Washington Wizards hafa leyst leikstjórnandann Rod Strickland undan samningi sínum við liðið og er honum nú frjálst að semja við hvaða lið NBA-deildarinnar sem er. Langt er síðan ljóst varð að grunnt væri á því góða milli Stricklands og stjórnenda liðsins og er það til marks um ósættið að Strickland hefur verið sektaður nærri 20 sinnum í vetur fyrir að brjóta reglur liðsins.

Önnur ástæða fyrir því að Wizards leystu Strickland undan samningi er samningur hans sem hefur tryggt honum mun hærri tekjur en liðið taldi hann eiga skilið miðað við framlag hans á vellinum. Það varð því að samkomulagi milli liðsins og leikmannsins að hann fengi hluta samningsins greiddan núna en að restin af launagreiðslum til hans féllu niður. Þar sem Strickland var leystur undan samningi fyrir miðnætti að bandarískum tíma getur hann samið við annað lið og leikið í búningi þess það sem eftir er tímabilsins og í úrslitakeppninni. Hefði það dregist um nokkrar klukkustundir að leysa hann undan samningi hefðu reglur NBA-deildarinnar komið í veg fyrir að hann gæti samið við annað lið fyrr en næsta sumar.

Launagreiðslur hafa sligað Wizards og gert þeim erfitt fyrir að fá góða leikmenn til liðsins vegna launaþaks NBA-deildarinnar. Strickland er annar leikmaður liðsins sem er látinn fara sem hluta af endurskipulagningu liðsins á launagreiðslum. Juwon Howard var seldur til Dallas Mavericks fyrir skemmstu og losnaði liðið þar með við að greiða honum 40 milljónir dollara fyrir næstu tvö keppnistímabil. Talið er að næsti maður sem verður látinn fara sé skotbakvörðurinn Mitch Richmond, sem hefur engan veginn þótt standa undir væntingum eftir að Wizards festu kaup á honum. Liðið getur leyst hann undan samningi næsta sumar gegn tíu milljóna dollara eingreiðslu og er fastlega gert ráð fyrir því að liðið velji að greiða honum frekar fyrir að fara, og spara þannig vissan launakostnað, en að greiða honum öll þau laun sem samningur hans kveður á um.