttunni um meistaratitil því að hópurinn er mjög góður.
Það verður erfitt að skora undir körfunni hjá Portland í vetur. Randolph átti frábært tímabil í fyrra og mun ekki vera síðri í ár ef hann heldur sér frá ruglinu. Svo er það Theo Ratliff, leikmaður sem skorar kannski ekki mikið en bætir það upp í vörninni. Einn besti blokkarinn í deildinni og tekur slatta af fráköstum. Þristurinn er samt sterkasta staðan hjá liðinu. Þar eru þeir Darius Miles og Shareef Abdur-Rahim, báðir verulega öflugir leikmenn.
Bakverðirnir eru fínir, þeir Derek Anderson og Damon Stoudamire. Báðir solid 11-13 stiga leikmenn og svo er Nick Van Exel einnig þarna sem er alltaf góður.
Liðið hefur í raun mannskap sem getur unnið hvaða lið sem er. Hausinn þarf bara að vera í lagi og það hefur ekki verið þannig hjá þeim hingað til. Þess vegna getur maður ekki verið með neinar vonir um góðan árangur. Einnig er vesturdeildin það sterk í ár að þeir eiga litla möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

5. Seattle Supersonics

Komnir:
Robert Swift, David Young og Ibrahim Kutluay, nýliðar
Danny Fortson frá Dallas
Mateen Cleaves frá Cleveland

Farnir:
Richie Frahm til Portland
Brent Barry til San Antonio
Calvin Booth til Dallas
Andre Emmet til Memphis

Líklegt byrjunarlið:
5. Vitaly Potapenko
4. Vladimir Radmanovic
3. Rashard Lewis
2. Ray Allen
1. Antonio Daniels

Seattle Supersonics hefur bara versnað með árunum frá því að þeir voru í úrslitum vesturdeildarinnar með Payton og Kemp í aðalhlutverkum. Núna eru þeir líklegast næstlélegasta liðið í vestudeildinni, á eftir Golden State. Ástæðan fyrir því er að liðið samanstendur af tveimur stjörnum, þeim Ray Allen og Rashard Lewis, einum ágætum leikmanni, Radmanovic, og svo slatta af óspennandi og ekkert sérstökum leikmönnum. Það dugar bara ekki í svona sterkri deild.
Allen og Lewis eru samt frábærir báðir tveir. Þeir eiga báðir eftir að skora eitthvað yfir 20 stig, þurfa það ef liðið ætlar að vinna einhverja leiki. Ég efast ekki um að þeir verði með stigahæstu leikmönnum deildarinnar í ár. Radmanovic átti alltaf að verða frábær leikmaður en hefur ekki enn náð að sýna það. Hann er góður, en mér finnst ólíklegt að hann verði einhvern tíman sá leikmaður sem hann átti að verða.
Restin af liðinu er það slöpp að ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í þá, Sonics á sér erfitt tímabil fyrir höndum.

Atlantshafsriðillinn

1. Sacramento Kings

Komnir:
Kevin Martin, David Bluthental og Ricky Minard, nýliðar
Greg Ostertag frá Utah

Farnir:
Vlade Divac til Lakers
Gerald Wallace til Charlotte
Tony Massenburg til San Antonio
Anthony Peeler til Washington
Rodney Buford til New Jersey

Líklegt byrjunarlið:
5. Brad Miller
4. Chris Webber
3. Peja Stojakovic
2. Doug Christie
1. Mike Bibby

Fyrir seinustu tvö tímabil hef ég alltaf verið viss um að Sacramento muni verða sterkasta liðið. Þeir náðu hins vegar í hvorugt skiptið að standa undir væntingum mínum. Í ár ætla ég hins vegar ekki að spá þeim eins hátt því að auk þess sem þeir eru búnir að missa Vlade Divac virðist ekki vera mikið leikgleði í Oakland Arena þessa dagana. Leikur liðsins versnaði eftir að Webber byrjaði að spila í fyrra og hann er víst ekki sá vinsælasti í Sacramento. Ég held að það væri best, bæði fyrir liðið og svo hann, að honum yrði skipt fyrir annan sterkan kraftframherja.
Það breytir því samt ekki að liðið er með rosalega góðan hóp. Þrátt fyrir fýluna er Webber frábær, það verður ekki tekið af honum, og svo er Brad Miller rosalega fjölhæfur center, skorar, frákastar en gefur líka fullt af stoðsendingum. Hann hefur líklegast lært það hjá Divac. Ég held að ég sé ekki að móðga neinn þegar ég segi að Stojakovic sé besta skytta deildarinnar. Hann átti frábært tímabil í fyrra og þarf að fylgja því eftir. Doug Christie er með betri perimeter varnarmönnum deildarinnar og Mike Bibby, hann er einn af 8 bestu leikstjórnendum deildarinnar að mínu mati.
Eins og þið sjáið er þetta skuggalega gott byrjunarlið og ekki má gleyma Bobby Jackson á bekknum. Þess vegna held ég að þrátt fyrir einhver vandamál muni Sacramento vinna atlantshafsriðilinn.

2. Phoenix Suns

Komnir:
Jackson Vroman og Yuta Tabuse, nýliðar
Steve Nash frá Dallas
Quentin Richardson frá Clippers
Steven Hunter frá Orlando

Farnir:
Antonio McDyess til Detroit
Jahidi White til Charlotte

Líklegt byrjunarlið:
5. Jake Voskhul
4. Amaré Stoudemire
3. Shawn Marion
2. Quentin Richardson/Joe Johnson
1. Steve Nash

Ég hlakka verulega til að sjá Suns spila. Þeir áttu mjög lélegt tímabil í fyrra og unnu aðeins 29 leiki en í sumar fengu þeir þá Steve Nash og Quentin Richardson. Ég held að þeir tveir muni koma með þá breidd sem liðið vantaði í fyrra og að Suns muni vinna að minnsta kosti 50 leiki.
Steve Nash og Q eru báðir frábærir leikmenn. Nash er búinn að vera einn besti leikstjórnandi deildarinnar síðastliðin 4 ár og er með ótrúlegan leikskilning. Hann á eftir að vera leiðtoginn sem Phoenix vantaði í fyrra. Q átti mjög gott tímabil með Clippers í fyrra og á eftir að deila mínútunum með Joe Johnson í vetur, sem gerir Phoenix líklegast að sterkasta liði deildarinnar í skotbakverðinum.
Svo eru það þeir Shawn Marion og Amaré. Þeir eru aðalleikmenn liðsins, báðir frábærir skorarar og frákastarar. Amaré átti mjög gott tímabil í fyrra og hækkaði sig um 7 stig frá nýliðaári sínu. Hann á eftir að hækka sig meira í vetur og á eftir að vera með bestu leikmönnunum í ár í deildinni. Marion er búinn að festa sig í sessi sem einn besti alhliða leikmaður deildarinnar. Hann skorar, frákastar, stelur og blokkar. Frábær leikmaður. Eina vandamálið í Phoenix er miðherjastaðan. Þar er Jake Voskhul en hann yrði seint talinn góður miðherji. Suns hefur samt byrjað tímabilið á því að spila bara með Amaré og Marion inn í teig, Johnson og Q á köntunum og Nash sem dripplara þannig að kannski mun miðherjaleysið ekki há þeim.
Suns eiga líklegast ekki eftir að verða meistarar í ár. Þeir eru samt með mjög gott lið og munu eiga mun betra tímabil en í fyrra.

3. Los Angeles Lakers

Komnir:
Sasha Vujacic, Nate Johnson, Tony Bobbit og Marcus Douthit, nýliðar
Lamar Odom, Brian Grant og Caron Butler frá Miami
Vlade Divac frá Sacramento
Chris Mihm, Jumanie Jones og Chucky Atkins frá Boston

Farnir:
Shaquille O’Neal til Miami
Derek Fisher Golden State
Gary Payton til Boston
Jamal Sampson til Charlotte
Rick Fox, hættur

Líklegt byrjunarlið:
5. Chris Mihm
4. Lamar Odom
3. Caron Butler
2. Kobe Bryant
1. Chucky Atkins

Lakers voru í hræðilegri stöðu í sumar því að þeir þurftu annað hvort að missa þá Shaq og Phil Jackson eða missa Kobe. Þeir völdu Kobe til að leiða liðið, ákvörðun sem þýddi það að liðið myndi veikjast töluvert í ár. Ég ætla ekki að deila um þá ákvörðun því það verður bara að koma í ljós hversu skynsamlegt þetta var.
Þetta þýðir samt það að Kobe mun eiga liðið í ár. Odom er góður, en samt ekki nærri því eins góður og Kobe. Ég er nokkuð viss um að hann verði stigakóngurinn í ár. Odom á samt eftir að vera fínn. Hann er mesti frákastarinn í liðinu og næsti kostur á eftir Kobe í sókninni. Það verða fáir aðrir leikmenn að gera einhverjar rósir í liðinu. Divac er orðinn gamall og meiddur þessa dagana. Hann er samt með frábæran leikskilning og mun örugglega hjálpa yngri leikmönnunum mikið. Chris Mihm og Slava Medvedenko munu einnig bæta tölfræðina sína. Þeir ættu að vera með í kringum 10 stig og 7 fráköst. Aðrir verða með minna.
Já, ég held að þetta verði ekkert rosalega skemmtilegt tímabil fyrir Lakers aðdáendur. Þeir verða örugglega í baráttunni um 8. og síðasta sætið í úrslitakeppninni, ekki ofar en alls ekki mikið neðar.

4. Los Angeles Clippers

Komnir:
Shaun Livingston, Quinton Ross og Lionel Chalmers, nýliðar
Kerry Kittles frá New Jersey
Zeljko Rebraca og Mamadou N’diaye frá Atlanta
Mikki Moore frá Utah

Farnir:
Quentin Richardson til Phoenix
Eddie House, Melvin Ely og Predrag Drobnjak til Charlotte
Keyon Dooling til Miami

Líklegt byrjunarlið:
5. Chris Kaman
4. Elton Brand
3. Corey Maggette
2. Kerry Kittles
1. Marko Jaric og svo kannski Shaun Livingston seinna meir

LA Clippers hafa alltaf verið bestir í að vera lélegir. Í raun hafa þeir aðeins þrisvar sinnum komist í úrslitakeppnina frá því að þeir urðu “Clippers” og þá hafa þeir alltaf dottið út í fyrstu umferð. Það skiptir litlu máli hvaða leikmenn þeir fá, þeir eru bara alltaf lélegir. Það virðist ekki ætla að verða mikil breyting á því í ár, liðið er jafn lélegt og í fyrra.
Clippers á samt tvo mjög góða leikmenn, þá Elton Brand og Corey Maggette. Maggette var góður í fyrra og á eftir að skora rúm 20 stig í leik. Elton Brand er hins vegar einn stöðugasti leikmaður deildarinnar. Maður býst alltaf við 20 stigum og 10 fráköstum frá honum. Þeir munu bera liðið í vetur.
Ég hlakka samt meira til að sjá þá Chris Kaman, Chris Wilcox og nýliðan Shaun Livingston. Kaman átti ágætt nýliðaár í fyrra og ætti að vera með ca. 10 stig og 10 fráköst í ár. Wilcox hefur byrjað þetta tímabil rosalega og er með 20 stig og 7,5 fráköst eftir 4 leiki. Hann var bara með 8,6 og 4,7 í fyrra. Ég er búinn að sjá dálítið með Livingston og hann lofar mjög góðu. Hann er aðeins nýorðinn 19 ára og er mjög líkur Penny Hardaway í leikstíl. Ég veit ekki hvort hann verður jafn góður og Penny hefði orðið ef hann hefði ekki meiðst en ég er samt viss um að Livingston eigi eftir að verða mjög góður á næstu árum.
Þrátt fyrir að það sé mjög gaman að horfa á Clippers spila eru þeir ekki að fara að sýna neina stjörnutakta í vetur. Það verður samt gaman að sjá hvernig nýliðarnir spila. Clippers fær 4. sætið í riðlinum.

5. Golden State Warriors

Komnir:
Luis Flores og Andris Biedrins, nýliðar
Dale Davis frá Portland
Eduardo Najera frá Dallas
Derek Fisher frá Lakers

Farnir:
Brian Cardinal til Memphis
Erick Dampier, Dan Dickau, Avery Johnson og Evan Eschmeyer til Dallas
Nick van Exel til Portland
JR Bremer til Charlotte
Christian Laettner og Popeye Jones, leystir undan samningi

Líklegt byrjunarlið:
5. Adonal Foyle/Dale Davis
4. Troy Murphy
3. Mike Dunleavy jr.
2. Jason Richardson
1. Derek Fisher

Seinasta liðið og einnig lélegasta liðið í vestrinu er Golden State Warriors. Þeir komu reyndar á óvart í fyrra og unnu heila 37 leiki. Ekki mikið, en samt gott miðað við þá. Það er held ég ekki að fara að gerast í ár. Þeir eru búnir að missa Erick Dampier, sem var bestur hjá þeim í fyrra, og Nick Van Exel. Í staðinn eru komnir Derek Fisher og Eduardo Najera.
Jason Richardson er áberandi bestur í þessu liði og verður fyrsti valkostur í sókninni. Eins og sést á troðslunum hans er hann ótrúlegur íþróttamaður og mun þurfa einnig að taka slatta af fráköstum. Troy Murphy og Mike Dunleavy eiga eftir að skora eitthvað í vetur. Þeir eru samt ekkert rosalegir leikmenn, liðið er bara svo slappt. Svo er það Derek Fisher. Hann er aftur orðinn byrjunarliðsmaður eftir að hafa verið varamaður fyrir Payton í fyrra. Hann á samt ekki eftir að vera með meira en 14 stig í leik.
Þetta Golden State lið er því miður bara hrikalega lélegt lið. Ég er eiginlega öruggur á því að þeir verða lélegasta liðið í vestrinu í ár. Því miður.

Jæja, þá er þessari hrikalega stóru umfjöllun minni um NBA deildina lokið og ég vona að einhverjir hafi nennt að lesa þetta. Eins og sést spáði ég aðeins í riðlana, ekki hverjir komast í úrslitakeppnina, en ég hef klúðrað þeim spám mínum frekar illa seinustu tvö ár svo að ég ætla að láta þetta nægja. Svo að lokum vil ég bara biðja ykkur að senda mér línu með hugmyndum um hvernig er hægt að bæta þessa umfjöllun því að ég mun líklegast gefa þetta út sem blað fyrir næsta tímabil, þá meina ég náttúrulega spá fyrir tímabilið 05-06. Góðar stundir.