Seinustu mánuðir hafa verið vægast sagt mjög slappir hérna á körfuboltaáhugamálinu. Nánast ekkert efni sem hefur komið hingað og lítil sem engin umræða. Það er samt ekkert rosalega skrýtið enda virðist það orðið að vana að körfuboltaáhugamálið leggst í dvala yfir sumarið. Reyndar höfum við stjórnendurnir höfum nú ekkert verið rosalega virkir svo að ég tek nú einhvern hluta af sökinni á mig. En það skiptir engu máli núna, körfuboltatímabilið er að hefjast núna og þá er bara að vera duglegur og halda uppi skemmtilegri umræðu hérna. Ég starta hér með nýju tímabili á körfuboltaáhugamálinu með því að spá í fyrstu 8 sætin í Intersport-deildinni.
1. Snæfell
Snæfell kom öllum á óvart með því að vinna deildina í fyrra og komast í úrslitaleikinn. Þeir verða að teljast enn sterkari í ár miðað við mannskap. Þeir misstu reyndar Hafþór Inga Gunnarsson til Skallagríms en hafa fengið tvo af bestu leikmönnum Íslands, Pálma Sigurgeirsson frá Breiðablik sem hefur verið einn besti íslenski leikstjórnandinn undafarin ár og Magna Hafsteinsson frá KR. Snæfell vann æfingamót á Akureyri nú á dögunum, unnu Grindavík í úrslitaleik þrátt fyrir að það vantaði Hlyn Bærings og báða kanana í liðið. Magni og Pálmi fóru báðir á kostum í úrslitaleiknum, Magni með 30 stig og Pálmi 28.
2. Keflavík
Keflavík er búið að vera besta lið landsins undanfarin ár og þeir munu pottþétt vera í hópi þeirra í vetur. Ég meina, annað er ekki hægt þegar lið er með Magga Gunn, Jón Norðdal og Gunnar Einars í sama liði. Síðan lofar annar kaninn þeirra, Anthony Glover, mjög góðu. Hinn kaninn, Jimmy Miggins virðist hins vegar vera mjög lélegur miðað frammistöðu hans á Reykjarnesmótinu og ef hann bætir sig ekki trúi ég ekki öðru en að Keflavík losi sig við hann. Keflavík á eftir að vera í toppbaráttunni í vetur og ég spái þeim 2. sæti.
3. Grindavík
Grindavík er búið að breyta liðinu lítið frá því á síðasta tímabili og er þessa stundina annað af þeim tveimur liðum sem hafa bara einn kana. Hins vegar hafa þeir verið að spila mjög vel á undirbúningstímabilinu og unnu t.a.m. Reykjanesmótið nú á dögunum. Að mínu mati er Darryl Lewis besti kaninn á landinu og svo er Grindavík einnig með góða leikmenn á borð við Pál Axel, Helga Jónas og Morten Szmiedowicz í bland við efnilega leikmenn eins og Jóhann Ólafsson og Þorleif Ólafsson. Þeir hafa verið við toppinn seinustu ár og munu halda því áfram í ár.
4. Njarðvík
Njarðvík virðist ætla að vera með stórskemmtilegt lið í vetur. Þeir eru með marga unga og efnilega stráka og ber þá helst að nefna risann Egil Jónasson og Ólaf Aron Ingvason, tveir stórskemmtilegir leikmenn. Síðan eru þeir með landsliðsmiðherjann Friðrik Stefánsson, Pál Kristinsson, Brenton Birmingham og frábæran kana sem heitir Troy Wiley. Þetta er náttúrulega rosalegur leikmannahópur og gæti vel endað hvar sem er í deildinni. Njarðvík fær 4. sætið hjá mér.
5. Haukar
Haukar er liðið sem ég þekki best og ég spái þeim 5. sæti þótt þeir geti endað ofar ef allt smellur saman hjá þeim. Þeir eru nefnilega komnir með hörku leikmannahóp, Mirko hinn íslenski styrkir náttúrulega liðið rosalega. Svo hefur kaninn þeirra, Trey Waller bætt sig með hverjum degi og á eftir að vera góður í vetur. Haukar eru líka með rosalega efnilegan hóp. Sævar er náttúrulega einn efnilegasti leikmaður landsins og á eftir að vera rosalegur í vetur. Svo er Kristinn Jónasson líka búinn að bæta sig mjög en hann og Sævar sem eru báðir ’84 módel eiga eftir að vera fastir byrjunarliðsmenn í vetur. Haukarnir hafa svo einnig marga fleiri efnilega sem eiga eftir að skila inn einhverju í vetur.
6. ÍR
Ég held að Reykjavíkurliðin þrjú eigi eftir að berjast um 6-8. sætið. Ég set ÍR í 6. sætið því að þeir unnu Reykjavíkurmótið en samt er varla hægt að taka mark á því, allir leikirnir á milli þessa liða voru mjög jafnir og ÍR mótið á hagstæðari stigatölu. En ÍR er með fínan hóp í vetur. Þeir hafa góða Íslendinga eins og Eirík Önundarson, Ómar Örn Sævarsson o.fl. Ég veit ekkert um kanana þeirra og ég hugsa að það fari eftir hversu góðir þeir eru hvar ÍR lendir í deildinni.
7. KR
Eins og með ÍR þori ég ekki að fullyrða neitt um KR. Þeir eru jú með sterkara lið á pappírnum en ÍR, en töpuðu samt fyrir þeim á RVK mótinu. Þeir eru búnir að fá Lárus Jónsson frá Hamari og það mun styrkja liðið talsvert og svo eru þeir með marga fína Íslendinga. Ég veit heldur ekkert um kanana hjá KR og þess vegna er staðan lík með KR og ÍR, þeir verða þarna um 6-8. sætið.
8. Fjölnir
Ef að Fjölnisliðið væri ekki svona rosalega ungt og óreynt lið myndi ég pottþétt setja þá ofar. Þeir eru með rosalega efnilegt lið og ef þeir halda þessum mannskap eiga þeir eftir að vera í toppbaráttunni á næstu árum. Síðan eru þeir með einn besta kanann á Íslandi, Darrell Flake, en hann hefur verið að fara á kostum hjá þeim á RVK mótinu. Ég er ekki viss á því en ég hef heyrt að Jeb Ivey sem spilaði með KFÍ í fyrra muni spila líka með Fjölni og það myndi líka bæta liðið talsvert. Svo er Fjölnir auðvitað með einn besta þjálfara landsins. Ég set Fjölni í 8. sætið en vona að þeir endi ofar.
Hin fjögur liðin eru Skallagrímur, Tindastóll, Hamar/Selfoss og KFÍ. Ég held að ekkert af þeim sé nógu sterkt til að ná sæti í úrlistakeppninni. Skallagrímur gæti samt strítt einhverjum liðum, komnir með Clifton Cook frá Tindastóli.
Þann 7. október hefst deildin með 5 leikjum. Fjölnir taka á móti Haukum, Skallagrímur - ÍR, Hamar/Selfoss - KR, Njarðvík - KFÍ og Tindastóll - Keflavík. Daginn eftir er svo stórleikur umferðarinnar, deildarmeistarar Snæfells fara í heimsókn til Grindavíkur.