Spáð fyrir úrslitakeppnina Nú er Intersport deildin búin og Snæfell deildarmeistarar. Þetta kemur nokkuð á óvart, ég hugsa að fæstir hafi spáð þeim sigri. Annars gerðist fátt óvænt í deildinni, Reykjarnesliðin koma á eftir Snæfelli og Breiðablik og nýliðar Þórs Þorl. féllu í 2. deild.
11. mars hefst svo úrslitakeppnin og liðin sem keppa þar eru Snæfell - Hamar, Grindavík - KR, Keflavík - Tindastóll og Njarðvík - Haukar. Ég ætla að spá fyrir leikina.


Snæfell - Hamar

Snæfell ætti að taka þetta nokkuð auðveldlega. Hamar er eina liðið í úrslitakeppninni sem er í mínus og hefur gengið frekar illa að undanförnu, aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum. Snæfell hins vegar, hefur verið langbesta liðið í seinni helmingi keppninnar og verður að teljast mun líklegra til sigurs. Þeir hafa mjög gott byrjunarlið og svo Lýð Vignis sem 6. mann.
Snæfell tekur þetta 2-0.

UMFG - KR

Grindjánar áttu frábæra byrjun og unnu held ég fyrstu 11 eða 12 leiki sína. Síðan misstu þeir aðeins flugið en enduðu í 2. sæti með jafnmarga sigra og Snæfell, 18 sigra og 4 töp. KR hins vegar, hefur ekki átt gott tímabil og hafa spilað undir getu. Þeir hafa leikmenn eins og Baldur Ólafs, Magna, Skarphéðin Ingason og svo auðvitað Josh Murray, einn besta kana landsins. Þrátt fyrir þennan góða leikmannahóp gekk þeim ekki vel í vetur og enduðu aðeins í 7. sæti. Grindavík eru auðvitað sigurstranglengri en KR á að geta bitið frá sér.
Grindavík vinnur einvígið 2-1

Keflavík - Tindastóll

Ég hélt fyrir mótið að Keflavík myndi vinna deildina en svo varð ekki. Þeir áttu alltof marga slappa leiki og lentu aðeins í þriðja sæti. Kannski er það einhver áhrifavaldur að þeir lögðu mikið púður í Evrópukeppnina enda náðu þeir góðum árangri þar. Þrátt fyrir slappa deild hjá þeim spái ég þeim Íslandsmeistaratitlinum og þeir munu taka þetta einvígi. Tindastóll hefur spilað mjög vel að undanförnu, unnu 4 af seinustu 5 og náðu 7. sætinu. Síkið á Sauðárkróki er sterkur heimavöllur og Tindastóll mun vinna sinn heimaleik.
Keflavík sigrar 2-1

Njarðvík - Haukar

Njarðvík og Haukar eru álíka góð lið og þetta einvígi á eftir að verða stórskemmtilegt. Það er kannski dálítið erfitt fyrir mig að spá þessu þar sem ég er harður haukamaður, og auðvitað spái ég mínum mönnum sigri. Samt er Njarðvík með mjög gott lið. Þeir eru með Brandon Woudstra sem er mjög góður, “íslendinginn” Brenton Birmingham og svo auðvitað tvo af bestu íslendingunum í dag, þá Pál Kristins og Friðrik Stefánsson. Síðan voru þeir víst að fá annan kana sem að mun líklegast styrkja þá ennþá meira. Haukar eru kannski ekki með besta mannskapinn en komast langt á baráttunni. Mike Manciel er að mínu mati einn besti kaninn á landinu, kannski ekki sá fyrirferðamesti en hann skilar sínum 24 stigum og 12 fráköstum í hverjum leik. Whitney Robinson hefur bætt sig með hverjum leik og er alltaf bestur þegar mikið liggur við, setti t.d. seinustu 8 stigin á móti Keflavík í gær og tryggði Haukunum sigur. Síðan má ekki gleyma Sævari sem er einn efnilegasti leikmaður landsins. Ég spái Njarðvík sigri í fyrsta leiknum, Haukarnir jafni á heimavelli og taki þetta svo í æsispennandi leik í Ljónagryfjunni.
Haukar vinna einvígið 2-1.