Núna er deildin búin og keppnin að byrja fyrir alvöru. Fjórir fyrstu leikir úrslitakeppninnar verða leiknir í kvöld, Houston og Lakers mætast, Memphis og San Antonio, New York og New Jersey og svo Indiana og Celtics en hann verður sýndur á Sýn í kvöld. Hinar viðureignirnar eru svo Dallas og Sacramento, Milwaukee-Pistons (sýndur á Sýn á morgun), Minnesota-Denver og Miami-New Orleans.
Ég ætla aðeins að spá í spilin.
Minnesota Timberwolves (1) - Denver Nuggets (8)
Þrátt fyrir að þessi lið séu með besta og lélegasta árangurinn í vestrinu held ég að þetta verði skemmtilegt einvígi. Minnesota er náttúrurlega búið að vera frábært í vetur en þeir hafa aldrei náð að sýna sitt rétta andlit í úrslitakeppninni. Núna er að duga eða drepast, KG verður að þagga niður í þeim sem segja að hann muni aldrei geta leitt liðið í úrslitakeppninni.
Denver hefur verið skemmtilegt í vetur og má segja að það sé spútniklið ársins. Þeir byrjuðu mjög vel, döluðu svo um mitt tímabilið en hafa verið mjög sterkir í síðustu leikjum og náðu 8. sætinu. Ef að þeir ætla að ná að vinna einvígið verður samt allt að vera rétt stillt hjá þeim. Carmelo má ekki klikka, Marcus Camby verður að spila eins og hann hefur gert í undanförnum leikjum og Andre Miller verður að ráða við Cassell.
Ég held samt að Minnesota muni taka þetta. Þeir hafa spilað mjög vel í seinustu leikjum, unnu 8 eða 9 síðustu leiki sína. Þeir eiga að minnsta kosti að vinna heimaleiki sína.
Minnesota 4 - 2 Denver
Los Angeles Lakers (2) - Houston Rockets (7)
Vá!!! Þetta verður frábær skemmtun, einvígið sem maður óskaði sér. Auðvitað er ég að tala um Shaq-Yao, einu alvöru centerana í dag í deildinni (Ben Wallace er mun betri PF og Jamaal Maglorie á ekki séns í þá tvo). Shaq rústaði Yao seinast og Yao hlakkar örugglega til að fá tækifæri til að hefna sín.
Samt held ég að þeir verði ekki aðal stjörnur þessarar viðureignar. Þeir munu örugglega spila eins fasta vörn og þeir geta á hvorn annann og þá munu Kobe og Steve Francis þurfa að stíga upp og leiða lið sín. Þar er Kobe betri kosturinn. Hann er leikmaður sem stígur alltaf upp á réttum tíma og er örugglega bestur í að klára leiki síðan Jordan var upp á sitt besta.
En þetta mun samt verða frábært einvígi og það myndi ekki koma mér á óvart ef þetta endaði í framlengdum oddaleik.
Lakers 4 - 3 Houston
San Antonio Spurs (3) - Memphis Grizzlies (6)
Grizzlies hafa einnig komið mjög á óvart í vetur og hefur frábær þjálfun og 10 manna spil þjálfarans Hubie Brown verið stór þáttur í góðu gengi þeirra. Spurs eru samt einnig vel þjálfaðir af Gregg Popovich og þeir hafa einnig Tim Duncan, hann mun verða stór þáttur í þessu einvígi.
Því miður, eins og lið Memphis er skemmtilegt, finnst mér ólíklegt að þeir nái að ráða við Duncan og félaga. Pau Gasol er frábær leikmaður en hann þarf að vera stórkostlegur til að eiga séns í Duncan. Og ef hann heldur honum niðri eru Tony Parker og Manu Ginobili tilbúnir að taka við leiknum.
San Antonio 4 - 1 Memphis
Sacramento Kings (4) - Dallas Mavericks (5)
Enn ein frábær viðureignin! Sacramento og Dallas eru þau lið sem skora mest í deildinni og einvígi þeirra í vetur hafa verið stórskemmtileg. Þetta verður líklegast sókn á móti sókn, bæði liðin eru frekar veik varnarlega og það kæmi mér ekki á óvart ef það lið sem spilaði betri vörn myndi vinna einvígið.
Dallas mun leita til Nash og Nowitzki. Þeir tveir hafa verið traustustu leikmennirnir í vetur þegar litið er yfir leiktímabilið en núna þurfa þeir að standa upp og spila frábæran bolta ef Dallas ætlar að eiga séns. Síðan munu Antawn Jamison og Marquis Daniels örugglega koma sterkir af bekknum en Daniels hefur sýnt í seinustu leikjum hvers hann er megnugur.
Hjá Sacramento þarf Chris Webber að sýna sitt rétta andlit. Hann hefur ekki fallið vel inn í liðsbolta Sacramento eftir að hann kom aftur og er ekki vinsælasti leikmaður þeirra um þessar stundir. Mike Bibby, Peja, Brad Miller og Vlade Divac geta náttúrulega gert hlutina en ef Sacramento ætlar að ná langt þurfa þeir Webber með.
Sacramento 4 - 3 Dallas
Indiana Pacers (1) - Boston Celtics
Þetta er líklegast mest óspennandi einvígið í ár. Pacers rústaði austrinu með 7 fleiri sigrum en liðið með næstbesta árangurinn en Celtics rétt skreið inn í úrslitakeppnina. Paul Pierce hefur verið eina sóknarvopn Celtics í vetur og það mun ekki duga á móti hinu sterka liði Indiana. Jermaine O\'Neal og Ron Artest hafa báðir aldrei spilað betur og þeir eiga að fara létt með slappt lið Celtics.
Indiana 4 - 0 Boston
New Jersey Nets (2) - New York Knicks (7)
Þetta munu einnig verða skemmtilegir leikir. New York einvígið þar sem tveir bestu leikstjórnendur deildarinnar mætast. Jason Kidd á móti Stephon Marbury. Hraði og tækni hjá Marbury á móti vision (man ekki íslenka orðið yfir það) hjá Kidd, en báðir gefa þeir frábærar sendingar.
Bæði Kenyon Martin og Jason Kidd eru að koma úr meiðslum og eru ekki fullkomlega heilir. Þeir mega ekki meiðast ef Nets ætlar að vinna þetta. Richard Jefferson sýnt það í seinustu leikjum að hann getur leitt Nets en hann mun ekki duga einn.
Isiah Thomas er búinn að ná mjög góðu Knicks liði með sniðugum leikmannaskiptum og Knicks geta alveg unnið Nets í dag. Starbury er frábær og hefur leitt liðið í vetur, Allan Houston er alltaf góður og Tim Thomas hefur bætt sig gríðarlega. Síðan er náttúrulega Madison Square Garden sterkur heimavöllur og erfitt að koma og spila þar. Ég hef einhverja trú á Knicks og vill þá áfram.
New Jersey 3 - 4 New York
Detroit Pistons (3) - Milwaukee Bucks (6)
Merkilegt einvígi. Detroit er varnarlið og treystir á að taka liðin á varnarleik en bestu leikmenn Bucks, Michael Redd og Keith Van Horn eru báðir aðallega sóknarleikmenn.
Detroit þarf að spila þá vörn sem þeir hafa gert í vetur til að vinna einvígið. Ben og Rasheed Wallace þurfa að stoppa Bucks undir körfunni en Chauncey Billups og Rip Hamilton munu sjá aðallega um sóknina. Pistons áttu gott tímabil, með næstbesta árangurinn í austrinu og þeir verða að teljast líklegri áfram. Þeir munu samt þurfa að stoppa skyttur Bucks til þess að vinna þetta.
Bucks þurfa að koma Pistons á óvart til að eiga möguleika. Þeir hafa Michael Redd. Hann er búinn að vera frábær í vetur og er með eitrað skot fyrir utan. En ef þeir ætla að vinna þetta þurfa Keith van Horn og Desmond Mason einnig að spila vel. Van Horn er ótrúlegur leikmaður, stundum tekur hann leiki í sínar hendur og skorar úr ótrúlegustu skotum en stundum hittir hann ekki neitt. Hann þarf að hitta þannig í þessum leikjum. Desmond Mason þyrfti líka að taka nokkrar rispur af og til.
En eins og ég segi er Detroit mun líklegra og þeir ættu að fara nokkuð létt í gegn.
Detroit 4 - 1 Milwaukee
Miami Heat (4) - New Orleans Hornets (5)
Seinasta viðureignin er á milli Miami og New Orleans. Leiðir þeirra hafa verið nokkuð ólíkar í vetur. Miami byrjaði hörmulega og var aðeins búið að vinna 5 leiki af fyrstu 20. Síðan snerist allt við og þeir eru búnir að vera mjög sterkir á seinni helming leiktímabilsins. New Orleans byrjaði hins vegar mjög sterkt þar sem Baron Davis átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. En töpin fjölguðu með leikjunum og þeir enduðu í 5. sæti.
Ég held að Miami fari létt út úr þessu. Þeir eru með mikla breidd og góðan hóp. Lamar Odom fer fremstur í flokki og svo eru þarna Eddie Jones sem er alltaf traustur, Dwyane Wade, þriðji besti nýliðinn í ár og svo Rafer \“skip to my lou\” Alston sem hefur komið sterkur af bekknum í ár. Með þá heita á Miami að vinna þetta.
New Orleans myndi venjulega alveg eiga góðan möguleika í Miami en ekki núna. Það er vegna þess að hinn stórgóði Jamal Mashburn er meiddur og mun ekki spila í úrslitakeppninni. Það setur alla pressuna á þá Baron Davis og Jamaal Maglorie. Þeir eru góðir en því miður finnst mér ólíklegt að þeir ráði við sterka liðsheild Miami. Baron Davis þarf spila frábærlega og Maglorie þarf að nýta sér aðal veikleika Miami sem er hæðin.
Miami 4 - 1 New Orleans
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Síðan í lokin ætla ég að minna fólk á leikina sem Sýn sýnir. Þeir sýna tvo leiki um helgina, í kvöld er Indiana-Boston kl 21.55 og svo Detroit-Milwaukee á morgun kl 17.00.