Eftir fyrri helming tímabilsins virtist sem að LeBron James, þrátt fyrir að spila frábærlega, gæti ekki leitt Cleveland til sigra. Þeir spiluðu vel en virtust ekki hafa það sem þarf til að klára leikina. Nú er hins vegar annað uppi á teningnum. LeBron, Boozer og Ilgauskas eru búnir að eiga hvern stórleikinn á eftir öðrum og liðið er búið að vinna 11 af seinustu 13 leikjum. Þeir eru í 6. sæti austurdeildarinnar og eiga góða möguleika á sæti í playoffs eins og staðan er núna, en baráttan er mikil um 6-8. sæti, Cleveland, N.Y, Miami, Boston og Toronto geta endað hvar sem er.
Mér finnst að með þessu gengi í seinustu leikjum hafi LeBron endanlega sannað hversu góður leikmaður hann er. Ég meina, hann var búinn að sýna að hann er alveg tilbúinn í NBA með því að vera yfirburðarmaður í öllum tölfræðiþáttum, en nú er hann búinn að sýna að hann geti líka leitt liðið sitt til sigurs og það gerir mann að helmingi betri leikmanni. Hann mun aldrei komast í hóp Jordan, Magic og Bird nema með því að vinna titla. Þess vegna segi ég að ef Cleveland heldur LeBron og Boozer næstu árin eiga þeir alveg möguleika að verða meistaralið.
Washington tapar og tapar, og er núna með þriðja versta árangurinn í deildinni, en það er einn leikmaður hjá þeim sem er að eiga hvern stjörnuleikinn á eftir öðrum. Sá leikmaður er Gilbert Arenas og enn sem komið er er hann leikmaður mars mánaðar. Í seinustu 10 leikjum er hann búinn að vera með 29,3 stig, 7 stoðsendingar og 5,6 stig að mtl. Arenas kom frá GSW í sumar eftir að hafa verið valinn Most Improved Player í fyrra, og hann virðist alveg vera búinn að festa sig í sessi sem einn besti leikstjórnandi deildarinnar.
Eftir að hafa misst Shareef Abdur-Rahim og svo Rasheed Wallace seinna hefur Atlanta Hawks verið í tómu tjóni. Þeir hafa tapað 10 af seinustu 13 leikjum og margir þeirra hafa verið ansi skrautlegir. Meðal annars töpuðu þeir fyrir Houston í þríframlengdum leik 121-123, þar sem Yao Ming fór á kostum og var með 41 stig og 16 fráköst, besti leikur hans hingað til. Síðan unnu þeir Washington 138-124, en það er hæsta samanlagða skor liða í ár án framlengingar. Stephen Jackson átti mjög góðan leik, skoraði 42 stig sem er persónulegt met. Síðan má ekki gleyma einum sætasta sigri Hawks í vetur, en á dögunum unnu þeir Lakers í hörkuspennandi leik 94-93, þar sem Jason Terry tryggði þeim sigur með vítaskoti þegar 10 sek voru eftir.
Framkvæmdastjóri Orlando Magic, John Gabriel sagði starfi sínu lausu seinasta föstudag. Við af honum tekur fyrrv. aðstoðarmaður hans, John Weisbrod. Þetta held ég að sé góð ákvörðun hjá forráðamönnum Magic, Gabriel hefur séð um mörg léleg, jafnvel hræðileg leikmannaskipti, og ég held að þetta hefði þurft að gera mun fyrr.