Chicago Bulls unnu Lakers í nótt, í Chicago, eftir að hafa haldið Shaq í aðeins 13 stigum. Centerinn hjá Bulls, hinn 20 ára Eddy “Baby Shaq” Curry spilaði góða vörn á Shaq og setti 20 stig á 27 mínútum og var þetta 3. leikurinn hans í röð með yfir 20 stigum. Jalen Rose skoraði 27 stig og hitti úr 6 af 7 þriggja stiga skotum. Jamal Crawford, sem hefur verið að byrja inn á í staðinn Jay Williams, skoraði 24 stig og var með 10 stoðsendingar. Bulls hittu fáranlega úr þristum, 12 af 15! Bulls náði 17 forustu rétt fyrir hálfleik.
Kobe Bryant skoraði 36 stig og Rick Fox var með 23 stig.
Chicago eru með ungt lið, með þó nokkra breidd og þetta er lið sem maður þarf að fylgjast með, Eddy Curry og Tyson Chandler eru báðir 20 ára en eru samt gríðarlega sterkir líkamlega og ef þeir geta staðið í Shaq, þá geta þeir staðið í hvaða ófreskjum sem er. Þetta lið er kornungt og með marga góða spilara og athyglisvert er að Jalen Rose er sá eini sem hefur spilað meira en 31 mínútu að meðaltali í leik. Þeir eru þó langt frá því að komast í playoffs, en eru mjög efnilegir og geta bara verið betri. Meðalaldurinn hjá byrjunarliðinu er aðeins 23.8 ára, en leikmenn NBA koma úr háskóla oftast 22 ára. Jalen Rose og Donyell Marshall eru elstir, 29 ára hvor. Bulls fá sennilega valrétt í það minnsta topp 10 núna og geta nælt sér í fleiri efnilega leikmenn.
Vandamál Bulls hefur verið hrikalegur árangur á útivelli sem og vandamál með móralinn, en Jay Williams hefur alltof mikið verið að bulla í fjölmiðlanna og Jalen Rose hefur sýnt að hann er ekki ánægður með ummæli nýliðans. Jay Williams, sem var valinn númer 2 í nýliðavalinu, hefur ekki sýnt sitt rétta andlit hingað til og hefur einnig ýjað að því að hann vilji fara frá liðinu og einhvern veginn sér maður ekki Jay Williams sem framtíðarleikstjórnanda hjá Bulls. Hann er góður og verður mjög góður, hann er mjög skólaður enda kemur hann frá Duke háskólanum, en hann þarf að læra að halta kjafti og muna það að hann er nýliði sem á alveg eftir að sanna sig.
Þessi leikur var sá fyrsti í 6 leikja ferðalagi Lakers þar sem þeir eiga eftir að mæta liðum eins og Detroit, Minnesota og Sacramento. Ljóst er að ef Lakers geta ekki unnið Bulls þá þurfa þeir lítið að mæta gegn þessum 3 liðum, Shaq er það mikilvægur fyrir þetta Lakers lið að þeir geta ekkert án hans.
Ég ætla að bíða með það að gefa Lakers titilinn strax, þótt ég hafi sagt áður að ekkert lið geti stöðvað Lakers. Það verður gaman að sjá þá gegn Sacramento, Minnesota og Detroit á útivelli. Shaq er að eiga sitt slakasta tímabil frá sínu 1. ári og virðist miklu hægari og ekki eins og kraftmikill eins og hann var. Hann er samt óstöðvandi þegar hann kemst á skrið, en kannski er hann ekki alveg að þola öll þessi kíló, enda er það ekkert skrýtið þegar maðurinn er að bera 150 slík.
Lakers og Bulls þykja spila svipaðan körfubolta, bæði liðin spila þríhyrning og kannski hefur Bulls kunnað að verjast þríhyrningsspili Lakers þótt ég viti það svo sem ekki, en við fáum að sjá hvernig Lakers standa sig gegn Sacramento, Minnesota og Detroit á útivelli.