Þrátt fyrir að það sé nánast engin umfjöllun um bandaríska háskólaboltann hér á landi er hann alveg ótrúlega stórt númer þar á bæ. Hjá stóru liðunum eru fullar hallir á hverjum leik og ótrúleg stemning. Núna er komið að stærsta viðburði ársins í háskólaboltanaum en 3. apríl eru leiknir undanúrslitaleikirnir eða Final Four eins og þeir eru kallaðir.
Liðin sem leika í ár eru annars vegar Georgia Tech og Oklahoma state og hins vegar Duke og Connecticut.
Duke - Connecticut á eftir að verða frábær viðureign. Þetta eru án efa sterkustu liðin í háskólaboltanum í dag, nema kannski fyrir utan Stanford, þeir voru með besta árangurinn í deildakeppninni, en þegar þeirra besti maður, Josh Childress meiddist og spilaði ekki með á móti Alabama í 2. umferð tapaði liðið leik nr. 2 í vetur. En aftur að Duke - Connecticut. Duke er kannski ekki með eins sterkt lið og mörg seinustu ár, en þeir eru með Luol Deng í ár. Deng hefur spilað frábærlega í seinustu leikjum og þeir væru ekki komnir hingað væri hann ekki í liðinu. Þessi maður á án efa eftir að verða stórstjarna í NBA boltanum.
Connecticut er hins vegar ekki með einn snilling, heldur tvo! Þeir hafa Emeka Okafor sem er í dag líklegasti kandídatinn sem háskólaleikmaður ársins. Ótrúlegur leikmaður, varnarskrímsli og hefur á seinustu árum orðið verulega sterkur á low-post. Maður sem ekki er hægt að stoppa undir körfunni. Síðan er UConn líka með Ben Gordon, frábæran dripplara sem hefur verið að skína í seinustu leikjum, t.d. skoraði hann 36 stig í seinasta leik á móti Alabama.
Ef að þessir tveir verða heilir á móti Duke á laugardaginn er ég ekki að sjá hvernig UConn ætti að tapa leiknum. Þeir eru einfaldlega bara of góðir, báðir verðandi NBA leikmenn.
Hin viðureignin, Georgia Tech - Oklahoma st. er barátta litlu liðanna. Georgia hefur reyndar oft verið með gott lið og má nefna leikmenn eins og Stephon Marbury, Dion Glover og Jon Barry sem hafa spilað með því. Samt hefur því alltaf gengið illa í úrslitakeppninni og aðeins einu sinni áður komist í Final four.
Í ár eru það þrír bakverðir sem liðið treystir á, þeir Jarret Jack, BJ Elder og Marvin Lewis. Jarret Jack er besti leikmaður liðsins, mjög fjölhæfur og hefur stjórnað leik liðsins í vetur. Hann þarf að spila vel ætli liðið að vinna Oklahoma.
Oklahoma state er sterkara liðið í þessari viðureign og ætti samkvæmt öllu að vinna þennnan leik. Oklahoma er sögufrægt lið, var mjög gott á 5. áratugnum en seinustu ár hefur því gengið frekar illa og ekki verið með sterkari liðunum í deildinni. Í ár hins vegar hefur allt gengið upp hjá því, 31-3 vinningshlutfall í deildakeppninni og komnir í Final four. Það munaði samt litlu að þeir dyttu út fyrir St. Joseph's í seinustu umferð, voru 1 stigi undir en PG þeirra John Lucas setti þrist þegar 6 sek voru eftir.
Eins og Georgia Tech treystir Oklahoma á bakverðina sína. Besti maður liðsins er SG að nafni Tony Allen. Hann er svona leikmaður sem gerir allt, skorar, frákastar, gefur stoðsendingar og stelur boltum. Hinn maðurinn er fyrrnefndur John Lucas. Fínn PG sem að stendur undir nafni. Með þá tvo heila finnst mér líklegast að Oklahoma st. vinni þetta.
Þá er bara eftir að spá. Ég er nokkuð viss um að Oklahoma taki Georgia Tech en Duke - UConn á eftir að verða spennandi einvígi. Samt hallast ég á sigur Connecticut og svo er ég nokkuð viss um að þeir myndu taka Oklahoma í úrslitaviðureigninni. Það yrði líka frábær endir á háskólaferli þeirra Emeka Okafor og Ben Gordon.