Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands leggur á ársþingi sambandsins dagana 3.-4. maí fram tillögu frá milliþinganefnd um að liðum í úrvalsdeild karla verði fækkað úr 12 í 10 og leikið í tveimur riðlum, frá og með haustinu 2004. Samkvæmt tillögunni fara fimm efstu lið deildarinnar næsta vetur í A-riðil og fjögur þau næstu í B-riðil ásamt sigurvegaranum úr leik 10. liðs í úrvalsdeild við sigurlið 1. deildar á næsta tímabili. Í báðum riðlum verður leikin fjórföld umferð auk þess sem leikið er heima og heiman gegn liðunum í hinum riðlinum.
Í úrslitakeppni sitja tvö efstu lið A-riðils hjá til að byrja með en lið númer þrjú og fjögur leika við tvö efstu lið B-riðils, um réttinn á að mæta tveimur efstu liðum A-riðils í undanúrslitum. Eitt til tvö neðstu lið B-riðils falla síðan í 1. deild. “Með þessu er stjórnin að fylgja eftir vinnu milliþinganefndar. Þessi tillaga hefur verið send félögunum til að þau geti velt henni fyrir sér yfir páskana og gert athugasemdir í tæka tíð. Við höfum líka sent út aðra kosti til skoðunar, átta liða deild með fjórfaldri umferð og engri úrslitakeppni, 10 liða deild með tvöfaldri umferð og úrslitakeppni, átta liða deild með riðlaskiptingu og úrslitakeppni, og síðan er einn kosturinn enn að sjálfsögðu sá að breyta engu. En með þessari aðaltillögu teljum við að við fáum miklu meiri spennu allt tímabilið, á mörgum stöðum í deildinni,” sagði Pétur Hrafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri KKÍ.

Tekið af mbl.is