Norðurlandameistarar Núna þegar NBA úrslitin standa sem hæst hafa örugglega einhverjir tekið eftir því að við Íslendingar vorum að ná einum besta árangri yngri flokkanna frá upphafi! Jú, ég er að tala um þrefaldan sigur okkar á norðurlandamótinu, þrjú af fjórum landsliðum Íslendinga unnu mótið. Það er ekki síst góður árangur í ljósi þess að við höfðum aðeins unnið einn titil á þessu móti frá upphafi svo að það er glæsilegt að ná að vinna þrjá á einum og sama deginum.

U-16 KARLA

U-16 drengjaliðið byrjaði að spila á móti Svíum. Svíarnir byrjuðu betur og komust í 9-2 en þá vaknaði íslenska landsliðið og setti 15 stig á móti engu næstu mínútunar. Svíarnir náðu að bæta við 2 stgum og staðan eftir 1. leikhluta var 17-11. Eftir það var sigurinn alltaf öruggur. Íslensku strákarnir voru 18 stigum yfir í hálfleik og unnu á endanum 77-59. Hjörtur (Njarðvík) var stigahæstur með 20 stig en á næstir voru Emil (Fjölnir) og Hörður (Fjölnir) með 17 stig og Brynjar (KR) með 16.
Næst var það Danmörk. Íslendingarnir voru allan tímann betra liðið en Danmörk náði samt alltaf að halda í við Íslendinga. Leikurinn endaði með 9 stiga sigri Íslendinga, 75-66. Bestir hjá Íslendingum voru Hörður og Emil, báðir með 16 stig og Brynjar og Hjörtur með 13.
Þriðji leikurinn var svo á móti Finnum. Það var erfiðasti leikurinn hingað til, Finnar byrjuðu betur og leiddu í 1. fjórðung. Í 2. náðu íslensku strákarnir yfirhöndinni og þeir leiddu leikinn það sem eftir var, 4 stiga sigur 68-64. Besti leikmaður íslenska liðsins var Brynjar með 20 stig. Næstir voru þeir Hjörtur með 16 stig og Þröstur (keflavík) með 8 stig.
Fyrsta tapið kom á móti Norðmönnum. Íslendingarnir voru betri framan af leiknum og leiddu í hálfleik 43-40. Í seinni hálfleik komust Norðmenn fram úr og unnu 10 stiga sigur, 83-73. Bestur hjá Íslendingum var Hjörtur með 16 stig. Næstir voru þeir Brynjar og Hörður með 11.
Þá var komið að úrslitaleiknum sem var á móti Svíum. Íslendingar fóru illa með þá í riðlakeppninni og voru sigurstranglegra liðið. Leikurinn var samt jafn framan af. En í 2. leikhluta náði Ísland góðu forskoti og eftir það voru þeir allan tíman betra liðið. Leikurinn endaði með stórsigri Íslendinga 86-55. Hörður var valinn maður leiksins, skoraði 19 stig og tók 5 fráköst. Brynjar skoraði 22 stig, Hjörtur 18 og Þröstur 8.
ÍSLENDINGAR NORÐURLANDAMEISTARAR DRENGJA ÁRIÐ 2004!

U-16 KVENNA

Fyrsti leikurinn hjá stúlknalandsliðinu var á móti Svíum. Stelpurnar voru betri í fyrri hálfleik og leiddu 40-35 en í seinni hálfleik sigu Svíarnir fram úr og unnu 10 stiga sigur, 84-74. Helena Sverrisdóttir var stigahæst með 27 stig og næst kom María Ben Erlingsdóttir með 11 stig.
Næst voru það Danir og endaði sá leikur með stórsigri. Stelpurnar rústuðu Dönunum 91-45. Allar stelpurnar skoruðu í leiknum en Helena var aftur stigahæst með 29 stig. Næstar voru þær Ingibjörg Vilbergsdóttir og María Ben Erlingsdóttir með 9 stig og Bára Bragadóttir og Ingibjörg Skúladóttir með 8 stig.
Næstar í röðinni voru Finnar og var það mjög skemmtilegur leikur. Íslendingar voru samt alltaf með forystuna en Finnar náðu að minnka muninn aðeins í lok leiksins, lokatölur 92-81. Helena Sverrisdóttir fór á kostum í leiknum. Hún skoraði 46 stig, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. María Ben átti einnig mjög góðan leik, var með 23 stig.
Úrslitaleikurinn var á móti Svíum og var hann hörkuspennandi. Leikurinn var hnífjafn allan tíman en Íslendingar náðu að vinna þetta í lokin 77-76. Helena átti enn og aftur stórlei, núna skoraði hún 43 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hún var svo valin besti leikmaður úrslitaleis í lok leiksins. María Ben kom næst með 12 stig og Bára Bragadóttir var með 9 stig.
ÍSLENDINGAR NORÐURLANDAMEISTARAR STÚLKNA ÁRIÐ 2004!

U-18 KARLA

Þá er komið að unglingalandsliðinu. Þeir byrjuðu mótið á tapi gegn Svíum. Svíarnir áttu mjög góðan leik og og náðu mest 20 stiga forystu en Íslendingarnir náðu að halda þeim niðri í seinni hálfleik og leikurinn endaði með 10 stiga tapi, 83-73. Jóhann Ólafsson var bestur Íslendinga með 24 stig, Magnús Pálsson kom næstur með 16 og Kristján Sigurðsson var með 11 stig.
Næst voru það frændur okkar Danir. Íslensku strákarnir áttu mjög góðan leik gegn sterku liði Dana og unnu 8 stiga sigur, 74-66. Jóhann Ólafsson var aftur stigahæstur með 24 stig, Pavel Ermolinskij var með 13 stig og Kristján Sigurðsson og Magnús Pálsson voru báðir með 9 stig.
Þrátt fyrir að vinna Finna með aðeins 7 stigum var Íslenska landsliðið mun betra í leiknum. Allir leikmenn liðsins skoruðu og lokatölur voru 87-80. Jóhann og Pavel skoruðu báðir 16 stig, Kristján var með 15 stig, Magnús 11 og Brynjar Kristófersson og Tryggvi Pálsson voru báðir með 8 stig.
Úrslitaleikurinn var á móti Svíum. Íslendingar voru staðráðnir í að hefna tapsins í fyrsta leiknum og komu mjög grimmir til leiks. Svíarnir réðu ekkert við góða vörn Íslendinga og jafnframt frábæran sóknarleik. Íslendingar unnu leikinn 97-91. Njarðvíkingarnir Kristján og Jóhann áttu báðir stórleik. Kristján skoraði 34 stig og setti þar af 9 þrista. Jóhann var einnig frábær með 31 stig og svo náði Pavel þrefaldri tvennu með 17 stig, 13 fráköst og 13 stoðsendingar. Í lok leiksins var svo Kristján valinn maður leiksins.
ÍSLENDINGAR NORÐURLANDAMEISTARAR UNGLINGA ÁRIÐ 2004!

Þetta verður að teljast alveg frábær árangur hjá liðunum og sýnir að framtíð okkar Íslendinga í körfubolta er björt. Við erum orðin sterkasta og efnilegasta norðurlandaþjóðin í körfubolta yngri flokka og það er ekki bara þessi árangur sem sannar það. Til dæmis varð Njarðvík Scania Cup meistari fyrir stuttu annað árið í röð en Scania Cup er eiginlega óformlegt Norðurlandamót félagsliða. Svona árangur gerir mann spenntan fyrir framtíðinni og segir manni að þrátt fyrir að körfuboltaumræða sé ekki mikil hér á landi er árangurinn vissulega góður.


<a href="http://blog.central.is/thegame">KristjánS</a