Keflavíkurliðið sýndi sínar bestu hliðar á parkettinu á Sunnubrautinni í gærkvöldi og buðu fjölmörgum áhorfendum upp á körfuboltasýningu a la Keflavíkurhraðlestin. Sigurður þjálfari tefldi fram hávöxnu liði í byrjun og lét þá Damon, Ed og Jonna alla hefja leikinn. Enda voru Keflvíkingar ráðandi undir körfunum og gátu keyrt upp hraðann. Maggi og Gunni Einars voru einnig í byrjunarliðinu í þetta skiptið.
Keflavík náði strax góðu forskoti sem var um 10 stig allt þar til að Haukarnir jöfnuðu í stöðunni 40-40. Þá hertu Keflvíkingar aftur varnarleikinn og keyrðu forskotið aftur upp í tíu stig fyrir leikhlé. Í byrjun seinni hálfleiks jókst forskotið strax og Keflvíkingar skemmtu áhorfendum með frábærri pressuvörn, 3ja stiga skotum, ævintýrasendingum og miklum hraða. Einnig áttu Jonni og Damon frábær “blokk” sem vöktu mikla hrifningu. Enda misstu Haukarnir fljótlega móðinn og úrslitin voru í raun ráðinn fyrir byrjun síðasta leikhluta, spurningin var einungis hve stór sigurinn yrði. Lokastaðan var 121-85.
Allir leikmenn Keflavíkurliðsins skiluðu hlutverki sínu vel og var gaman að sjá menn koma inn af bekknum með baráttuglampa í augunum, sama hver átti í hlut. Sverrir Þór var geysiöflugur og greinilegt er að sá drengur hefur bara einn gír, þann fimmta, því hann er alltaf í botni. Hreint ótrúlegur baráttujaxl og metnaðargjarn varnarmaður. Gunnar Stefánsson átti skemmtilega innkomu, en hann hefur töluvert þurft að vera í því vanþakkláta hlutverki að verma varamannabekkinn í vetur. Hann sýndi það í þessum leik að honum er vel treystandi og hann hefur skemmtilega útgeislun sem leikmaður, því hann nær góðu sambandi við áhorfendur.
Gaui, Falur, Gunni Einars, Maggi, Jonni og Davíð voru allir prýðilegir og nýttu færin sín vel og lögðu sig fram í vörninni. Það sama má segja um Damon og Ed, en sá síðarnefndi býr yfir miklum leikskilningi og les leikinn vel, bæði í vörn og sókn. Hann hefur greinilega styrkt liðið, því án nokkurs vafa var leikurinn í síðustu umferð sá besti sem liðið hefur sýnt í vetur.
Haukarnir voru gjörsamlega yfirbugaðir í leiknum og var Stevie Johnson sá eini sem eitthvað kvað að. Hann er alveg frábær körfuboltamaður og er hrein unun að fylgjast með honum. En hann getur ekki unnið Keflavík einn síns liðs, svo mikið er víst.
Næst á dagskrá eru Skallarnir í Borgarnesi og verður það athyglisverð viðureign, því þar mætast þeir bræður Ingimundarsynir í þriðja skiptið í vetur. Keflavík hefur oft lent í miklum erfiðleikum í Borgarnesi og heimamenn munu berjast fyrir lífi sínu, en þeir töpuðu naumt fyrir Tindastóli í gærkvöld og heyja nú alvarlega fallbaráttu