Mig langar aðeins að fjalla um erlenda leikmenn í Intersportdeildinni (hún heitir það núna, ekki satt?).
Persónulega finnst mér of mikið af þeim hérna. Það er allt í lagi að hafa nokkra góða erlenda leikmenn en það er of mikið að þeir séu 60% af byrjunarliðinu. Þetta er ekki neitt vandamál, allavega ekki ennþá en ef við höfum þrjá útlendinga í hverju liði er lítið pláss fyrir nýja íslenska leikmenn. Það virðist vera staðreynd hjá mörgum liðum, allavega síðasta vetur hjá liðum eins og Tindastóli, KFÍ, Snæfelli og fleiri liðum. Þessi 3 eru úti á landi þar sem erfitt getur verið að manna liðin en þá má allavega stundum gefa ungum leikmönnum meira tækifæri. Við þurfum fleiri góða körfuboltamenn og efniviðurinn er nógur.
Svo kosta þessir leikmenn sitt og smærri lið eiga yfirleitt í fjárhagsvandræðum. Launaþakið er kærkomið og takmörkun útlendinga í 3 er ágæt en 60% af byrjunarliði er of mikið. Reyndar er raunin sú að tvö af bestu liðunum, Keflavík og Njarðvík takmarka sig við tvo útlendinga og gefa gott fordæmi. Fleiri lið ættu að taka þetta upp. Ég vil sjá fleiri unga leikmenn en ég vil samt ekki banna útlendinga. Það er mjög gaman að leikmönnum eins og Brenton Birmingham (Íslendingur reyndar), Darrel Flake, Nick Bradford (sem sneri aftur á dögunum) og Darrel Lewis. Þeir lífga upp á deildina en ættu ekki að bera hana uppi. Þetta er íslensk deild, og þar eiga Íslendingar að ráða ferðinni. Leikmenn eins og Páll Kristins, Friðrik Stefáns, Magnús Gunnars, Pálmi Freyr, Sigurður Þorvalds og fleiri eru aðalmenn í sínum liðum. Þannig mætti það vera á fleiri stöðum.
Það er nú þannig að Intersportdeildin er ekki eins og NBA þar sem allir vilja spila og við verðum að hleypa mörgum að. Við getum það ekki hér. Leikmenn þurfa leikreynslu til að bæta sig og hana ættum við að gefa þeim. Íslendingar eru að verða betri og betri í körfubolta, við skulum ekki stöðva þá þróun. Norðurlandameistararnir okkar slakna heldur betur ef útlendingar taka allar byrjunarstöðurnar.
Takk fyrir mig, mig langaði bara að deila skoðunum mínum með ykkur.