Loksins, loksins er nýliðavalið búið. Ég er búinn að hlakka til þess seinustu mánuði og hef fylgst mjög náið með hverjum og einum sem hafa hæfileika til að ná langt í NBA deildinni á næstu árum. Ég veit ekki af hverju ég er búinn að detta svona inn í þessa umræðu, en ég veit að margir þarna geta náð langt, jafnvel orðið næsti Garnett, Iverson eða Kidd. Ég ætla að skrifa aðeins um nokkra leikmenn, þá 10 fyrstu sem voru valdnir og svo nokkra aðra sem ég held að geti gert e-n skandal á næstu árum.
1. Orlando Magic - Dwight Howard
Já, Orlando endaði á því að velja Howard. Ég veit að það virtist líklegra að þeir myndu taka Okafor en ég var samt nokkuð viss um að þeir myndu frekar velja Howard. Það var greinilegt að John Weisbrod langaði meira í Howard, annars hefði hann strax gefið út að þeir ætluðu að taka Okafor, eins og Cavs gerðu í fyrra með LeBron, til að láta önnur lið vita að Okafor er þeirra. Og eftir að Tracy sagðist vilja fara var engin ástæða fyrir þá að skella sér ekki á Howard, þið munið að Tracy vildi fá leikmann sem þyrfti ekki að byggja upp fyrstu árin (a.k.a. Howard).
En að möguleikum Howard hjá Magic. Það er alveg víst að Howard á ekki eftir að verða stjarna strax. Orlando munu þurfa að vera þolinmóðir a.m.k. fyrsta árið ef þeir ætla að ná þeirri stórstjörnu sem hann á að verða. En það er líka öruggt að hæfileikinn er þarna. Honum hefur verið líkt við Kevin Garnett í miðskóla og ég er viss um að ef hann er rétt þjálfaður þá getur hann jafnvel orðið næsti KG.
Samanburður: Í besta falli Kevin Garnett/ Í versta falli Kwame Brown.
2. Charlotte Bobcats - Emeka Okafor
Í dag er Emeka Okafor líklegast besti leikmaðurinn af þeim sem voru valdnir. Hann var að ljúka frábærum háskólaferli þar sem hann vann meistaratitilinn, var besti varnarmaðurinn og besti leikmaðurinn á seinasta ári sínu. Og það er ekki hægt að segja annað en að NBA ferill hans byrji vel. Valinn til fullkomins liðs til að byrja ferilinn. Það er greinilegt að hann á að vera stjarnan á fyrsta ári Bobcats manna. Þrátt fyrir að Bobcats mun ekki vinna neina titla á sínu fyrsta ári er þetta kjörið tækifæri fyrir Okafor til að sýna sig og sanna. Miðað við stöðuna í dag er hann langlíklegasti kandídatinn sem nýliði ársins.
Okafor er maður sem öll lið vilja hafa í liðinu sínu. Ég hef séð tvo leiki með honum í háskóla og þar sá ég hversu ótrúlegur leikmaður hann er. Hann stjórnaði vörninni hjá UConn, tók flest fráköstin og varði fullt af skotum og í sókninni réð enginn við hann þegar hann fékk boltann á low-post. Ég hugsa að þetta sé besti varnarmaðurinn sem kemur í deildina síðan Ben Wallace og Elton Brand komu. Hann mun kannski ekki skora 25-30 stig í leik en er samt hætta í sókninni og mun örugglega skora á milli 15-20 stig í ár. Sem sagt frábær alhliða leikmaður.
Samanburður: Í besta falli Alonzo Mourning/ Í versta falli… Alonzo Mourning seinustu árin.
3. Chicago Bulls - Ben Gordon
Ben Gordon er frábær leikmaður sem var stór partur af sigri UConn í ár, en ég er samt ekki viss um að hann hafi verið sá þriðji besti í nýliðavalinu og alls ekki besti kosturinn fyrir Bulls. Bulls eru með tvo góða leikstjórnendur fyrir, þá Kirk Hinrich og Jamal Crawford (sem er reyndar betri í SG). Síðan er auðvitað mótorhjólakappinn Jay Williams þarna líka en ég veit bara ekkert um ástandið á honum í dag. Hinrich mun líklegast halda byrjunarliðssætinu og ég er bara ekki að sjá hvaða hlutverk Gordon á að sjá um í Bulls.
Hann er samt mjög góður leikmaður. Hann er frábær skorari, sér völlinn vel og mun sjá vel um leikstjórnendahlutverkið…ef hann fær tækifæri.
Samanburður: Í besta falli Baron Davis/ Í versta falli Tyronn Lue
4. LA Clippers - Shaun Livingston
Frábært val hjá Clippers, Shaun Livingston hefur hæfileika til að verða einn besti PG í deildinni á næstu árum. Livingston er mjög stór af leikstjórnanda að vera, 6'7'' en er samt frábær dripplari og skotmaður. Með þessa hæð sér hann völlinn mjög vel og hefur oft verið líkt við Anfernee Hardaway. Hann getur líka orðið næsti Penny. En hann er ungur. Livingston kemur beint úr miðskóla og þrátt fyrir að ferill hans þar hafi verið glæsilegur er NBA deildin allt annar handleggur og hann mun örugglega þurfa einvern tíma til að venjast henni. En það breytir samt því ekki að hann hefur mikla hæfileika og þrátt fyrir að hann byrji kannski hægt er ég viss um að hann eigi eftir að verða rosalegur í framtíðinni.
Samanburður: Í besta falli Penny Hardaway hjá Orlando/ í versta falli Antonio Daniels.
5. Dallas Mavericks (frá Wizards) - Devin Harris
Í skiptunum um daginn á milli Wizards og Mavs, Antawn Jamison fyrir Jerry Stackhouse o.fl. fengu Dallas 5. valréttinn. Þeir notuðu hann til að fá Devin Harris sem ég held að hafi bara verið nokkuð sniðugt hjá þeim. Devin Harris á ekki eftir að verða leikmaður sem skorar 25 stig í leik og gefur 10 stoðsendingar en hann er solid PG og mun örugglega standa sig í ár. Ef Steve Nash fer frá Dallas eins og talað er um er ég viss um að hann eigi eftir að standa sig í byrjunarliðinu og eigi eftir að vera kandídati sem nýliði ársins.
Harris er góður á flestum sviðum. Hann er góður skorari, varnarmaður og frákastari auk þess sem hann stelur mikið af boltum. Stærsta vandamál hans eru stoðsendingarnar en þær fjölguðu mikið á seinasta ári hjá honum svo að það ætti að lagast. Bara verst að hann minnkar möguleika Jóns Arnórs á sæti í liðinu.
Samanburður: Í besta falli Sam Cassell/ Í versta falli Kevin Ollie.
6. Atlanta Hawks - Josh Childress
Uppáhalds leikmaðurinn minn í nýliðavalinu. Af hverju? Nú, auk þess að vera með magnaða hárgreiðslu þá er hann alveg rosalega skemmtilegur leikmaður. Ótrúlegur íþróttamaður og notar þá hæfileika bæði í vörn og sókn. Hann stelur og ver mikið af boltum enda ná hendurnar hans niður á hné, 6'7'' á hæð en faðmurinn 6'11''. Hann tekur líka mikið af fráköstum miðað við hæð og í sókninni, þá getur maður hvenær sem er búist við brjáluðum troðslum þegar hann fær boltann. Atlanta hentar honum vel þar sem SF staðan er laus sem stendur, samkeppnin við Boris Diaw um stöðuna ætti ekki að verða mikil svo að við fáum vonandi að sjá e'ð til hans í vetur.
Hann þarf samt bæði að bæta kílóum á sig og að bæta hittnina í sumar ef hann ætlar að komast langt í NBA.
Samanburður: Í besta falli/Í versta falli… veit ekki, á samt örugglega eftir að verða líkur Tayshaun Prince.
7. Chicago Bulls (frá Phoenix Suns) - Luol Deng
Skrítið með val Bulls á leikmönnum í ár. Mér hefði fundist líklegra að Deng yrði valinn þriðji og Gordon sjöundi en ekki öfugt. Deng er a.m.k. betri leikmaður en Gordon.
Luol Deng er einn af þessum leikmönnum sem gera aðra í kringum sig betri. Hann var leiðtoginn í góðu Duke liði í vetur og kom þeim í final four. Honum hefur oft verið líkt við Grant Hill og er sá samanburður ekkert út í hött. Rétt eins og Hill er hann mjög vinsæll, með mikinn leikskilning og getur spilað hvaða stöðu sem er á vellinum. Á pottþétt eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni. Hann á líklegast eftir að komast í byrjunarliðið hjá Bulls og getur þess vegna jafnvel blómstrað strax í ár.
Samanburður: Í besta falli Grant Hill (fyrir meiðslin)/Í versta falli Clarence Weatherspoon
8. Toronto Raptors - Rafael Araujo
Raptors komu öllum á óvart með því að velja stóran og ruddalegan center, Rafel Araujo. Reyndar vantaði þeim einhvern þannig í fyrra enda er Chris Bosh alls ekki alvöru center, aðeins 95 kíló. Rafel mun bæta það vandamál en spurningin er bara, er hann nógu góður? Þessi brassi er 6'11'' og 290 pund er lélegur sendingamaður, með verri boltameðferð og því miður ennþá lélegri varnarmaður þrátt fyrir þyngdina. Þess vegna er spurning hvort hann sé nógu góður til að spila á þessu leveli.
Samanburður:Í besta falli Bill Laimbeer/ Í versta falli Yinka Dare (eitt mesta flopp nýliðavalsins)
9. Philadelphia 76ers - Andre ‘Iggy’ Iguodala
Gott, gott, gott val hjá Sixers. Iggy, eins og hann er kallaður getur orðið mjög góður leikmaður, maður sem ég hef mikla trú á. Góður skorari og verður líklegast annar valkostur í sókn Sixers. Hann er snöggur eins og vindurinn, einn besti varnarmaðurinn í háskólaboltanum í vetur og síðast en ekki síst magnaður troðari. Síðan hefur hann víst alveg ótrúlegan metnað og hefur sýnt framfarir með hverjum degi sem líður í sumar. Hann er í dag betri inn í teig en fyrir utan, en er víst að æfa hittnina á fullu þessa dagana. Ég held að hann eigi eftir að reynast Sixers mjög vel og gæti jafnvel orðið sá leikmaður sem kemur mest á óvart í vetur, valinn aðeins 9.
Samanburður: Í besta falli Scottie Pippen/ Í versta falli Darius Miles.
10. Cleveland Cavaliers - Luke Jackson
Frábær skytta en lítið annað. Luke Jackson er ein besta þristaskyttan í boltanum en boltameðferðar-, frákasta- og varnarhæfileikar hans eru af skornum skammti. Hann berst þó eins og ljón og það hefur komið honum langt. Samt held ég að Jackson muni ekki ráða við deildina og verði aldrei meira en miðlungs leikmaður.
Samanburður: Í besta falli Brent Barry/ Í versta falli Mike Dunleavy á fyrsta ári sínu.
Nú er ég búinn að fara í gegnum 10 efstu leikmennina en svo eru tveir aðrir sem mér langar að fjalla um, þeir Jameer Nelson og risinn Pavel Podkolzine.
20. Orlando (frá Denver Nuggets) - Jameer Nelson
Það dugði Orlando ekki að fá bara fyrsta valrétt. Nei, þeir fengu einnig mögulega stærsta þjófnað valsins. Heimasíður um nýliðavalið höfðu spáð því að Nelson yrði valinn í kringum 10. valrétt en enginn var búinn að velja hann þegar Orlando átti 20. valrétt svo að þeir skelltu sér bara á hann, enda vantar þeim sárlega góðan leikstjórnanda. Nelson ætti að fylla vel út í það hlutverk og ef Orlando fær ekki Steve Francis fyrir T-Mac verður hann örugglega byrjunarleikstjórnandi í liðinu á næsta tímabili.
Nelson er lítill en góður með boltann, sér mjög vel opin færi og er líka góður skorari. Leikmaður sem er gott að hafa með sér í liði. Hann á án efa eftir að reynast Orlando vel.
Samanburður: Í besta falli Kenny Anderson (þá er ég að tala um
GÓÐA Kenny Anderson, þegar hann var hjá Nets og var fljótastur í deildinni/ Í versta falli Tony Delk eða önnur varaskeifa
21. Pavel Podkolzine - Dallas Mavericks (frá Utah)
Það virðist sem enginn hafi þorað að taka Pavel þangað til að Dallas valdi hann. Þessi ‘unglingur’ er 7'5'' og 303 pund og minnir mann kannski á Georghe Mureshan en hefur það fram yfir Gheorghe að hann er í réttum hlutföllum (hæð miðað við þyngd) og getur víst alveg bætt á sig 30-40 pundum af vöðvum.
En auðvitað er það algjörlega óljóst hvort hann muni virka í NBA og þarf bara að koma í ljós hvort hann ráði við pressuna sem á hann er lögð. Það kemur í ljós…
Samanburður: Í besta falli Rik Smits eða Yao Ming/ Í versta falli Georghe Mureshan.